18. desember 2025
Nýjar ESB reglur um veiðivottorð taka gildi 10 janúar 2026
Evrópusambandið (ESB) hefur sett nýjar reglur fyrir innflutning á fiski til að sporna gegn ólöglegum og ótilkynntum veiðum. Frá og með 10. janúar 2026 þurfa veiðivottorð fyrir fisk sem fluttur er til ESB aðildaríkja, að uppfylla auknar kröfur um upplýsingar. Að auki verður gerð krafa um vinnsluvottorð fyrir unnar sjávarafurðir.
Fiskistofa hefur unnið allt árið 2025 að nýju veiðivottorðakerfi til að mæta þessum nýju kröfum með það að markmiði að breytingin hafi sem minnst áhrif á notendur kerfisins. Veiðivottorðakerfið mun frá og með 6. janúar búa bæði til veiði- og vinnsluvottorð og senda til ESB með rafrænum hætti.
Helstu breytingar á framkvæmd
Öll vottorð verða send stafrænt frá kerfi Fiskistofu inn í kerfi ESB, CATCH.
Vinnsluvottorð verður til samhliða veiðivottorði fyrir allar unnar sjávarafurðir sem fluttar eru til aðildaríkja ESB frá 6. janúar.
Breytingar á vottorðum
Nýtt útlit og aukin upplýsingagjöf er á vottorðum nýja kerfisins.
Notendur þurfa að tengja vöru og fisktegund við löndun.
Upplýsingar um veiðar, skip og skipstjóra koma úr grunnum Fiskistofu.
Frá 6. janúar:
þurfa notendur að skrá framleiðslumagn vöru.
þurfa notendur að skrá fiskvinnsluna sem vann afurðirnar.
verður vinnsluvottorð útbúið samhliða veiðivottorði fyrir unnar afurðir.
Gagnlegar upplýsingar fyrir notendur
Innskráning í kerfið er með rafrænum skilríkjum í gegnum Ísland.is á vefslóðinni https://vottord.fiskistofa.is.
Ef annar en prófkúruhafi útbýr vottorð þarf umboð.
Fiskistofa býður upp á tengingu við vefþjónustu til að senda inn veiðivottorð.
Komi upp vandamál í skráningu í gegnum Wisefish þá þarf að hafa samband við Help desk Wisefish.
Allar spurningar varðandi nýja kerfið má senda á vottord@fiskistofa.is.
Mikilvægt
Útflytjendur eru hvattir til að hefja notkun á nýja kerfinu sem fyrst þar sem eldra kerfi lokar 6. janúar 2026.
Lesa má nánar um veiðivottorð, kerfið, innskráningu og nálgast leiðbeiningar í grein um veiðivottorð á vef Fiskistofu.

