Staðan í Íran: Engar vísbendingar um aukna geislun eftir árásir á kjarnorkumannvirki
24. júní 2025
Geislavarnir ríkisins hafa fylgst náið með þróun mála í Íran eftir loftárásir Ísraels sem beindust að nokkrum kjarnorkustöðvum í landinu þann 13. júní síðastliðinn. Bandaríkin réðust svo á þrjár kjarnorkustöðvar í Íran þann 22. júní, þar á meðal tvær stöðvar sem eru með skilvindur til að auðga úran.

Samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum í Íran eru engar vísbendingar um að geislavirk efni hafi lekið út í umhverfið eða að aukin geislun hafi mælst í kjölfar árásanna. Ef úran losna frá þessum kjarnorkustöðvum yrði mengunin staðbundin.
Vert er að taka fram að ekki hefur verið gerð árás á kjarnorkuverið í Bushehr við Persaflóan. Það er eina kjarnorkustöðin sem gæti leitt til alvarlegs kjarnorkuslyss sem næði út fyrir landamæri Írans, ef það yrði fyrir áras.
Alþjóðakjarnorkumálastofnunin (IAEA) hefur lýst yfir alvarlegum áhyggjum af stöðu mála og mögulegra afleiðinga árásanna fyrir kjarnorkuöryggi í Íran og mögulega víðar. Stofnunin hefur hvatt viðkomandi aðila til að sýna stillingu og halda aftur af sér, þar sem átök við eða í grennd við kjarnorkumannvirki geta haft alvarlegar afleiðingar. Eftirlitsaðilar IAEA þurfa að geta sinnt hlutverki sínu í Íran. Í því felst meðal annars eftirlit með kjarnorkustarfsemi og úran birgðum landsins, þar á meðal 400 kg af 60% auðguðu úrani sem IAEA veit ekki hvar er niðurkomið í dag.
Geislavarnir ríkisins hafa verið í sambandi við systurstofnanir á Norðurlöndunum og munu áfram fylgjast grannt með þróun mála.
Myndin með fréttinni er af kjarnorkumannvirkinu Fordow í Íran, þar sem úran er auðgað. Myndin er fengin frá NASA.