Fara beint í efnið

Ljósabekkjanotkun ungmenna 2023

21. febrúar 2024

Niðurstöður úr nýrri Gallup könnun sýna að um 8% ungmenna á aldrinum 12-17 ára notuðu ljósabekk einu sinni eða oftar árið 2023. Það er ekki marktækur munur á þessari niðurstöðu og niðurstöðu úr síðustu könnun sem gerð var meðal ungmenna en það var árið 2016. Frá árinu 2011 hefur verið í gildi 18 ára aldurtakmark á notkun ljósabekkja á Íslandi. Ástæða þess er að notkun ljósabekkja fylgir aukin hætta á húðkrabbameini og hættan er meiri fyrir börn og ungmenni en fyrir fullorðna. 

Ljósabekkur

Ljósabekkjanotkun landsmanna er reglulega könnuð af Gallup fyrir hönd samstarfshóps um útfjólubláa geislun. Í samstarfshópnum eru fulltrúar frá Geislavörnum ríkisins, Embættis Landlæknis, húðlæknum og Krabbameinsfélagi höfuðborgarsvæðisins. Mælingar á ljósabekkjanotkun ungmenna, 12-17 ára, hófust árið 2006 og mældist þá 29% en mælist nú  8%. Hlutfallið hefur því lækkað verulega frá árinu 2006. 

Þróun ljósabekkjanotkunar ungmenna á árunum 2009-2024

Samkvæmt nýju könnuninni eru þeir sem nota ljósabekki fyrst og fremst á aldrinum 15-17 ára. Einungis 1% ungmenna á aldrinum 12-14 ára höfðu notað ljósabekk á síðastliðnu ári en fyrir 15 – 17 ára var hlutfallið 14%. Sama hlutfall stúlkna og drengja á aldrinum 12-17 ára hafði notað ljósabekk árið 2023.

Þegar niðurstöður ársins 2023 eru bornar saman við niðurstöður frá árinu 2016 sést að þeir sem nota ljósabekki á annað borð fara oftar í ljós en áður. Til dæmis fjölgar þeim sem fara vikulega eða oftar í ljós úr 0,3% í 0,9% og þeir sem fara 1-3 sinnum í mánuði fjölgar úr 0,7% í 2,0%.  

Í ár var bætt við spurningu sem snýr að þekking ungmenna á hættunni við notkun ljósabekkja. Um 92% ungmennanna eru sammála þeirri fullyrðingu að notkun ljósabekkja getur valdið húðkrabbameini. Þeir sem hafa ekki notað ljósabekk á síðustu 12 mánuðum eru meira sammála þessari fullyrðingu en þeir sem hafa farið í ljós (93% miðað við 73%). 

Árið 2019 gáfu norrænu geislavarnastofnanirnar út sameiginlega yfirlýsingu þar sem fólki er ráðlagt frá því að nota ljósabekki. Geislavarnir ríkisins mæla eindregið gegn notkun ljósabekkja, enda fylgir notkun þeirra aukin hætta á húðkrabbameini.  

Geislavarnir ríkisins

Hafðu samband

Sími: 440 8200

Netfang: gr@gr.is

Afgreiðslan er opin

Alla virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Heim­il­is­fang

Rauðarárstígur 10

105 Reykjavík

Kennitala: 540286-1169