Fara beint í efnið
Heilbrigðisstofnun Norðurlands Forsíða
Heilbrigðisstofnun Norðurlands Forsíða

Heilbrigðisstofnun Norðurlands

Félagsráðgjöf – ný og öflug þjónusta hjá HSN

23. ágúst 2024

Mikilvægur stuðningur fyrir skjólstæðinga þegar á reynir.

LiljaSif

Lilja Sif Þórisdóttir, nýr félagsráðgjafi hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Akureyri hefur í mörgu að snúast í sínu starfi. Hún útskrifaðist með meistarapróf í félagsráðgjöf frá Gautaborgarháskóla vorið 2018 eftir að hafa tekið grunnnámið við Háskóla Íslands. Hún fór strax að vinna í heilbrigðiskerfinu, fyrst hjá Sjúkrahúsinu á Akureyri, en kom síðan til starfa til HSN í mars síðastliðnum. Störf félagsráðgjafa eru frekar nýtilkomin í heilsugæslu hér á landi og því er eitt af stóru verkefnunum að móta starfið.  

“Þörfin fyrir félagsráðgjafa í heilbrigðiskerfinu hefur farið hratt vaxandi síðustu ár síðan ég byrjaði 2018. Það er svo margt sem breytist í veikindum hjá fólki, ekki bara heilsan sjálf. Þannig felst stór hluti af mínu starfi í því að vera nokkurs konar leiðsögumaður fyrir skjólstæðinga HSN á Akureyri í  gegnum félagslega kerfið, en það getur verið erfitt að finna rétta farveginn í nokkuð flóknu kerfi réttinda-, trygginga-, bóta- og lífeyrismála, svo sem vegna barneigna, veikinda eða breytinga á högum vegna aldurs.“  

Starfsfólk heilsugæslunnar beinir málum skjólstæðinga til Lilju sem þurfa slíka aðstoð. “Við erum með stærri, fjölbreyttari og flóknari mál í samfélaginu en hér áður sem leiðir til þess að starfið innan heilbrigðiskerfsins verður einnig flóknara. Þar af leiðandi er gott að hafa fleiri fagstéttir, eins og félagsráðgjafa innan kerfisins og ná að mynda þessa þverfaglegu nálgun.” 

Ný teymisvinna á heilsugæslunni bætir þjónustu við skjólstæðinga  

Lilja Sif er verkefnastjóri innleiðingar á nýrri teymisvinnu á heilsugæslustöðinni á Akureyri, en hún gegnir líka hlutverki sem ráðgefandi aðili í því starfi. “Heilbrigðisstarfsfólki á stöðinni hefur verið skipt upp í fjögur teymi en allir íbúar svæðisins eiga að tilheyra einu heilbrigðisteymi. Meginmarkmið er að tryggja að allir skjólstæðingar, hvort sem þeir eru með heimilislækni eða ekki hljóti samfelldari þjónustu. Með þessu fyrirkomulagi er fleira heilbrigðisstarfsfólk upplýstari um stöðu mála, þverfagleg samvinna eykst og við getum veitt skjólstæðingum tryggari og skilvirkari þjónustu.” Þetta verkefni er nýkomið á koppinn en lofar mjög góðu.   

Vinnudagur á Sauðárkrók

Við vinnu á HSN á Sauðárkróki

Styður við ME sjúklinga hjá Akureyrarklínikinni 

Síðast en ekki síst er Lilja hluti af nýju teymi á vegum HSN og Sjúkrahússins á Akureyri sem kallast Akureyrarklínikin, nýrri þekkingar- og ráðgjafarmiðstöð í þágu ME sjúklinga, sem formlega var sett á stofn 16. ágúst síðastliðinn. Verkefni Akureyrarklínikurinnar er meðal annars að bæta skilning á ME sjúkdómnum og skyldum sjúkdómum og stuðla að bættri þjónustu við sjúklinga. „Þetta er mjög þarft verkefni, nú þegar hefur teymið tekið á móti rúmlega 120 sjúklingum til greiningar sem er með langvarandi eftirstöðvar af Covid og/eða ME.”    

ME sjúklingar búa oft við verulega skerta virkni og starfsgetu. Starf Lilju sem félagsráðgjafa hjá klínikinni er því mjög mikilvægt því að staða ME sjúklinga snertir ekki bara heilbrigðiskerfið heldur líka félagslega kerfið. Hún tekur þátt í greiningarviðtölum með læknum og hjúkrunarfræðingum og fylgir eftir með aðstoð, en óhjákvæmilega þarf að leysa mál sem tengjast félagslega hlutanum. „Þetta eru ekki létt viðtöl, við erum að hitta fólk sem er hreinlega miður sín og jafnvel búið að missa alla heilsu og jafnvel framfærslu líka. Eftir að réttindi frá vinnuveitenda og jafnvel stéttarfélagi eru uppurin vegna langvarandi veikinda þarf félagslega kerfið að taka við keflinu og þar kem ég inn fyrir skjólstæðinga okkar. Markmiðið er að grípa fólk sem fyrst í þessu erfiða ferli og geta veitt þeim úrræði til að það geti orðið eins virkt í samfélaginu og líkaminn býður upp á.” 

Teymið

Teymið sem vinnur á Akureyrarklíníkinni

Draumastaðan er í heilbrigðiskerfinu 

Lilja var á síðasta ári í Menntaskólanum á Akureyri þegar hún hlustaði á fyrirlestur hjá félagsráðgjafa og áhuginn kviknaði strax. “Ég vissi ekki hvað félagsráðgjöf var fyrir þennan fyrirlestur, sem kannski sýnir hversu mikilvægar svona starfskynningar eru. Upphaflega stefndi ég ekki á starf í heilbrigðisgeiranum og sérhæfingin endurspeglaði það að nokkru leyti, en ég myndi hvergi annarsstaðar vilja vera. Það er svo gefandi að vinna að því að hjálpa fólki í breyttum aðstæðum í lífi þeirra.”