Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Geislavarnir ríkisins Forsíða
Geislavarnir ríkisins Forsíða

Geislavarnir ríkisins

Skýrsla Íslands fyrir 10. Rýnifund alþjóðasáttmála um kjarnöryggi skilað

5. september 2025

Geislavarnir ríkisins hafa lagt fram skýrslu Íslands um kjarnöryggi fyrir 10. rýnifund alþjóðasáttmála um kjarnöryggi (Convention on Nuclear Safety, CNS) sem haldinn verður í höfuðstöðvum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA) í Vínarborg vorið 2026. Samningurinn tók gildi 24. október 1996 en Ísland varð fullgildur aðili að honum haustið 2008. Í umboði Utanríkisráðuneytisins taka Geislavarnir ríkisins saman skýrslu á þriggja ára fresti um hvernig Ísland uppfyllir kröfur samningsins.

Öll svið sem samningurinn tekur til snerta Ísland ekki beint þar sem hér er ekki kjarnorka. Samningurinn inniheldur þó kröfur um lög og reglugerðir varðandi geislavarnir og kjarnöryggi sem Ísland þarf að uppfylla. Enn fremur eru kröfur um að sjálfstæð geislavarnastofnun eigi að vera til staðar og að fullnægjandi viðbúnaður tengt kjarnöryggi ásamt geislavörnum skuli vera til staðar.

Skýrsla Íslands til tíunda rýnifundarins

Þann 1. september skiluðu Geislavarnir ríkisins landsskýrslu Íslands til IAEA. Skýrslan lýsir því hvernig stjórnvöld og leyfishafar á Íslandi uppfylla ákvæði kjarnöryggissamningsins og fjallar um kjarnöryggis- og geislavarnaþætti og löggjöf varðandi kjarnöryggi á Íslandi. Nánar tiltekið er fjallað um aukinn viðbúnað á landinu vegna heimsókna kjarnorkuknúinna kafbáta. Einnig er áhersla lögð á að varpa ljósi á þær áskoranir sem Geislavarnir ríkisins stendur frammi fyrir, aðallega vegna skorts á fjármagni og mannauði og líka óvissu með húsnæðisstöðu stofnunarinnar.

Skrifstofa IAEA sér um að öll lönd sem undirritað hafa kjarnöryggissamninginn fái tækifæri til að lesa skýrslur hinna aðildarríkjanna. Hvert land fer síðan yfir úrval af skýrslum hinna og leggja fram skriflegar spurningar sem svarað er skriflega. Rýnifundurinn hefst í Vínarborg 13. apríl 2026 og þá munu Ísland og hin samningsríkin kynna landsskýrslur sínar. Einnig fer fram vinna við að koma auga á atriði sem betur mætti fara og eins það sem er til eftirbreytni og á rýnin þannig að geta nýst öllum.

Geislavarnir ríkisins

Hafðu samband

Sími: 440 8200

Netfang: gr@gr.is

Afgreiðslan er opin

Alla virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Heim­il­is­fang

Rauðarárstígur 10

105 Reykjavík

Kennitala: 540286-1169