Ávarp Fiskistofustjóra 2023
Á árinu lagði Fiskistofa áherslu á að efla starfsemi stofnunarinnar, þjónustu og eftirlit með starfrænum- og rafrænum lausnum. Nýtt umsóknarkerfi og kerfi sem heldur utan um umsýslu byggðakvóta voru tekin í gagnið. Ný gagnasíða Fiskistofu var sett í loftið. Gagnasíðan inniheldur ógrynni upplýsinga um veiðar, veiðiheimildir, landanir og fleira. Við birtingu gagna á síðunni og rafrænt eftirlit notast stofnunn í auknum mæli við PowerBI skýrslur og sjálfvirka vöktun. Stofnunin er því á fleygi ferð í stafrænni þróun og er nú á sjöunda Stafræna skrefinu af níu. Er það von Fiskistofu að áframhaldandi stafræn þróun skili betri og hraðari þjónustu til viðskiptavina og aðgengi að áreiðanlegum og réttum upplýsingum um sjávarútveg sé gott.
Eftirlit Fiskistofu er nauðsynlegur þáttur í því að íslenskar sjávarafurðir eigi greiða leið inn á verðmætustu markaði. Áhersla hefur verið lögð á áframhaldandi þróun aðferða við rafrænt eftirlit með samkeyrslu og greiningu gagna, sjálfvirkni áhættugreininga og vaktana með það að leiðarljósi að bæta yfirsýn eftirlitsmanna í rauntíma á vettvangi og gera eftirlit markvissara. Þróun sem þessi er mjög mikilvæg í ljósi þess að eftirlitsmönnum á vettvangi hefur fækkað umtalsvert síðast liðin ár vegna aðhaldskrafna í rekstri ríkisstofnana. Fiskistofa er í samstarfi við nágrannaþjóðir um rafræna vöktun, stafrænt eftirlit og þróun þess á grundvelli verkefnis sem styrkt er af Norrænu ráðherranefndinni og er áætlað að það samstarf haldi áfram a.m.k. út árið 2024. Fiskistofa hlaut einnig styrk úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins til kaupa á nýjum og langdrægum dróna til eftirlits á djúpslóð og var gengið frá þeim kaupum á árinu. Talsverður árangur hefur náðst í að minnka brottkast með drónaeftirliti á grunnslóð, eins og sjá má á ársskýrslunni, og verður áhugavert að fylgjast með þróun drónaeftirlits á djúpslóð.
Að ósk Matvælaráðuneytisins var farið í sérstakt eftirlit með meðafla sjávarspendýra og fuglavið grásleppuveiðar og voru eftirlitsmenn Fiskistofu um borð í grásleppubátum í 5% veiðiferða á vertíðinni. Þá var einnig sérstakt eftirlit með hvalveiðum, þar sem eftirlitsmenn Fiskistofu voru um borð og fylgdust með öllum veiðum á langreyðum á vertíðinni.
Síðsumars barst Fiskistofu tilkynning um að göt hefðu fundist á sjókví hjá Arctic Fish við Kvígindisdal í Patreksfirði. Voru veiðar reyndar í Patreksfirði undir stjórn Fiskistofu í samvinnu við Arctic Fish og veiddust fáir laxar í þeirri veiðiaðgerð. Í framhaldinu fór að bera á löxum með eldiseinkennum í ám víða um land. Eldislaxar sem síðar voru raktir til þessa atburðar veiddust allt frá sunnanverðu Snæfellsnesi (Haffjarðará) og austur fyrir í Eyjafjörð (Fnjóská). Gripið var til margvíslegra aðgerða vegna stöðunnar og mikillar útbreiðslu eldislaxa í íslenskar veiðiár. Leitað var að eldislöxum með drónum við veiðiár einkum á Vestfjörðum og við Húnaflóa, einnig mæltist Fiskistofa til þess við veiðifélög að laxastigum yrði lokað, þar sem þess væri kostur, stangveiðitímabilið var framlengt svo athuga mætti um göngur eldisfiska. Í samvinnu við Fiskistofu var gripið til ádráttarveiði þar sem því var við komið og einnig voru fiskar háfaðir að næturlagi. Fiskistofa fékk auk þess til landsins norska kafara sem reynslu hafa af veiðum eldisfiska með skutulbyssum úr ám í Noregi. Bar sú veiðiaðferð mikinn árangur en í heildina veiddu kafararnir yfir 200 eldislaxa í 5 vettvangsferðum þeirra. Alls veiddust yfir 500 eldislaxar í íslenskum ám, og af þeim sem bárust til Hafrannsóknastofunar til rannsóknar var mikill meirihluti rakin til sjókvíar Arctic Fish í Patreksfirði. Margir starfsmenn Fiskistofu komu að verkefninu og gott samstarf var við Arctic Fish, Landsamband Veiðifélaga og Hafrannsóknastofnun við úrlausn þess.
Fiskistofa leggur áherslu á að eiga gott samstarf við aðrar stofnanir og hagaðila. Á árinu var undirritaður samstarfssamningur við LHG um m.a. aukið samstarf við áhættugreiningar og eftirlit með fiskveiðum ásamt eftirliti með ólöglegum lax- og silunganetum í sjó. Einnig hefur Fiskistofa um árabil átt í góðu samstarfi við Matvælastofnun og hófst vinna við endurskoðun á samstarfssamning þessara stofnana. Samstarf Matvælastofnunar og Fiskistofu var umtalsvert á árinu í tengslum við hvalveiðar og undirbúning veiða í samræmi við auknar kröfur við veiðarnar, en Fiskistofa sinnti eftirlit um borð fyrir báðar stofnanir. Samstarf við Hafnarsambandið var einnig endurvakið og fæddust þar þó nokkrar hugmyndir t.d. varðandi vigtun sjávarafla sem þróa þarf áfram og skoða hvort séu framkvæmanlegar. Brýnt er fyrir Fiskistofu, aðrar stofnanir og hagaðila að auka samstarf til að vinna saman að betri lausnum um framkvæmd og eftirlit með fiskveiðum, vigtun og skráningu afla með það að markmiði að auka skilvirkni, markvirkni og minnka sóun í öllum ferlum.
Ögmundur H. Knútsson var fiskistofustjóri árið 2023 en hann lét af störfum í upphafi árs 2024 og er ávarp fiskistofustjóra því ritað af Elínu Björgu Ragnarsdóttur sem skipuð var fiskistofustjóri af Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur, matvælaráðherra frá 1. júní 2024. Fiskistofa þakkar Ögmundi góð störf í þágu Fiskistofu og óskar honum velfarnaðar í nýju starfi hjá Alþjóðabankanum. Ögmundur lagði grunn að framþróun Fiskistofu með aukinni notkun stafrænna tæknilausna, gagnadrifnu eftirliti og uppfærslu eldri kerfa stofnunarinnar sem stofnunin mun búa að.
Elín Björg Ragnarsdóttir.
Fiskistofustjóri