Aukin aðkoma Fiskistofu að Sjávarútvegsskóla SÞ
29. nóvember 2021
Háskólinn á Akureyri sem sér um hluta af fræðslunni í sjávarútvegsskóla GRÓ og Fiskistofa hafa nú gert með sér samkomulag um aukna aðkomu Fiskistofu að kennslu og leiðsögn fyrir þá nema sem leggja áherslu á nám í fiskveiðistjórnun.
Ár hvert kemur hópur háskólamenntaðra nema hvaðanæva að úr heiminum í sex mánaða nám í sjávarútvegsfræðum á vegum Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu (GRÓ). Miðstöðin starfrækir sjávarútvegsskóla, jafnréttisskóla, jarðhitaskóla og landgræðsluskóla undir merkjum Háskóla Sameinuðuþjóðanna. Fiskistofa hefur um árabil tekið þátt í þessari starfsemi með því að taka á móti og fræða nema um sjávarútvegsmál og fiskveiðistjórnun.
Háskólinn á Akureyri sem sér um hluta af fræðslunni í sjávarútvegsskóla GRÓ og Fiskistofa hafa nú gert með sér samkomulag um aukna aðkomu Fiskistofu að kennslu og leiðsögn fyrir þá nema sem leggja áherslu á nám í fiskveiðistjórnun.
Fyrr í mánuðinum kom því hópur nemenda Sjávarútvegsskólans í nokkurra daga fræðslu hjá Fiskistofu á Akureyri. Starfsmenn Fiskistofu fræddu nemana um fiskveiðistjórnun á Íslandi og sögu hennar, kvótakerfið, gagnavinnslu, nýjungar í rafrænu eftirliti og lögfræðilegar áskoranir sem þær geta haft í för með sér. Í nokkrum tilfellum munu starfsmenn Fiskistofu leiðbeina nemum í hópnum við lokaverkefni sem þau vinna að frá desember fram til loka febrúar. Ætlunin er að þróa þetta samstarf Fiskistofu og Háskólans áfram næstu árin.
Nemendurnir fóru m.a. í vettvangsferð með eftirlitsmönnum Fiskistofu þar sem dróni var notaður til að fylgjast með vinnubrögðum línubáts úti á Eyjafirði. Ekki sást neitt misjafnt í gangi um borð í bátnum. Til marks um hversu drónaeftirlitið er öflugt má geta þess að hægt var að sjá þegar lífvænlegri tindabikkju var sleppt af króknum og skilað í sjóinn eins og leyfilegt er. Meðfylgjandi mynd úr drónanum sýnir nemana og starfsmenn Fiskistofu fylgjast spennt með þegar dróninn kom inn til lendingar eftir vel heppnaða eftirlitsferð.