Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Fiskistofa Forsíða
Fiskistofa Forsíða

Fiskistofa

Ávarp Fiskistofustjóra 2024

Árið 2024 var krefjandi ár í starfsemi Fiskistofu. Í upphafi árs lét fiskistofustjóri, Ögmundur Knútsson, af störfum með skömmum fyrirvara og stjórnaði undirrituð þá stofnuninni sem staðgengill fiskistofustjóra þar til nýr fiskistofustjóri var skipaður þann 1. júní eftir nokkurra mánaða umsóknarferli. Er árið því það fyrsta sem undirrituð stýrir stofnuninni.

Í byrjun apríl kom upp mygla í höfuðstöðvum Fiskistofu á Akureyri og þurfti að loka húsnæðinu þar sem það þótti heilsuspillandi.. Við tók heimavinna starfsfólks þar til bráðabirgðahúsnæði fannst. Þurfti starfsfólk að sitja nokkuð þétt og deila skrifstofum uns mögulegt var að flytja til baka í byrjun nóvember þó framkvæmdir væru enn í gangi. Óhætt er að segja að óvissa á ráðningatíma, lokun starfstöðvar og flutningur í hálfklárað húsnæði hafi reynt á starfsfólk. En mannauður Fiskistofu er einstakur og með samhentu átaki tókst að halda í starfsgleðina og sinna verkefnum stofnunarinnar með sóma. Á starfsfólk þakkir skildar fyrir þrautseigju, útsjónarsemi og samheldni í erfiðum aðstæðum.

Í maí 2023 óskaði Alþingi eftir því að Ríkisendurskoðun gerði stjórnsýsluúttekt á ráðstöfun byggðakvóta. Óskað var eftir því að í skýrslu um málið yrði meðal annars dregið fram hvernig framkvæmd væri háttað, hvort hún samrýmist góðum stjórnsýsluháttum og fleira. Ríkisendurskoðun skilaði skýrslu til Alþingis í júní 2024. Í skýrslunni kemur fram sú jákvæða niðurstaða að þrátt fyrir annmarka sem eru á kerfinu hafi framkvæmdin sjálf, það er, umsýsla Fiskistofu verið í eðlilegum farvegi hvað stjórnsýslu varðar. Kröfum um úthlutun hafi verið fylgt, leiðbeiningar og rafræn þjónusta hafi tekið framförum og jafnræðis hafi verið gætt. Ríkisendurskoðun kom með ábendingar til Fiskistofu um að skrásetja betur og skýra verklagsreglur ásamt því að koma þyrfti á kerfi um innri úttektir eða innri endurskoðun á viðeigandi ferlum. Fiskistofa tekur undir ábendingarnar og er unnið að því að bæta ferla og koma á innri úttektum eða innri endurskoðun verkferla.

Farið var í stefnumótunarvinnu haustið 2024 þar sem meginþorri starfsfólks hafði aðkomu að mörkun stefnu Fiskistofu til næstu ára. Áhersla verður lögð á að styrkja kjarnastarfsemi stofnunarinnar og lögbundið hlutverk hennar, auka skilvirkni og markvirkni ásamt því að bæta nýtingu auðlinda, fjármagns og mannauðs. Eru stefnuáherslurnar fjórar. Í fyrsta lagi markviss tæknivæðing - sem styður við sjálfbæra nýtingu hafs og vatna ásamt framúrskarandi þjónustu með aukinni sjálfvirkni, gagnadrifnum ákvörðunum og aukinni skilvirkni. Í öðru lagi mannauður og menning - þar sem Fiskistofa er eftirsóknarverður og framúrskarandi vinnustaður þar sem sérfræðiþekking, símenntun og ánægja starfsfólks er í forgrunni. Í þriðja lagi rödd Fiskistofu – þar sem Fiskistofa stuðlar að sjálfbærri nýtingu auðlinda hafs og vatna með öflugri miðlun upplýsinga og virku samstarfi við hagaðila sem eykur vitund og haflæsi samfélagsin. Og í fjórða lagi skilvirkni – Þar sem Fiskistofa vinnur markvisst að aukinni skilvirkni í starfsemi sinni með stöðugum umbótum, skýrum hlutverkum og markmiðum á öllum stigum stofnunarinnar.

Breytingar voru á starfstöðum Fiskistofu á árinu. Fiskistofa hefur undanfarin ár verið með starfstöðvar á sex stöðum á landinu. Höfuðstöðvar á Akureyri auk starfstöðva í Hafnarfirði, Stykkishólmi, Ísafirði, Vestmannaeyjum og Höfn í Hornafirði. Í lok nóvember var starfstöðinni á Höfn í Hornafirði lokað. Starfsmanni á Höfn var boðið áframhaldandi starf í starfi án staðsetningar. Til stendur að opna nýja starfstöð á Neskaupstað á árinu 2025. Er það liður í hagræðingu í rekstri að staðsetning starfstöðvar á Austurlandi sé sem næst þeim byggðalögum þar sem stórum hluta uppsjávarafla er landað.

Líkt og undanfarin ár er Fiskistofa á hraðri leið í stafrænni þróun og aukinni sjálfvirknivæðingu með nýtingu tæknilausna og uppbyggingu eldri og nýrra tölvukerfa. Á árinu var tekið í gagnið nýtt millifærslukerfi sem reynst hefur mjög vel og aflaskráningakerfi (GAFL), ásamt því að undirbúningur að nýju vigtar og ráðstöfunarkerfi (VOR) og eftirlitskerfi var langt á veg kominn í lok árs. Þessi þróun hefur leitt til aukinnar skilvirkni og er mikilvægur þáttur í að bæta þjónustu stofnunarinnar og flýta afgreiðslu mála.

Fiskistofa er ávallt að leita nýrra leiða og tæknilausna við eftirlit. Á árinu fór fram tilraunaverkefni um rafrænt eftirlit/myndavélaeftirlit um borð í stærri skipum í góðu samstarfi við tvær af stærstu útgerðum landsins. Miðaðist verkefnið að því að skoða virkni búnaðar og hvort raunhæft væri að nýta myndavélar við eftirlit um borð. Niðurstöður tilraunaverkefnisins lofa góðu og á árinu 2025 er stefnt á að vinna verkefnið áfram og skoða m.a. nýtingu gervigreindar og fleiri tæknilausna við yfirferð myndefnis sem til verður við slíkt eftirlit.

Eftirlit Fiskistofu, gagnasöfnun og stjórnsýsla er nauðsynlegur þáttur í því að íslenskar sjávarafurðir eigi greiða leið inn á verðmætustu markaði með sjávarafurðir í heiminum. Gott samstarf ráðuneytis, Fiskistofu, annarra stofnana auk hagaðila í greininni um framþróun eftirlits og þjónustu stofnunarinnar er lykilatriði í því að íslenskur sjávarútvegur verði áfram leiðandi í greininni og íslenskar sjávarafurðir verði áfram viðurkenndar sem framúrskarandi vara úr sjálfbærum veiðum.

Elín Björg Ragnarsdóttir
Fiskistofustjóri