Um geislavirk efni í neytendavörum
26. júní 2025
Eftir að hafa fengið ábendingu um að verið væri að selja vöru sem innihéldi geislavirk efni á Íslandi létu Geislavarnir ríkisins innkalla vöruna í byrjun árs 2024. Í kjölfar þess ákvað stofnunin að gera markaðskönnun á því hvort verið væri að selja fleiri vörur hérlendis sem innihéldu geislavirk efni.

Fljótlega eftir að geislavirk efni voru uppgötvuð við þarsíðustu aldamót var byrjað að bæta geislavirkum efnum í ýmsar vörur og markaðssetja þær sem heilsuvörur. Má þar nefna tannkrem og sölt sem voru seld á öðrum og þriðja áratug síðustu aldar.
Það tók nokkurn tíma fyrir samfélagið og yfirvöld að átta sig á hættunni sem fylgir geislavirkum efnum og fyrir stjórnvöld að búa til regluverk utan um notkun geislavirkra efna.
Í dag er bannað að blanda geislavirkum efnum í matvæli, leikföng og skartgripi svo einhver dæmi séu tekin. Hins vegar er réttlætanlegt að hafa geislavirk efni í reykskynjurum enda ávinningurinn meiri en áhættan í því tilviki auk þess sem neytendur verða ekki fyrir geislun frá þeim.
Fyrir u.þ.b. fjórum árum fengu hollensk yfirvöld ábendingar um sölu á hálsmenum og armböndum sem væru mögulega geislavirk. Þegar þessar ábendingar voru skoðaðar kom í ljós að nokkur fyrirtæki voru að auglýsa svokallaðar “heilsu” vörur sem áttu að gefa frá sér neikvæðar jónir (e. negative ions). Samkvæmt seljendunum áttu vörurnar að hafa mjög jákvæð áhrif á heilsu notanda. Tíu vörur frá fjórum mismunandi framleiðendum voru mældar og í ljós kom að geislavirkum efnum hafði verið blandað í allar vörurnar. Hægt er a finna yfirlit yfir niðurstöðurnar frá Hollandi hérna:
Niðurstöður mælinga sýndu jafnframt, að miðað við eðlilega notkun þessara hluta þá gat geislaálag á húð farið rétt yfir viðmiðunarmörk fyrir almenning. Þrátt fyrir það er áhættan ekki mikil, enda eru viðmiðunarmörk vegna geislunar mjög ströng. Engu að síður valda vörurnar óþarfa geislun á fólk og því er mælt gegn notkun þeirra.
Dönsku geislavarnirnar gerðu í kjölfarið eigin markaðskönnun og fundu fleiri vörur sem voru til sölu í Danmörku sem reyndust innihalda íblönduð geislavirk efni. Hægt er að lesa fréttatilkynningu Dönsku Geislavarnastofnunarinnar hérna:
Eftir að hafa fengið ábendingu um að verið væri að selja vöru sem innihéldi geislavirk efni á Íslandi létu Geislavarnir ríkisins innkalla vöruna í byrjun árs 2024 (Innköllun á vöru: Límmiðar merktir Quantum Shield | Ísland.is ). Í kjölfar þess ákvað stofnunin að gera markaðskönnun á því hvort verið væri að selja fleiri vörur hérlendis sem innihéldu geislavirk efni.
Könnunin var gerð á netinu og leitað var eftir þeim vörumerkjum sem vitað er að hafa selt vörur með geislavirk efni erlendis. Auk þess var leitað að þekktum orðasamböndum sem tengjast þessum vörum, svo sem “negative ions”, “neikvæðar jónir”. Einnig var skimað yfir vöruúrval nokkurra íslenskra heilsubúða sem eru með sölusíður á vefnum.
Ekki fundust neinar vörur á vefsíðum íslenskra fyrirtækja til sölu í dag, sem vöktu grunsemdir Geislavarna ríkisins. Hins vegar komu í ljós nokkrar gamlar vefsíður, bæði sölusíður og spjallþræðir, þar sem auglýstar voru vörur sem Geislavarnir ríkisins telja líklegt að hafi innihaldið íblönduð geislavirk efni.
Með fréttinni fylgja myndir af þeim vörum sem voru seldar á Íslandi fyrir u.þ.b. 15 árum síðan og gætu hafa innihaldið geislavirk efni:

Fólk sem á vörur eins og sjá má hér fyrir ofan eða með sama vörumerki (“Quantum Science” og “balance bond”) er bent á að hafa samband við Geislavarnir ríkisins (gr@gr.is). Það sama gildir um vörurnar sem finna má á vefsíðu dönsku eða hollensku geislavarnanna sem er vísað er til hér að ofan.
Stofnunin vill samt ítreka að þó að almenningur hafi komist í snertingu við þessar vörur eða borið þær í lengri eða skemmri tíma þá er áhættan ekki mikil.