Breyttar kröfur ESB til veiðivottorða
28. október 2025
Evrópusambandið hefur sett nýjar reglur um veiðivottorð til að berjast betur gegn ólöglegum og ótilkynntum veiðum.

Landið og miðin - mynd Jón Steinar Sæmundsson
Helsta breytingin er krafa um aukna upplýsingagjöf á veiðivottorðum ásamt því að innflytjendur innan Evrópusambandsins (ESB) eru skyldugir til að nota tölvukerfi ESB, CATCH sem útbýr vottorðin. Að auki þarf vinnsluvottorð fyrir vörum á veiðivottorði að fylgja öllum unnum sjávarafurðum sem fluttar eru til ESB.
ESB hefur nú þegar sagt upp samkomulagi milli sín og þeirra ríkja sem fengið höfðu undanþágu frá núgildandi kröfum um veiðivottorð og gefið út að engar undanþágur frá hinum nýju kröfum verði gefnar. Þá mælir ESB með að önnur ríki taki upp CATCH tölvukerfið við útgáfu vottorða en einnig er gefinn sá möguleiki að ríki sendi vottorðin stafrænt í CATCH.
Fiskistofa er að leggja lokahönd á innleiðingu nýrra krafna ESB og verða þær innleiddar að fullu þann 10. janúar 2026. Útflytjendur munu eftir sem áður skrá veiðivottorð í vefkerfi Fiskistofu sem er tengt við gagnagrunna stofnunarinnar og vefkerfið mun svo send þau stafrænt í CATCH, veiðivottorðakerfi ESB.
Gagnlegar upplýsingar í kjölfar nýrra reglna
Töluverð breyting verður á veiðivottorðunum, bæði á útliti og þeim upplýsingum sem þar er að finna.
Notandi þarf að tengja vöru við löndun og fisktegund og gefa upp það magn sem nýtt var í framleiðsluna.
Upplýsingar varðandi veiðar, skip og skipstjóra koma úr grunnum Fiskistofu.
Velja þarf þá fiskvinnslu sem vann sjávarafurðirnar.
Vinnsluvottorð er útbúið stafrænt samhliða veiðivottorðum.
Sækja þarf rafræna undirritun fiskframleiðanda.
Athugið
Útflytjendur eru hvattir til að hefja notkun á nýja veiðivottorðakerfinu sem fyrst þar sem eldra kerfi verður lokað þann 1. desember.
