Fara beint í efnið
Heilbrigðisstofnun Norðurlands Forsíða
Heilbrigðisstofnun Norðurlands Forsíða

Heilbrigðisstofnun Norðurlands

Hvar er gamla bólusetningarskírteinið mitt?

12. apríl 2024

Sigríður Dagný Þrastardóttir, deildarstjóri móttökuritara og heilbrigðisgagnafræðinga hjá HSN á Akureyri.

HSN_Sigridur_Dagny

Öll þekkjum við nauðsyn þess að taka til í geymslunni þegar við flytjum í nýtt húsnæði. Sigríður Dagný Þrastardóttir, deildarstjóri móttökuritara og heilbrigðisgagnafræðinga hjá HSN á Akureyri hefur sannarlega tekið til hendinni hjá HSN í þessum efnum ásamt samstarfsfólki sínu, en við flutninga heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri yfir í Sunnuhlíð var mikið púður lagt í að klára að fara yfir heilbrigðisgögn sem safnast hafa saman á pappír frá árinu 1938, skrá vel og koma þeim á stafrænt form, pakka eftir settum stöðlum og senda á Þjóðskjalasafnið til varðveislu. Heilbrigðisstofnun Norðurlands er afhendingarskyldur aðili og ber því að skila gögnum til varðveislu en árið 2021 var rúmlega 20 vörubrettum af skjölum skilað til Þjóðskjalasafns. 

„Við erum búin að vera að vinna í þessu undanfarin ár. Þetta eru heilbrigðisgögn af öllum starfsstöðvum sem hafa mikið sagnfræðilegt gildi og sýna hvernig hlutirnir voru gerðir í gamla daga. Það er mikill sjarmi í því að vinna með svona gamalt efni.“ 

Siggaoghafrunmedbretti

Ýmsum gögnum er komið á stafrænt form, í svokallað sögukerfi sem heldur utan um sjúkraskrár. Síðan er allt sent á Þjóðskjalasafnið til varðveislu, en þar geymist það sem heimild fyrir einstaklinga eða í fræðilegum tilgangi til að stuðla að rannsóknum á sögu þjóðarinnar. „Þetta er mikill pappír, en við verðum að standa vörð um þetta gamla efni. Tökum sem dæmi gömlu góðu bólusetningarskírteinin sem fylgdu okkur frá fæðingu og áfram og hafa glatast í mörgum tilfellum. Áður en við sendum þau á Þjóðskjalasafnið, færum við þau öll inn í sögukerfið sem gerir aðgengi að þeim einfaldara en áður.“ 

Það er lykilþáttur að tryggja gæði og réttmæti í heilbrigðisgögnum og þessi vinna er grundvöllur að koma meðferð allra sjúkraskráa í viðurkennt verklag svo þær séu geymdar með stöðluðum hætti, auðfundnar og tilbúnar til notkunar. „Svo er þetta okkar sjúkrasaga, okkar grunnur sem er mikilvægt að varðveita og getur skipt máli fram veginn.“ Verkefnið er ærið, en Sigríður Dagný og teymi eru farin að sjá í land með að færa inn sífellt nýrra efni inn í sögukerfið. „Held að við gefum þessu að minnsta kosti ár í viðbót og þá erum við alveg komin inn í nútímann.“  

HSNskjalaflokkun