Fara beint í efnið
Heilbrigðisstofnun Norðurlands Forsíða
Heilbrigðisstofnun Norðurlands Forsíða

Heilbrigðisstofnun Norðurlands

Iðjuþjálfun er bæði skapandi og praktískt starf

27. október 2024

Í dag fögnum við Alþjóðlegum degi iðjuþjálfunar! Hjá HSN starfa sjö iðjuþjálfar og ein af þeim er Deborah Júlía Robinson, eða Debbie. En hvaða hlutverki gegnir iðjuþjálfi og hver eru helstu verkefnin? Debbie fer yfir þetta hér, en hún segir starfið sé bæði mjög praktískt og skapandi. Til hamingju með daginn allir iðjuþjálfar!

Iðjuþjálfun

Iðjuþjálfun er fagstétt sem er frekar ung hér á landi en hefur farið ört vaxandi. Á meðal sjö iðjuþjálfa sem starfa vítt og breitt hjá HSN er Deborah Júlía Robinson, eða Debbie eins og hún er venjulega kölluð. Debbie sem á ættir að rekja til enskumælandi hluta Suður-Afríku, nánar tiltekið til borgarinnar George við hina fallegu Blómaleið (“Garden Route”), kom til Íslands 25 ára gömul á ævintýraferðalagi sínu um heiminn, þá nýútskrifuð úr háskóla þar sem hún lærði almannatengsl og markaðsmál. Miklar kúvendingar hafa orðið á hennar högum síðan þá.  

“Ég var búin að ferðast aðeins um heiminn, en endaði svo á Flateyri fyrir vestan á vertíð. Það var frábær reynsla sem kenndi mér margt og matarmanneskjan ég er ævinlega þakklát fyrir það að hafa lært að þekkja gott hráefni eftir þennan tíma.“ Debbie kynnist manninum sínum fyrir vestan og þau stofna fjölskyldu, en þau eiga þrjú börn og fimm barnabörn. Frá Flateyri flutti fjölskyldan til Sauðárkróks en þá var Debbie orðinn enskukennari. Á Sauðárkróki nýtti hún námið sitt og stofnaði PR-stofuna, sem sá mikið um textagerð á ensku fyrir fyrirtæki í m.a. sjávarútvegi og ferðaþjónustu sem áttu í miklum samskiptum erlendis. Síðan ákvað fjölskyldan að flytja til Akureyrar. „Á þeim tíma var ég farin að líta í kringum mig varðandi að skipta um starfsvettvang og læra eitthvað nýtt. Ég rakst á iðjuþjálfanám í Háskólanum á Akureyri sem var tiltölulega nýtt og fann eiginlega strax að það hentaði fullkomlega fyrir mig. Þetta er ótrúlega praktískt nám en einnig svo lausnamiðað og skapandi.“  

Hvað gerir iðjuþjálfi? 

Iðjuþjálfar hafa það að markmiði „að efla iðju, þátttöku, heilbrigði og velferð einstaklinga, hópa og samfélaga“, eins og kemur fram á vefsíðu Iðjuþjálfafélagi Íslands. Þeir starfa með fólki á öllum aldri sem af einhverjum ástæðum glímir við iðjuvanda sem hamlar þeim eða hindrar þátttöku í daglegu lífi. Þeir vinna breitt í samfélaginu, eins og í heilbrigðis- og félagsþjónustu, skólum, félagasamtökum, sjálfseignarstofnunum, stjórnsýslu og fyrirtækjum á almennum vinnumarkaði. „Ég segi að þetta sé skapandi starf, því ég þarf að vera mjög lausnamiðuð til að sjá hvernig ég get best hjálpað, en þetta er líka mjög praktískt starf, þú sérð strax að þú getur breytt aðstæðum fólki til hins betra sem er mjög gefandi.“ 

Iðjuþjálfun hefur verið kennd síðan rétt fyrir síðustu aldamót í Háskólanum á Akureyri svo fagið er frekar ungt hér á landi. Debbie byrjaði sem iðjuþjálfi hjá HSN í svokölluðu heilsueflandi heimsóknum, þar sem skipulagðar heimsóknir til fólks yfir áttræðu voru settar á laggirnar til að geta stutt við fólk sem vildi búa heima hjá sér sem lengst og vera sjálfstætt í sínum daglegu gjörðum. Núna vinnur hún innan heimahjúkrunar HSN, sem sinnir bæði öldruðum einstaklingum og þeim sem eru að kljást við langvinna sjúkdóma eða glíma við eftirköst slysa eða stórra aðgerða. „Við sem erum búin að vera lengi í þessu fagi höfum í raun verið að skapa hefðina fyrir því að iðjuþjálfun sé mikilvægur hluti af forvörnum, endurhæfingu og til heilsueflingar með það að markmiði að gera fólki kleift að vera sjálfstætt í sínum daglegu verkum. Þekkingin á starfinu hefur því aukist mikið á meðal almennings sem er af hinu góða.“  

Debbie2

Leirnámskeið hjá vinum í Frakklandi

Þverfagleg starf og vaxandi áhugi á faginu 

Iðjuþjálfun snýst mikið um að koma með rétt tæki og tól inn á heimili fólks til að aðlaga og bæta umhverfi fyrir einstaklinginn, en ekki síst fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem kemur inn til aðstoðar. „Ég kem yfirleitt með í fyrstu vitjun ásamt hjúkrunarfræðingi til að fara yfir húsnæðið og get þá komið með tillögur til að gera bæði aðgengi skjólstæðinga auðveldara og öruggara, sem einnig hjálpar heilbrigðisstarfsfólki að sinna vinnunni af meira öryggi og minnka slysahættu. Við erum að passa upp á öryggi fólks, að reyna að minnka byltuhættu með réttum aðstoðartækjum. Í heimahjúkrun eru helstu rýmin baðherbergi, eldhús og svefnherbergi. Á baðbergi þá geta lausnir falið í sér eitthvað einfalt en mjög praktískt eins og stóll í sturtu og arma á veggi til að grípa í og í svefnherbergi til að mynda grind við rúm og svo göngugrind til að komast um af meira öryggi. Stundum þarf lítið til, bara arma hér og hvar en svo getur þurft stærri tæki eins og hjólastóla eða lyftisegl sem hjálpa til við að færa rúmliggjandi einstaklinga á milli svæða. Svo fer fram endurmat eftir því sem fram vindur. Markmið mitt er samt að vera ónauðsynleg fyrir skjólstæðinga mína eftir að ég hef heimsótt þá, kennt þeim nýja færni og komið fyrir nauðsynlegum tækjum og tólum.“ 

HSN hefur tekið inn iðjuþjálfunarnema  í samstarfi við Háskólann en Akureyri, en Debbie hefur einnig kennt kúrs í faginu þar. „Það er mjög mikilvægt að vera í góðu samstarfi við háskólann og við höfum tekið reglulega inn nema í starfsnám. Ég tel að þessi fagstétt verði æ mikilvægari því fólk vill geta verið sem lengst heima hjá sér þrátt fyrir mismunandi aðstæður og iðjuþjálfun kemur þar inn sem mikilvægur hlekkur til að styðja við þau markmið.“