Góður starfsandi og gefandi samvera á hjúkrunarheimilinu Hvammi á Húsavík
7. maí 2024
Berglind Ragnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur er með nokkra hatta í sínu starfi, en hún er deildarstjóri á hjúkrunarheimilinu Hvammi á Húsavík og fagstjóri hjúkrunardeilda HSN, auk þess sem hún sinnir daglegum verkefnum hjúkrunar.
Gott að vinna sem hjúkrunarfræðingur á Húsavík
Berglind Ragnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur er með nokkra hatta í sínu starfi, en hún er deildarstjóri á hjúkrunarheimilinu Hvammi á Húsavík og fagstjóri hjúkrunardeilda HSN, auk þess sem hún sinnir daglegum verkefnum hjúkrunar. Hún er uppalin í Þistilfirði en hefur búið á Húsavík síðan 2004 og segir gott að búa þar enda sé bærinn mjög fjölskylduvænn og samfélagið gott.
„Já, hér er frábært að búa, enda allt til alls og gott bæjarlíf. Ég er hjúkrunarfræðingur með diplómu í klínískri heilsugæsluhjúkrun og hef unnið nær allan minn starfsferil hér á Húsavík. Í dag er starfið mitt að mestu fólgið í deildarstjórn og vinnu á hjúkrunarheimilinu Hvammi á Húsavík sem er með 41 íbúa, en svo sinni ég fagstjórn á hjúkrunardeildum HSN sem eru auk Húsavíkur, staðsettar á Blönduósi, Sauðárkróki og í Fjallabyggð. Þrátt fyrir dreifða byggð þá erum við deildarstjórarnir með opna samskiptalínu, höfum stuðning hver af öðrum og leitum ráða okkar á milli, auk þess að vera samskiptum við mína yfirmenn.
Á HSN eru 169 hjúkrunar- og dvalarrými og 23 sjúkrarými. Hjúkrunardeildir HSN eru ólíkar að stærð og mismunandi að uppbyggingu, en deildin á Hvammi hefur hvað flesta íbúa. „Við leitumst við að þróa þjónustuna og vinnum eftir hugmyndafræðinni um þjónandi leiðsögn. Hún byggir á einstaklingsmiðaðri nálgun þar sem samskipti á milli starfsfólks og íbúa er mikilvægasti þátturinn. Samskipti okkar og samvera séu jákvæð og einkennist af kærleika og hlýrri nærveru, en okkur er mjög í mun að fólkið okkar upplifi öryggi og umhyggju og geti sem mest tekið þátt í daglegu lífi.“
Hugmyndavinna og stefnumótun fyrir betri þjónustu
Stöðugt samtal er í gangi varðandi þjónustu á hjúkrunardeildum þar sem hugmyndum er varpað á milli um hvernig hægt sé að bæta þjónustu við íbúa og aðstandendur. „Við erum að vinna að því að samræma sem mest verklag t.d. varðandi móttöku nýrra íbúa, efla skráningu og eftirfylgd með gæðavísum. Einnig vinna að innleiðingu nýrra tæknilausna t.d. Iðunnar skráningarappið sem við reiknum með að taka fljótlega í notkun í Hvammi til prufu fyrir alla stofnunina, en með því getur starfsfólk hjúkrunarheimila skráð upplýsingar í rauntíma og þaðan berast þær beint inn í sjúkraskrá einstaklings. Vissulega stöndum við frammi fyrir áskorunum varðandi mönnun og tíma, en með þessu erum við að samræma ýmiskonar verklag sem eflir gæði þjónustunnar okkar. Þá verður mikill akkur í því að fá Örnu Rún Óskarsdóttur, öldrunarlækni til starfa sem mun styðja vel við okkur sem og aðrar hjúkrunardeildir HSN.“
Hvammur er gamalt hús, yfir 40 ára og var ekki byggt sem hjúkrunarheimili á sínum tíma, en unnið hefur verið að því að nýtt hjúkrunarheimili rísi þess í stað. “Vonandi sjáum við fyrr eða síðar að hér rísi nýtt hjúkrunarheimili því það er sannarlega þörf á nútímanlegri og betri að aðstöðu fyrir íbúa og starfsfólk.
Starfsfólkið mesti fjársjóðurinn
“Við erum mjög heppin með starfsfólkið okkar í Hvammi sem hefur mikla og góða reynslu. Hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar sem og annað starfsfólk, sem er þaulreynt og mjög fært í sinni vinnu og gerir okkur kleift að veita íbúum og aðstandendum sem besta þjónustu.“ Ánægjulegt er að nú er að fara af stað verkefni sem kallast „sjúkraliðabrú“, þar sem starfsfólki með góða reynslu er gefið tækifæri til að fara í raunfærnimat og fara í sjúkraliðanám meðfram vinnu. Starfsfólk hefur tekið mjög vel í þetta enda felur þetta í sér aukna menntun og tækifæri fyrir það og eflir um leið faglegt starf á svæðinu. Þetta er í fyrsta skipti sem ráðist er í svona verkefni, en Þekkingarnet Þingeyinga hefur umsjón með náminu í samstarfi við Framhaldsskólann á Húsavík og HSN. “
Hjúkrunarfræði- og sjúkraliðanemum er boðið í verknám til Húsavíkur og þá segir Berglind að mikilvægt sé að sú reynsla verði jákvæð til að auka líkur á að þeir komi í sumarvinnu og jafnvel fasta vinnu síðar. „Við heyrum að fólki líkar vel að koma hingað í verknám og reynum okkar allra besta til að fá það til að sækja um starf hjá okkur í kjölfarið.“
„Við erum mjög stolt af starfinu okkar og það er mjög gefandi. Vinnustaðurinn er sérlega skemmtilegur, góður starfsandi og gefandi samskipti við íbúa og fjölskyldur þeirra. Megin áherslan er alltaf sú að við starfsfólkið erum í raun gestir á heimilum íbúanna en það skiptir ekki síður máli að starfsfólkinu líði vel – því það smitast yfir í alla þá þjónustu sem við veitum.“