Eignaþróun
Þróun eigna er leið FSRE til að losa með ábyrgum hætti vannýttar eða úreltar fasteignir úr eignasafni sínu. Markmiðin fyrir hvert verkefni eru skilgreind í hverju tilfelli fyrir sig og geta verið af ýmsum toga. Megintilgangur þess að FSRE taki þátt í að undirbúa skipulag áður en eignir eru seldar er að tryggja að Ríkið njóti þess ábata sem kann að vera fólginn í verkefninu. Almennt eru markmiðin ákvörðuð út frá því að stuðlað sé að stefnumarkandi framkvæmdum, stuðlað sé að góðum efnahag og að gætt sé að félagslegum markmiðum.
Samhengi við markmið ríkisstjórnarinnar – Fjárlagafrumvarp ársins 2026:
Þróunarverkefnum er ætlað að uppfylla markmið 2 um eignaumsýslu ríkisins: Markvissari stýring á fjárfestingum ríkisins.
Verkefnin eru stærsti einstaki liðurinn í að selja óhentugt húsnæði.
Verkefnið samræmist markmiði 2 um húsnæðismál: Jafnvægi á húsnæðismarkaði. Marmkmiðin eru:
Að tryggja nægjanlegt og tímanegt lóðaframboð
Stuðla að breytingu atvinnuhúsnæðis í íbúðarhúsnæði
Minnkað vistspor með endurnýtingu Borgartúns 7 til nýrra nota
Stefnumarkandi framkvæmdir
Vannýtt verðmæti leyst úr læðingi.
Stuðla að þróun byggðar í samræmi við fjárfestingar og áætlanir ríkis og sveitarfélaga.
Góður efnahagur
Eignir skapi tekjur.
Minnka áhættu í framkvæmdum.
Stuðla að stöðugu framboði nýbygginga á íbúðamarkaði.
Félagsleg markmið
Aðgengi að íbúðarhúsnæði.
Aðgengi að félagslegum innviðum.
Umhverfi fyrir framtíðina.
Verkefni: Borgartúnsreitur við Guðrúnartún
Borgartúnsreitur Vestur liggur milli Guðrúnartúns og Borgartúns. Fyrir liggur gilt deiliskipulag en síðan það tók gildi hefur aðalskipulag Reykjavíkur verið endurskoðað í tvígang. Þá hefur samgöngusáttmáli Höfuðborgarsvæðisins verið undirritaður og endurskoðaður. Þá hefur skipulaginu verið breytt á vestari enda reitsins þar sem til stendur að reisa hótel. Síðan deiliskipulagið var unnið hafa einnig orðið breytingar á áformum varðandi notkun og eignarhald á Borgartúni 7 en sú bygging stendur nú að mestu auð. Í því ljósi var ákveðið að endurskoða skipulag reitsins að nýju.
Verkefni: Stjórnarráðsreitur
Unnið er að endurskipulagningu Stjórnarráðsreitsins á grunni tillögu sem vann samkeppni um skipulag svæðisins 2018. Stýrihópur er að störfum undir stjórn Forsætisráðuneytis, með aðkomu Fjármála- og efnahagsráðuneytis og er umsjón í höndum FSRE um þetta verkefni.
Stýrihópurinn vinnur að því að móta deiliskipulagstillögu eða tillögur á grunni þeirrar hugmyndar sem vann samkeppnina. Markmiðið er að setja framtíðaruppbyggingu og starfsemi Stjórnarráðs Íslands í samhengi, greina tækifæri til aukinnar nýtingar bygginga, mótun nýbyggingarreita og skilgreina almenningsrými.