HSN tekur þátt í "Öruggara Norðurland vestra" - nýr samráðsvettvangur gegn ofbeldi og öðrum afbrotum
21. mars 2024
Miðvikudaginn 20. mars var haldin vinnustofa um "Öruggara Norðurland vestra" í Félagsheimilinu á Blönduósi. Þar komu allir helstu hagaðilar verkefnisins að undirbúningi eða samtali með einum eða öðrum hætti og er HSN þar á meðal.
Öruggara Norðurland vestra er svæðisbundinn samráðsvettvangur gegn ofbeldi og öðrum afbrotum. Á vinnustofunni var unnið með þrenn þemu; farsæld barna og ungmenna á Norðurlandi vestra, ofbeldi í nánum samböndum og einstaklingar í viðkvæmri stöðu.
Helga Margrét Jóhannesdóttir, yfirhjúkrunarfræðingur svæðis á Blönduósi og Kristrún Snjólfsdóttir, yfirhjúkrunarfræðingur svæðis á Sauðárkróki héldu erindi um verklag tengt ofbeldi í nánum samböndum, ásamt fulltrúm frá barnaverndunarþjónustu, félagsþjónustu og lögreglu. Þá kynntu þær einnig nýjar vinnuleiðbeiningar um móttöku eftir kynferðisofbeldi, sem teknar voru í notkun hjá HSN í lok ársins 2023.
Alice Harpa Björgvinsdóttir, yfirsálfræðingur kynnti sálfélagslega þjónustu HSN. Í erindinu var einnig fjallað um þjónustu geðheilsuteyma hjá HSN og Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE).
Í lok vinnustofu var skrifað undir samstarfsyfirlýsingu sem miðar að því að tryggja langtíma- og sjálfbært afbrotavarnasamstarf milli lögregluyfirvalda og samstarfsaðila.
Samstarfsaðilar eru: Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra, Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra, Samband sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra, Ungmennasamband Skagafjarðar, Ungmennasamband Austur Húnvetninga, Ungmennasamband Vestur Húnvetninga og sveitarfélögin Skagafjörður, Skagabyggð, Skagaströnd, Húnabyggð og Húnaþing vestra.
Samstarfsyfirlýsingin er mikið gæfuspor í átt að bæta þjónustu við íbúa Norðurlands vestra og fagnar HSN aðild að slíku samstarfi.