Fara beint í efnið
Fiskistofa Forsíða
Fiskistofa Forsíða

Fiskistofa

Ávarp Fiskistofustjóra 2022

Fiskistofa fagnaði 30 ára afmæli 2022 en Fiskistofa var sett á laggirnar 1. september 1992. Þá voru sameinuð undir eina stofnun verkefni sem unnin höfðu verið í sjávarútvegsráðuneytinu, þ. á m. veiðieftirlit, Fiskifélagi Íslands, Hafrannsóknastofnuninni og Ríkismati sjávarafurða. Fiskistofa var stofnuð í kjölfar upptöku á framseljanlegum kvóta 1991 og segja má að það hafi markað upphaf heildstæðrar fiskveiðistjórnunar, gagnaskráningar, kvótastýringar og eftirlits með fiskveiðunum við Ísland. 

Ögmundur Knútsson

Á þeim 30 árum sem liðin eru frá stofnun hafa starfsmenn Fiskistofu þróað og bætt eftir megni öll þau svið þjónustu og eftirlits með sjávarútvegi sem stofnunin ber ábyrgð á, enda er það mikilvægur þáttur í því að tryggja sem best samkeppnistöðu íslenskra sjávarafurða. 

Stór áfangi í þróun á starfi Fiskistofu var breyting á lögum nr. 36/1992 um Fiskistofu í júní 2022 er Fiskistofu var með ótvíræðum hætti gert heimilt að nota ómönnuð flugför, dróna, við eftirlit ásamt auknum heimildum til rafræns eftirlits. Einn áfangi í þessu er heimild til að gera tilraunir með myndavélaeftirlit um borð í fiskiskipum í samstarfi við útgerðir sem fer af stað á árið 2023.  Ör þróun hefur verið í myndavélaeftirliti erlendis og mikilvægt er að Ísland verði ekki eftirbátur í þeirri þróun.  

Á árinu hefur Fiskistofa lagt áherslu á þróun aðferða við rafrænt eftirlit þar sem gögn um veiðar og vinnslu eru greind og niðurstöður nýttar við að gera eftirlit markvissara. Áhættugreining af þessu tagi gefur betri sýn á hegðun í veiðum og vigtun á afla og á þeim grundvelli er hægt að beita mannafla og tækjum Fiskistofu markvissar við eftirlit. Þetta er mikilvægt skref í að efla eftirlitið og þróa það.  Ljóst er að aðhaldskrafa í rekstri stofnanna hefur gert það að verkum að eftirlitsmönnum hefur fækkað og því mikilvægt að gera störf þeirra sem markvissust með aðferðum sem þessum. 

Hefðbundið eftirlit verður alltaf nauðsynlegt en til að mæta auknum kröfum verður að horfa til tækni og sjálfvirkni. Einnig verður að horfa til ábyrgðar þeirra sem nýta auðlindina, að þeir sjálfir sýni fram á ábyrga hegðun. Stefna þarf að því að í framtíðinni verði eftirlit innbyggt í framleiðsluferla sjávarútvegs og hluti af þeirra gæðakerfum sem hægt er að taka út, ferkar en að aðhaldið sé veitt með ytra eftirliti opinberra aðila. Samstarf þarf að nást um þá þróun milli greinarinnar og stjórnsýslunnar íslenskum sjávarútvegi til framdráttar. Nefna má í þessu samhengi að Fiskistofa fékk styrk frá Norrænu ráðherranefndinni til að efna til samstarfs við nágrannaþjóðir um skoðun á nýjungum í rafrænni vöktun með fiskveiðum, þar eru mál af þessu tagi til skoðunar. Sá styrkur hefur nú verið endurnýjaður og gerir hann kleift að halda þessu samstarfi áfram út árið 2024 og vænta má að það samstarf festist í sessi til lengri tíma. Þarna starfa saman og skiptast á skoðunum eftirlitsaðilar með fiskveiðum frá Kanada, Grænlandi, Færeyjum, Bretlandi, Danmörku, Noregi og Svíþjóð en Fiskistofa átti frumkvæðið að þessu starfi og leiðir það. 

Fiskistofa sinnir ekki bara eftirliti heldur einnig ýmsum stjórnsýsluverkefnum við fiskveiðistjórnun. Meðal helstu verkefna eru útgáfa veiðileyfa, úthlutun veiðiheimilda og flutningur aflaheimilda. Einnig má nefna úrvinnslu gagna og opinbera birtingu upplýsinga um veiðar og vinnslu. Fiskistofa vann að fjölmörgum verkefnum til að auka stafræna þjónustu stofnunarinnar á þessu sviði, bæði í samstarfi við Ísland.is sem og með því að endurnýja ýmis innri kerfi. Í því sambandi má t.d. nefna umsýslukerfi fyrir rafræn skjöl sem nú eru send í pósthólf Ísland.is, sérvinnslu gagna og innheimtu, og móttöku afladagbóka.  

Ný vefsíða var smíðuð í samstarfi við Ísland.is. Efni vefsins er sett fram út frá þörfum notenda og er einfalt og leiðir aðila að þeirri þjónustu sem leitað er að. Opnað var fyrir umsóknir um almenn veiðileyfi í gegnum umsóknakerfi Ísland.is með sjálfvirkri útgáfu veiðileyfa. Fiskistofa mun halda áfram að auka við stafræna þjónustu stofnunarinnar með það að leiðarljósi að bæta þjónustu við viðskiptavini, og auka þannig skilvirkni og hagkvæmni. 

Árið 2022 hófst samstarf við Samkeppnisstofnun um að kortleggja eignatengsl í sjávarútvegi. Fiskistofa bindur vonir við að þetta verkefni leiði af sér aðgengilegri gögn sem auðvelda Fiskistofu að hafa eftirlit með hámarksaflahlutdeild. Verkefnið er styrkt af Matvælaráðuneytinu. 

Annað verkefni sem Fiskistofa sinnir er stjórnsýsla og eftirlit með lax- og silungsveiði. Sveiflur hafa verið í laxveiði á liðnum árum en veiði á sjóbirtingi og urriða hefur heldur aukist. Bleikjuveiði hefur minnkað á landsvísu og t.d. hefur hrun orðið í bleikjuveiði í ám í Eyjafirði. Fiskistofa hefur til skoðunar hvaða leiðir eru færar til verndar bleikjustofnum á Íslandi og hefur leitað ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar um það. 

Lax- og silungsveiðisvið Fiskistofu veitir leyfi vegna framkvæmda við ár og vötn. Á árinu voru upplýsingar um leyfin birt á landakorti sem aðgengilegt er af vefsíðu Fiskistofu í svokallaðri Hafsjá sem er kortasjá sem Landmælingar Íslands reka. Með þessu fæst aukið gagnsæi sem gagnast getur öllum almenningi og hagsmunaaðilum og veitir aðhald með leyfisveitingum. 

Starfsdagur stofnunarinnar var loksins haldinn á árinu eftir þó nokkrar tilraunir en heimsfaraldurinn setti strik í reikninginn. Mikill fögnuður var meðal starfsfólks að hittast loksins í persónu, starfsmenn fengu einnig góða og skemmtilega kynningu hjá Íslenska sjávarklasanum í lok dags. Þá tók Fiskistofa þátt í sjávarútvegssýningu eftir hlé vegna heimsfaraldurs, þar var lögð áhersla á nýja vefsíðu Fiskistofu sem hefur verið í vinnslu frá 2021. Jafnframt var veitt fræðsla um drónaeftirlit og rafrænt eftirlit.  

Í maí 2022 flutti starfsstöð Fiskistofu í Hafnarfirði úr Dalshrauni þar sem stofnuni hefur verið undanfarin ár og deilir nú húsnæði með Hafrannsóknarstofnun í Fornubúðum 5. Húsnæðið er nútímalegt, bjart og skemmtilegt að ógleymdu frábæru útsýni. Einnig flutti starfsstöð Fiskistofu í Vestmannaeyjum í nýtt húsnæði og deilir nú húsnæði með fjölda fyrirtækja og stofnana í klasanum við Ægisgötu 2.  

Rekstur ársins 2022 var í járnum en fjármagn til rekstrar hefur dregist saman undanfarin ár á sama tíma og kröfur um skilvirkt eftirlit og stjórnsýslu hafa aukist. Mikilvægt er að fjármagn sé tryggt til að stofnunin geti betur sinnt sínu hlutverki og nái að þróast í takt við tækniþróun greinarinnar. Mikilvægt er fyrir Fiskistofu að vera í virku alþjóðlegu samstarfi og fylgjast með þróun hjá samkeppnislöndum okkar sem og taka þátt í þróun á sjávarútvegi á alþjóða vísu.   

Frá 1991 hefur íslenskur sjávarútvegur þróast hratt og er í dag einn tæknivæddasti, hagkvæmasti og samkeppnishæfasti sjávarútvegur í heimi. Markvisst eftirlit með auðlindinni er mikilvægt fyrir trúverðugleika sjávarútvegs og sterka samkeppnisstöðu á mörkuðum sem gera sífellt strangari kröfur um sjálfbærni, rekjanleika og gagnsæi í viðskiptum með sjávarafurðir. Þess vegna er mikilvægt að stjórnsýslan þróist í takt við greinina og nýti eftir föngum tækni og nýjungar til að tryggja góða þjónustu og hagkvæmni í þjónustu og eftirliti. 

Ögmundur Knútsson