Fara beint í efnið
Geislavarnir ríkisins Forsíða
Geislavarnir ríkisins Forsíða

Geislavarnir ríkisins

Eldur sem kviknaði í Zaporizhzhya kjarnorkuverinu í Úkraínu í gær hefur verið slökktur

12. ágúst 2024

Samkvæmt nýjustu fréttum er búið að slökkva eldinn sem kviknaði í Zaporizhzhya kjarnorkuverinu í Úkraínu í gær. Skemmdir urðu á kæliturni en þær hafa ekki áhrif á öryggi kjarnorkuversins. Engin aukin geislavirkni hefur mælst á staðnum. Eftirfarandi er opinber tilkynning Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA) frá því í morgun.

Zaporizhzhia Nuclear Power Station

Sérfræðingar Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA) sem eru við Zaporizhzhya kjarnorkuverið í Úkraínu (ZNPP) sáu þéttan dökkan reyk leggja frá norðvestursvæði versins, en margar sprengingar höfðu heyrst þar allt kvöldið (11. ágúst 2024). Teymi IAEA var tjáð að gerð hefði verið drónaárás á einn af kæliturnum versins. Rafael Grossi, framkvæmdastjóri IAEA, hefur staðfest að þetta hafi ekki áhrif á öryggi versins.

IAEA teymið greindi frá því að hafa heyrt sprengingu í gær á sama tíma og starfsfólk versins tilkynnti þeim að dróni hefði að sögn lent á öðrum af tveimur kæliturnum þess.

Til að ganga úr skugga um umfang og mögulega orsök þessa atburðar óskar sendisveit sérfræðinga IAEA í Zaporizhzhya (ISAMZ) eftir tafarlausum aðgangi að kæliturninum til að geta metið tjónið.

Kjarnorkuverið hefur tvo kæliturna norðan megin við kælitjörnina, sem er utan þess svæðis sem afmarkar sjálft verið. Kæliturnar hafa hlutverki að gegna við raforkuframleiðslu kjarnorkuvers. Tjón á þeim hefur ekki bein áhrif á öryggi kjarnaofnanna sex, sem slökkt hefur verið á. Hins vegar er hætta á að hvers kyns eldur á staðnum eða í nágrenni hans dreifist einnig til staða þar sem hann gæti orðið ógn við kjarnöryggi.

Starfsfólk versins hefur staðfest að engin hætta sé á aukinni geislavirkni á staðnum þar sem engin geislavirk efni væri að finna í nágrenni ætlaðs árásarsvæðis. Teymi IAEA gerði mælingar á staðnum sem staðfestu að geislavirkni væri óbreytt frá því sem áður var.

Grossi ítrekaði að hverskonar hernaðaraðgerðir gegn verinu væru skýrt brot á fimm meginatriðum um varnir þess, sem skilgreind voru í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í maí á síðasta ári.

"Þessar ófyrirleitnu árásir stofna kjarnöryggi versins í hættu og auka hættuna á kjarnorkuslysi. Þeim verður að linna núna" sagði Rafael Grossi framkvæmdastjóri IAEA.

Geislavarnir ríkisins halda áfram að fylgjast með gangi mála út frá opinberum tilkynningum með staðfestum heimildum frá Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni.

Geislavarnir ríkisins

Hafðu samband

Sími: 440 8200

Netfang: gr@gr.is

Afgreiðslan er opin

Alla virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Heim­il­is­fang

Rauðarárstígur 10

105 Reykjavík

Kennitala: 540286-1169