Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi hlaut 10 milljóna króna styrk vegna innleiðingar smáforritsins Memaxi
24. janúar 2025
Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi hefur hlotið styrk fyrir innleiðingu á snjall lausninni Memaxi, með það að markmiði að efla fjarheilbrigðisþjónustu á starfssvæði sínu.


Á myndinni eru frá vinstri Guðný Friðriksdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar HSN, Helga Margrét Jóhannesdóttir yfirhjúkrunarfræðingur svæðis hjá HSN á Blönduósi, Ingunn Ingimarsdóttir framkvæmdastjóri Memaxi og Árni Kár Torfason forstöðumaður upplýsingatæknimála HSN.
Markmið með innleiðingunni á Memaxi er að rjúfa einangrun og stuðla að því að skjólstæðingar starfssvæðisins geti verið í sjálfstæðri búsetu sem lengst.
Ingunn Ingimarsdóttir, framkvæmdastjóri Memaxi heimsótti Blönduós í gær og kynnti tæknilausnina fyrir starfsfólki HSN. Starfsfólki félagsþjónustunnar var einnig boðið að sitja kynninguna.
Næstu skref eru að greina þarfirnar og forgangsraða og þróa áfram fjarheilbrigðislausnir svo nýtist best í dreifðum byggðum. Auk Memaxi hefur HSN á Blönduósi einnig notað lyfjaróbota í heimahúsum.
Dýrmætt að fá þennan styrk
Heilbrigðisráðuneytið úthlutaði styrkjum til verkefna á sviði fjarheilbrigðisþjónustu á grundvelli byggðaáætlunar stjórnvalda. Markmið þeirrar aðgerðar er að auka og bæta aðgengi að heilbrigðisþjónustu með nýsköpun og nýtingu tækni og fjarskipta við framkvæmd þjónustu.
Alls fengu fimm stofnanir styrk úr sjóðnum, samtals að upphæð 43,2 milljónir króna og var Heilbrigðisstofnun Norðurlands ein þeirra, og hlaut 10 m.kr. styrk vegna innleiðingar smáforritsins Memaxi í velferðarþjónustu. Við úthlutun styrkja var byggt á forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu og ætlaðan ávinning af verkefnunum.
"Það er afar dýrmætt fyrir HSN á Blönduósi að fá þennan styrk. Við viljum vera framsækin og nýta okkur velferðatæknilausnir til að bæta þjónustu við skjólstæðingana okkar og jafna aðgengi að henni. Þetta er stórt skref í átt að þeirri sýn að þjónustan verði veitt í auknum mæli inn á heimilunum og að íbúar á starfssvæði okkar fái að búa heima eins lengi og þeir kjósa" segir Helga Margrét Jóhannesdóttir yfirhjúkrunarfræðingur svæðis á Blönduósi.


Hvað er memaxi?
MEMAXI er samskipta- og skipulagslausn sem brúar bilið milli þeirra sem njóta aðstoðar, fjölskyldna þeirra og þjónustuveitenda. Með því að tengja saman alla þá sem veita aðstoð aukast gæði þjónustunnar og auðveldara verður að skipuleggja aðstoðina og skiptast á upplýsingum.
Þjónustunotendur fá spjaldtölvu með einföldu og myndrænu viðmóti sem birta helstu upplýsingar dagsins svo sem dagskrá, minnismiða, myndir, gestabók og fleira. Þjónustuveitendur og aðstandendur geta hringt myndsímtöl í þá sem njóta aðstoðar, sent myndir og bætt inn á dagskrá viðkomandi. Memaxi auðveldar því allt skipulag í kringum aðstoð og umönnun, bætir samskipti, rýfur einangrun og veitir þeim sem njóta langtímaaðstoðar nauðsynlegt öryggi og ró.