Vel heppnuð ráðstefna tileinkuð sjóeftirliti
4. júní 2025
Dagana 19. – 23. maí fór fram i Hörpu yfirgripsmikil og metnaðarfull alþjóðleg ráðstefna. Ráðstefnan, sem kallast International Fisheries Observer and Monitoring Conference (IFOMC), er eina ráðstefnan í heiminum tileinkuð sjóeftirliti.

Ráðstefnan, sem var sú ellefta í röðinni, var í fyrsta skipti haldin á Norðurlöndunum. Fiskistofa hefur verið í fararbroddi við skipulag á ráðstefnunni síðastliðin 2 ár, ásamt góðum hópi alþjóðlegrar skipulagsnefndar sem kom frá Bandaríkjunum, Kanada, Chile, Ástralíu, Nýja Sjálandi, Portúgal og Íslandi.
Haldnar voru 11 málstofur með samtals yfir 80 erindum ásamt tveimur vinnustofum. Önnur vinnustofan var haldin í slysavarnaskipi Landsbjargar, Sæbjörgu, og fjallaði um öryggi á sjó, hin var um rafrænt eftirlit. Einnig voru yfir 50 veggspjöld til sýnis þar sem ýmsir aðilar kynntu rannsóknir sínar. Þátttakendur á ráðstefnunni voru yfir 200 og komu frá 35 löndum.
Starfsfólk Fiskistofu er gríðarlega ánægt með ráðstefnuna þar sem kynntar voru nýjustu rannsóknir og tækni í sjóeftirliti og alþjóðlegt samstarf styrkt.
Fyrirhugað er að næsta IFOMC ráðstefna verði haldin í Chile snemma árs 2028.