Farsældarráð Norðurlands vestra stofnað
3. desember 2025
Tímamót í þjónustu við börn og fjölskyldur á svæðinu

Farsældaráð Norðurlands vestra var stofnað við athöfn í Krúttinu á Blönduósi þann 27. nóvember síðastliðinn. Stofnun ráðsins markar upphaf mikilvægs samstarfs ríkisstofnana, sveitarfélaga og annarra þjónustuaðila á svæðinu, sem miðar að því að tryggja farsæld barna, þar sem vellíðan, öryggi og jöfn tækifæri þeirra eru í forgrunni.
Fulltrúar HSN í farsældarráðinu eru Sigurbjörg Kristrún Snjólfsdóttir, yfirhjúkrunarfræðingur á HSN Sauðárkróki, sem aðalmaður, og Helga Margrét Jóhannesdóttir, yfirhjúkrunarfræðingur á HSN Blönduósi, sem varamaður. Við stofnun ráðsins flutti Ásdís H. Arinbjörnsdóttir, hjúkrunarfræðingur á HSN Blönduósi, ávarp fyrir hönd heilbrigðisþjónustunnar á svæðinu og Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSN, undirritaði samstarfsyfirlýsinguna.

Í frétt Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) kemur fram að sveitarfélögin Húnaþing vestra, Húnabyggð, Skagaströnd og Skagafjörður hafi skrifað undir samning um sameiginlega ábyrgð á farsældarráðinu. Jafnframt hafa þau undirritað samstarfsyfirlýsingu með þjónustuaðilum og stofnunum í landshlutanum, þar á meðal Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Lögregluembætti Norðurlands vestra, sýslumannsembættinu á Norðurlandi vestra, svæðisstöðvum íþróttahéraða og kirkjunni á svæðinu. Óstofnað ungmennaráð Norðurlands vestra mun einnig eiga fulltrúa í farsældarráðinu.

Á nýju ári mun farsældarráðið halda sinn fyrsta fund og hefja vinnu við mótun fjögurra ára aðgerðaáætlunar fyrir Norðurland vestra.
Stofnun farsældarráðs Norðurlands vestra marka tímamót í þjónustu við börn og fjölskyldur. Með sameiginlegu átaki, sterkri samvinnu og skýrri ábyrgð munu sveitarfélög og stofnanir svæðisins tryggja að börn á Norðurlandi vestra fái tækifæri til að dafna í öruggu, nærandi og hvetjandi umhverfi.
