Akureyrarklínikin eflist - tveir nýir hjúkrunarfræðingar ráðnir
30. maí 2025
Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) hefur ráðið tvo nýja hjúkrunarfræðinga til Akureyrarklíníkurinnar, þær Ingibjörgu Ösp Ingólfsdóttur og Þórdísi Gísladóttur. Akureyrarklíníkin er greiningar- og ráðgjafamiðstöð fyrir einstaklinga með ME-sjúkdóminn eða langvarandi einkenni Covid.

Ingibjörg Ösp útskrifaðist úr hjúkrunarfræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2005, tók meistarapróf í Þróunarfræði árið 2011 við Háskóla Íslands, diplóma í hagnýtri jafnréttisfræði árið 2014 og MPH meistarapróf í lýðheilsuvísindum árið 2024, einnig frá Háskóla Íslands.
Ingibjörg starfaði lengst af á barnadeild Sjúkrahússins á Akureyri frá 2005 til 2025 með hléum. Hún vann m.a. í heimahjúkrun á Cetric Care í Osló 2013, Rjóðrinu á Landspítalanum 2016-2017, sem sendifulltrúi og hjúkrunarfræðingur Rauða krossins í Bangladesh 2018 og við kæfisvefnsrannsóknir meðal barna 2023-2024. Frá 2024 hefur Ingibjörg starfað sem skólahjúkrunarfræðingur hjá HSN og mun halda því áfram að hluta, samhliða Akureyrarklíníkinni.
Þórdís Gísladóttir útskrifaðist með BSc í sálfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2015, sem hjúkrunarfræðingur frá Háskólanum á Akureyri árið 2020 ásamt því að taka diplóma í stjórnun í heilbrigðisþjónustu árið 2021 frá sama skóla. Frá árinu 2020 til 2025 hefur Þórdís starfað sem hjúkrunarfræðingur og teymisstjóri í afleysingum í heimahjúkrun hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands.
Akureyrarklíníkin er samstarfsverkefni Heilbrigðisstofnunar Norðurlands og Sjúkrahússins á Akureyri og er samhæfandi aðili á landsvísu um greiningu og þjónustu við ME-sjúklinga. Á klíníkinni starfa níu ráðgjafar og sérfræðingar.
Við erum afar þakklát þessari öflugu viðbót og bjóðum þær Ingibjörgu og Þórdísi hjartanlega velkomna í hópinn.