Fara beint í efnið
Heilbrigðisstofnun Norðurlands Forsíða
Heilbrigðisstofnun Norðurlands Forsíða

Heilbrigðisstofnun Norðurlands

Frá Hong Kong til Húsavíkur

28. júní 2024

Ljósmóðurstarfið lýtur sömu lögmálum hvar sem er.

Hulda Thorey

Hulda Þórey Garðarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir er afskaplega sigld kona. Hún kom til Húsavíkur sem ljósmóðir alla leið frá Hong Kong árið 2019 og tók svo við starfi deildarstjóra á heilsugæslunni á Húsavík fyrir ári síðan. Auk Húsavíkur vinnur hún ásamt samstarfsfólki sínu í Þingeyjarsýslum á Kópaskeri, Raufarhöfn, Þórshöfn, Mývatni og Laugum. Hún keyrir þess vegna ófáa kílómetra en getur líka gengið til vinnu og finnst það algjörlega stórkostlegur lífstíll að búa í svona fjölskylduvænu samfélagi eins og Húsavík er.  

„Ég er mikið á ferðinni í þessu starfi, þó við vinnum auðvitað líka með fjarfundi. Ég fann það fljótt að með því að fara á hinar starfsstöðvarnar er ég miklu meira hluti af starfinu, fæ bæði meiri yfirsýn en ég nýt þess líka meira og kynnist fólkinu. Ég fer með reglulegu millibili á alla staðina og sinni klínískri vinnu, eins og t.d. krabbameinsskoðunum og meðgöngueftirliti í samstarfi við þau sem eru á stöðunum.“ 

Hulda Þórey ljósmóðir

Hjartað slær eins á Húsavík og í Hong Kong 

„Ég ólst upp á Kópaskeri en á mínar ættir að rekja vestur á Suðureyri við Súgandafjörð. Ég kom til Húsavíkur sem hjúkrunarfræðinemi í starfsnám. Ég fékk mikið sjálfstæði sem nemi og upplifði mikla fjölbreytni, sem mér fannst gríðarlega heillandi. Ég fór svo að læra til ljósmóður fyrir sunnan en ætlaði mér alltaf að koma aftur, en þá bauðst tækifæri til að flytja til Hong Kong, þar sem ég var í 20 ár. Í einhverri tilviljanakenndri heimsókn til Húsavíkur árið 2019 er mér sagt að það vanti ljósmóður á svæðið, ég ákvað að slá til og prófa og hér er ég ennþá.“ 

Hulda Þórey var glæný ljósmóðir í Hong Kong þegar hún fór að leysa af í lítilli ljósmæðraþjónustu sem hún keypti síðan og stækkaði. „Það er margt að sjá sem er ólíkt því sem maður er vanur, ólíkir menningarlegir hlutir sem ég skildi kannski ekki strax. En engu að síður er ljósmóðurstarfið alls staðar eins, það snýst um það sama – hlýja nálgun og heiðarleika í starfi. Húsavík eða Hong Kong, fjölskylduferlið er eins, hjartað slær eins.“  

Hulda Þórey Hong Kong

Konur upplifi sig öruggar á meðgöngu 

Það fæðast á bilinu 35-65 börn í Þingeyjarsýslum á hverju ári en langflest fæðast þau á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Næstum allri meðgönguvernd er engu að síður sinnt heima í héraði. „Við erum í nánu sambandi við verðandi mæður heima í héraði og erum alltaf tilbúnar ef eitthvað óvænt gerist. Við erum líka með mjög góða tengingu við Sjúkrahúsið á Akureyri, fæðingar- og kvensjúkdómalæknir kemur reglulega til okkar á Húsavík og sinnir eftirliti.  Við leggjum mikla áherslu á að konur upplifi sig öruggar þrátt fyrir fjarlægðir.“ 

Hulda Þórey með barn

Vinna með sveitarstjórnum að forvörnum og heilsumiðaðri nálgun 

Það er gott og þverfaglegt teymi sem sinnir heilsugæslu í Þingeyjarsýslum. „Þetta er lifandi samstarf þvert á starfsstöðvar sem er sífellt í mótun. Við vinnum mikið með sveitarstjórnum og reynum að samræma vinnulag með heilsumiðaða nálgun í samfélaginu. Við viljum vera í forvarnarhlutverki og reynum samnýta þau úrræði sem við höfum með öðrum starfsstöðvum. Það er áhugaverður hluti af starfinu að taka þátt í að móta þetta á víðum grundvelli og finna út hvernig við getum forgangsraðað með þarfir fólks í huga.“ 

Hulda Þórey og samstarfsfólk í Þingeyjarsýslum er um þessar mundir að kafa dýpra í heilsueflingu aldraðra, verkefni sem er verið er að þróa betur með leiðsögn frá Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu. „Þetta er mjög skemmtilegt verkefni sem er komið aðeins í gang. Við höfum nú þegar hitt um 50 eldri borgara á Húsavík í kringum þetta átak og munum útvíkka yfir á hinar stöðvarnar. Þá erum við einnig að þróa áfram og útvíkka þjónustu með meðgönguvernd heima í héraði og bjóðum upp á heimavitjanir í samvinnu við hjúkrunarfræðinga á svæðinu.“