Átak um HPV bólusetningar drengja
9. janúar 2026
Sóttvarnarlæknir hefur hafið átak um HPV bólusetningar drengja sem fæddir eru árin 2008-2010 og verður bólusetning þessara árganga gjaldfrjáls í vetur.

Sýnt hefur verið fram á að bólusetning gegn HPV veiru er mikilvæg leið til að fækka krabbameinstilfellum. Átak fyrir árgang 2010 fór af stað hjá heilsugæslu síðastliðið haust og nú er komið að árgöngum í framhaldsskólum.
Bólusetning gegn HPV veirunni hófst hér á landi árið 2011, fyrst eingöngu hjá stúlkum en hefur síðan verið útvíkkuð og fyrir tveimur árum var farið að bjóða slíka bólusetningu óháð kyni fyrir tiltekna aldurshópa. Bóluefni gegn HPV beindust fyrst og fremst gegn leghálskrabbameini til að byrja með, enda er það langalgengast krabbameina sem tengjast HPV, en bóluefnin hafa sannað gildi sitt gegn HPV sýkingum óháð kyni. Krabbamein sem tengjast HPV sýkingum önnur en leghálskrabbamein eru sum algengari hjá körlum en konum, má þar nefna HPV tengd krabbamein í koki. Þess vegna hófust bólusetningar gegn HPV sýkingum óháð kyni hér fyrir um þremur árum.
Bólusetningar í Menntaskólanum á Akureyri og Verkmenntaskólanum á Akureyri munu hefjast seinni hluta janúarmánaðar og munu nemendur fá send boð í bólusetningarnar. Hjúkrunarfræðingar skólanna munu sjá um að bólusetja nemendur og geta bæði nemendur og foreldrar/forráðamenn sent fyrirspurnir til hjúkrunarfræðinganna. Sama þjónusta verður í boði á öðrum starfsvæðum HSN og verður það tilkynnt bráðlega.
Bólusetningar þeirra ungmenna sem ekki eru í framhaldsskólunum verða á Heilsugæslunni á Akureyri í febrúar og verður það auglýst þegar nær dregur.
Frekari upplýsingar um bólusetningarátakið má finna með því að skanna QR kóðann á myndinni eða smella á hlekkinn HPV bólusetningar pilta í árgöngum 2008-2010 | Ísland.is
