Dagur lækna haldinn í fyrsta sinn, 17. maí 2024
17. maí 2024
Í dag, 17. maí er haldið upp á Dag lækna í fyrsta sinn á Íslandi til að beina ljósinu að og viðurkenna mikilvægt framlag þeirra gagnvart skjólstæðingum og samfélaginu í heild.
Læknafélag Íslands hefur valið þennan dag þar sem hann hefur sterka tengingu við sögu lækninga á Íslandi. Fyrsti sérmenntaði læknir landsins, sem einnig varð fyrsti landlæknirinn, Bjarni Pálsson, fæddist þennan dag árið 1719.
Í tilefni af deginum mun Læknafélag Íslands efna til umræðu um m.a. mikilvægi þess að læknar geti sinnt störfum sínum þannig að sem mestur tími gefist til að sinna sjúklingum og aðstandendum þeirra sem er kjarninn í þeirra störfum. Þá mun félagið einnig beina ljósum að starfsumhverfi lækna sem þarf að samrýmast því sem best gerist í nágrannalöndum okkar, því Ísland keppir við þau og fleiri um starfskrafta lækna.
Hjá HSN starfa nú um 50 læknar auk afleysingalækna. Við óskum þeim sem og öllum læknum landsins innilega til hamingju með Dag lækna sem við munum fagna árlega hér eftir - takk fyrir ykkar mikilvægu störf.