Fara beint í efnið

Ljósabekkjanotkun ungmenna verður könnuð síðar á árinu 

6. október 2023

Í ljósi umræðu að undanförnu verður ljósabekkjanotkun ungmenna könnuð síðar á árinu. Þess konar könnun var síðast gerð árið 2016. Ljósabekkjanotkun fullorðinna hefur hins vegar verið könnuð árlega frá árinu 2004, síðast í fyrra. Samkvæmt könnun ársins 2022 var hlutfall fullorðinna sem höfðu notað ljósabekk einu sinni eða oftar á síðustu 12 mánuðum um 6%, þriðja árið í röð. Notkun ljósabekkja fylgir aukin hætta á húðkrabbameini en hættan eykst verulega þegar notkun ljósabekkja hefst fyrir 30 ára aldur.

Ljósabekkjakönnun meðal fullorðinna árið 2022

Í ljósi umræðu að undanförnu verður ljósabekkjanotkun ungmenna könnuð síðar á árinu. Þess konar könnun var síðast gerð árið 2016. Þá höfðu um 7% ungmenna á aldrinum 12-17 ára notað ljósabekk einu sinni eða oftar á undanliðnu ári þrátt fyrir 18 ára aldurtakmark sem tók gildi árið 2011.  

Ljósabekkjanotkun fullorðinna hefur hins vegar verið könnuð árlega frá árinu 2004, síðast í fyrra. Samkvæmt könnun ársins 2022 var hlutfall fullorðinna sem höfðu notað ljósabekk einu sinni eða oftar á síðustu 12 mánuðum um 6%, þriðja árið í röð. Hlutfallið hefur ekki verið lægra frá því að árlegar kannanir hófust. Myndin að ofan sýnir hlutfall fullorðinna sem notuðu ljósabekk einu sinni eða oftar á síðastliðnum 12 mánuðum. 

Hlutfall þeirra sem höfðu notað ljósabekk í könnun ársins 2022 var hæst hjá aldursbilinu 18 – 24 ára, eða um 14%. Töluverður munur er á milli kynjanna á þessu aldursbili þar sem hlutfall þeirra sem höfðu notað ljósabekk var um 5% hjá körlum en 24% meðal kvenna. Einnig sýndi könnun ársins 2022 að þeim fjölgaði sem sögðu að húðin hefði brunnið af völdum ljósabekks eða sólar á sl. 12 mánuðum. Hlutfallið fór úr 12% árið 2021 upp í 19% árið 2022 og er hæst hjá þeim sem eru á aldursbilinu 25-44 ára.   

Kannanirnar eru gerðar af Gallup fyrir hönd samstarfshóps um útfjólubláa geislun sem samanstendur af Geislavörnum ríkisins, Embætti landlæknis, Krabbameinsfélagi höfuborgarsvæðisins og húðlæknum. Samstarfshópurinn hefur ákveðið að ljósabekkjanotkun fullorðinna verði ekki könnuð í ár vegna kostnaðar við ungmennakönnunina heldur verði ljósabekkjanotkun fullorðinna könnuð annað hvert ár. 

Notkun ljósabekkja fylgir aukin hætta á húðkrabbameini og því hafa norrænu geislavarnastofnanirnar ráðið fólki frá því að nota ljósabekki í sameiginlegri yfirlýsingu. Hættan á húðkrabbameini eykst verulega þegar notkun ljósabekkja hefst fyrir 30 ára aldur.  

Í skýrslu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) sem kom út árið 2017 segir að notkun ljósabekkja til sólbaða í fegrunarskyni undanfarna áratugi hafi valdið aukinni tíðni húðkrabbameina. Einnig hefur aldur þeirra sem fá slík krabbamein í fyrsta sinn lækkað. Notkun ljósabekkja er talin valda meira en 10 þúsund tilfellum af sortuæxlum árlega og meira en 450 þúsund tilfellum af öðrum húðkrabbameinum í Bandaríkjunum, Evrópu og Ástralíu samanlagt. Skaðleg áhrif ljósabekkja eru þannig vel þekkt og því er nauðsynlegt að takmarka notkun þeirra sem mest. 

  

  

  

  

  

  

  

  

  

  

  

  

  

 

 

Geislavarnir ríkisins

Hafðu samband

Sími: 440 8200

Netfang: gr@gr.is

Afgreiðslan er opin

Alla virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Heim­il­is­fang

Rauðarárstígur 10

105 Reykjavík

Kennitala: 540286-1169