Prentað þann 26. des. 2024
1381/2021
Reglugerð um umhverfismat framkvæmda og áætlana.
Efnisyfirlit
- I. KAFLI Markmið, gildissvið og skilgreiningar.
- II. KAFLI Forsamráð og samþætt málsmeðferð.
- III. KAFLI Umhverfismat áætlana.
- IV. KAFLI Tilkynningarskyldar framkvæmdir.
- V. KAFLI Matsskyldar framkvæmdir.
- 11. gr. Matsskyldar framkvæmdir og matsáætlun.
- 12. gr. Kynning matsáætlunar.
- 13. gr. Álit Skipulagsstofnunar um matsáætlun.
- 14. gr. Kostnaðaráætlun Skipulagsstofnunar.
- 15. gr. Efni umhverfismatsskýrslu framkvæmdar.
- 16. gr. Kynning umhverfismatsskýrslu.
- 17. gr. Álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdar.
- 18. gr. Álit Skipulagsstofnunar um endurskoðun umhverfismats.
- 19. gr. Öflun sérfræðiálits.
- VI. KAFLI Ýmis ákvæði.
I. KAFLI Markmið, gildissvið og skilgreiningar.
1. gr. Markmið og gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um umhverfismat framkvæmda og áætlana og breytinga á áætlunum, sem falla undir lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Við framkvæmd umhverfismats skal unnið að markmiðum þeirra laga.
2. gr. Skilgreiningar.
Að því marki sem orð og orðasambönd eru ekki skýrð í lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, er merking orða og orðasambanda í þessari reglugerð sem hér segir:
- Ábyrgðaraðili áætlunar: Sá aðili sem ber ábyrgð á undirbúningi og/eða afgreiðslu áætlunar sem er háð umhverfismati, svo sem sveitarfélög í tilviki skipulagsáætlana sveitarfélaga.
- Forsamráð: Samráð Skipulagsstofnunar, framkvæmdaraðila, sveitarfélaga og leyfisveitanda um fyrirhugað ferli vegna umhverfismats tiltekinnar framkvæmdar og eftir atvikum samþættingu við aðra málsmeðferð. Markmið forsamráðs er að stuðla að samræmdu og skilvirku ferli umhverfismats, skipulags og leyfisveitinga vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar, einnig að greiða fyrir miðlun upplýsinga á milli framkvæmdaraðila, stjórnvalda og almennings auk þess að stuðla að gæðum rannsókna og gagna.
- Fyrirhuguð framkvæmd: Framkvæmd sem er komin á það stig að hún geti hlotið málsmeðferð skv. V. kafla laga nr. 111/2021, þ.e. þegar meginþættir framkvæmdar eru orðnir það ljósir að hægt er að fá yfirlit yfir fyrirhugaða framkvæmd, áhrifasvæði og helstu áhersluþætti matsvinnunnar.
- Matslýsing: Skjal þar sem ábyrgðaraðili áætlunar lýsir því hvernig fyrirhugað er að standa að umhverfismati áætlunar. Við gerð skipulagsáætlana samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 er matslýsing hluti lýsingar skipulagsverkefnis.
- Núllkostur: Líkleg þróun umhverfisins án framkvæmdar eða framfylgdar áætlunar.
- Samantekt umhverfismats: Stutt og hnitmiðuð samantekt með umhverfismatsskýrslu þar sem á almennan og skýran hátt er greint frá meginþáttum viðkomandi framkvæmdar eða áætlunar, helstu viðfangsefnum umhverfismatsskýrslu og meginniðurstöðum umhverfismats.
II. KAFLI Forsamráð og samþætt málsmeðferð.
3. gr. Forsamráð.
Skipulagsstofnun ber ábyrgð á framkvæmd forsamráðs um ferli umhverfismats, sbr. 8. gr. laga nr. 111/2021, þ.m.t. boðun funda og ritun fundargerða. Í fundargerð skal skrá niðurstöður funda og eftir því sem við á samkomulag hlutaðeigandi aðila um tilhögun umhverfismats viðkomandi framkvæmdar sbr. 2. mgr. og 4. gr. Skipulagsstofnun gefur út leiðbeiningar um viðfangsefni og tilhögun forsamráðs.
Forsamráð skal, eftir því sem við á, taka til tímaáætlana, gagnaöflunar, skýrslugerðar og tilhögunar og tímasetningu kynningar og samráðs gagnvart umsagnaraðilum og almenningi auk tengsla umhverfismats við leyfisveitingar. Við forsamráðið skulu hlutaðeigandi taka afstöðu til þess hvort sameina skuli skýrslugerð og/eða kynningu samkvæmt 4. gr.
Skipulagsstofnun skal birta á vefsíðu sinni upplýsingar um framkvæmdir í forsamráði, þar á meðal fundargerðir skv. 1. mgr. Almenningur skal eiga þess kost að koma að athugasemdum um framkvæmdir í forsamráði og skal framkvæmdaraðili gera grein fyrir slíkum athugasemdum í matsáætlun sbr. 4. tölul. 11. gr.
4. gr. Samþætt málsmeðferð.
Við samþættingu málsmeðferðar í samræmi við 9.-11. gr. laga nr. 111/2021 skulu hlutaðeigandi aðilar, sem geta eftir atvikum verið, auk Skipulagsstofnunar, framkvæmdaraðilar, ábyrgðaraðilar viðkomandi áætlunar og/eða leyfisveitendur, gera með sér skriflegt samkomulag um viðfangsefnið sem birt skal á vefsíðu Skipulagsstofnunar. Þar skal gera grein fyrir í hverju samþætting málsmeðferðar felst, svo sem um ábyrgð á einstökum verkþáttum, tímaáætlanir og skiptingu kostnaðar.
Skipulagsstofnun gefur út leiðbeiningar um viðfangsefni og tilhögun samþættrar málsmeðferðar.
III. KAFLI Umhverfismat áætlana.
5. gr. Matslýsing fyrir umhverfismat áætlunar.
Ábyrgðaraðili áætlunar skal hafa samráð við Skipulagsstofnun um umfang og nákvæmni umhverfismats áætlunarinnar eins snemma í ferli viðkomandi áætlanagerðar og kostur er. Skal hann í því skyni taka saman matslýsingu þar sem lýst er hvernig fyrirhugað er að standa að umhverfismati áætlunarinnar.
Um efni, framsetningu, málsmeðferð og samráð um matslýsingu fer að öðru leyti samkvæmt lögum um viðkomandi áætlanagerð, svo sem ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 um gerð lýsinga um skipulagsverkefni.
6. gr. Umhverfismatsskýrsla áætlunar.
Umhverfismat áætlunar skal sett fram í umhverfismatsskýrslu sem getur verið hluti af greinargerð viðkomandi áætlunar. Í umhverfismatsskýrslu skal koma fram eftir því sem við á:
- Yfirlit yfir efni og helstu stefnumið viðkomandi áætlunar og tengsl hennar við aðra áætlanagerð,
- lýsing á aðstæðum og þeim umhverfisþáttum sem líklegt er að verði fyrir umtalsverðum áhrifum eða eru sérstaklega viðkvæmir, svo sem vegna náttúruverndargildis,
- upplýsingar um umhverfisverndarmarkmið stjórnvalda sem varða áætlunina og mat á vægi umhverfisáhrifa áætlunarinnar með tilliti til þeirra og eftir atvikum annarra umhverfissjónarmiða,
- lýsing og mat á líklegum umhverfisáhrifum af framkvæmd áætlunarinnar og raunhæfum valkostum við áætlunina, að teknu tilliti til markmiða með gerð áætlunarinnar og landfræðilegs umfangs hennar, þ.m.t. núllkosts,
- lýsing á fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum,
- lýsing á því hvernig haga skal vöktun umhverfisáhrifa af framkvæmd áætlunar,
- upplýsingar um hvernig valkostir voru skilgreindir og lýsing á því hvernig umhverfismatið fór fram, þ.m.t. um erfiðleika, svo sem tæknilega erfiðleika og skort á upplýsingum eða þekkingu við að taka saman þær upplýsingar sem krafist var,
- samantekt umhverfismats.
7. gr. Kynning og afgreiðsla tillögu að áætlun og umhverfismatsskýrslu áætlunar.
Ábyrgðaraðili áætlunar skal kynna almenningi tillögu að áætlun ásamt umhverfismatsskýrslu og leita umsagnar viðeigandi umsagnaraðila í samræmi við 15. gr. laga nr. 111/2021. Að lágmarki skal kynning felast í auglýsingu í Lögbirtingablaði og fjölmiðli sem ætla má að nái til almennings á viðkomandi svæði ásamt kynningu á netinu. Tillaga að áætlun og umhverfismatsskýrsla skulu jafnframt liggja frammi og vera aðgengilegar, auk þess sem gögn sem áætlunin byggist á skulu vera aðgengileg á vefsíðu Skipulagsstofnunar eða framkvæmdaraðila.
Um afgreiðslu og kynningu áætlunar að öðru leyti fer samkvæmt 16. gr. laga nr. 111/2021 og lögum um viðkomandi áætlanagerð, svo sem ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010.
8. gr. Óveruleg breyting á áætlun.
Óveruleg breyting fellur ekki undir breytingu á áætlunum sem heyra undir ákvæði reglugerðar þessarar, sbr. 4. mgr. 2. gr. laga nr. 111/2021. Um mat á því hvort breyting á aðal- og deiliskipulagi geti talist óveruleg fer samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010.
Við mat á því hvort breytingar á öðrum áætlunum en aðal- og deiliskipulagi teljist óverulegar skal taka mið af eftirfarandi:
-
Eiginleikum áætlunar, sérstaklega með tilliti til:
- Hversu nákvæm skilyrði áætlunin setur um tilteknar framkvæmdir, svo sem með stefnumiðum eða skilmálum um staðsetningu, eðli eða stærð framkvæmda, starfsemi eða nýtingu tiltekinna auðlinda,
- hversu nákvæm skilyrði áætlunin setur annarri áætlanagerð,
- mikilvægis áætlunarinnar fyrir samþættingu umhverfissjónarmiða, sérstaklega með tilliti til sjálfbærrar þróunar,
- viðkvæmni umhverfis í tengslum við áætlunina,
- mikilvægis áætlunarinnar við að framfylgja stefnumörkun um umhverfismál.
-
Eiginleikum áhrifa og þeirra svæða sem verða fyrir áhrifum, sérstaklega varðandi:
- líkur, tíðni og varanleika áhrifa,
- samlegð áhrifa,
- áhrif yfir landamæri,
- hættur fyrir heilbrigði manna eða umhverfi, svo sem vegna slysa,
- stærð og landfræðilegt umfang áhrifa, svo sem stærð landsvæðis og fjölda fólks sem líklegt er að verði fyrir áhrifum,
- gildi og eiginleika þess svæðis sem verður fyrir áhrifum vegna sérstaks náttúrufars eða menningarminja, vegna umhverfis- eða viðmiðunarmarka eða vegna umfangs landnýtingar,
- áhrif á svæði eða landslag sem viðurkennt er að hafi verndargildi á landsvísu eða alþjóðavettvangi.
IV. KAFLI Tilkynningarskyldar framkvæmdir.
9. gr. Tilkynning framkvæmda í flokki B.
Framkvæmdaraðili skal tilkynna framkvæmd sem fellur undir flokk B í 1. viðauka laga nr. 111/2021 til Skipulagsstofnunar, sbr. 19. gr. laganna. Í tilkynningunni skal framkvæmdaraðili leggja fram eftirfarandi upplýsingar um framkvæmdina og líkleg umhverfisáhrif að teknu tilliti til eðlis og umfangs framkvæmdarinnar og fyrirliggjandi niðurstaðna um umhverfisáhrif hennar:
- Lýsingu á fyrirhugaðri framkvæmd í heild sinni, umfangi hennar og helstu framkvæmda- og rekstrarþáttum, þar með talið niðurrifi mannvirkja eftir því sem við á, sbr. 1. tl. 2. viðauka laga nr. 111/2021.
- hnitsettan uppdrátt sem sýnir staðsetningu fyrirhugaðrar framkvæmdar, mörk framkvæmdasvæðis og mannvirki sem fyrir eru á svæðinu,
- upplýsingar um hvernig fyrirhuguð framkvæmd fellur að gildandi skipulagsáætlunum,
- lýsingu á staðháttum, landslagi, gróðurfari og landnotkun, hvort fyrirhugað framkvæmdasvæði er á eða nærri verndarsvæðum og lýsingu á þáttum í umhverfinu sem líklegt er að verði umtalsvert fyrir áhrifum af framkvæmdinni, sbr. 2. og 3. tl. 2. viðauka laga nr. 111/2021,
- lýsingu á þeim þáttum framkvæmdar og/eða rekstrar sem valda helst áhrifum á umhverfið, sbr. 1. og 3. tl. 2. viðauka laga nr. 111/2021,
- lýsingu á líklegum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, miðað við fyrirliggjandi vitneskju, sem stafa af losun eða úrgangi og nýtingu náttúruauðlinda, sérstaklega jarðvegs, lands, vatns og líffræðilegrar fjölbreytni, sbr. 2. viðauka laga nr. 111/2021,
- upplýsingar um fyrirliggjandi umsagnir umsagnaraðila og annarra eftir eðli máls,
- upplýsingar um fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir, eftir því sem við á.
10. gr. Matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar.
Skipulagsstofnun skal innan sjö vikna frá því að fullnægjandi gögn berast um framkvæmdina taka ákvörðun um hvort framkvæmd í flokki B skuli háð umhverfismati, sbr. 20. gr. laga nr. 111/2021. Áður leitar stofnunin umsagnar umsagnaraðila samkvæmt sömu grein og skal þeim gefinn fjögurra vikna frestur til að veita umsögn.
Í umsögn skal koma fram mat umsagnaraðila á því hvort í tilkynningu sé gerð nægileg grein fyrir framkvæmd, umhverfi, umhverfisáhrifum, mótvægisaðgerðum og vöktun eftir því sem við á út frá starfssviði umsagnaraðila. Jafnframt hvort og þá hvaða atriði umsagnaraðili telur þurfa að skýra frekar og hvort þau kalli að hans mati á að framkvæmdin fari í umhverfismat að teknu tilliti til viðmiða í 2. viðauka laga nr. 111/2021. Jafnframt skal í umsögn gera grein fyrir leyfum sem framkvæmdin er háð og eru á starfssviði umsagnaraðila, þegar það á við.
Skipulagsstofnun skal gefa framkvæmdaraðila kost á að bregðast við framkomnum umsögnum og skal hann hafa a.m.k. þrjá virka daga til að koma á framfæri athugasemdum sínum eða frekari upplýsingum. Taki framkvæmdaraðili sér lengri frest skal hann tilkynna Skipulagsstofnun um það og lengist þá frestur Skipulagsstofnunar til að taka matsskylduákvörðun sem því nemur.
Skipulagsstofnun skal gera framkvæmdaraðila, umsagnaraðilum og öðrum sem málið varðar, grein fyrir niðurstöðu sinni um matsskyldu framkvæmdarinnar. Skipulagsstofnun kynnir almenningi niðurstöðu sína með auglýsingu í fjölmiðli sem ætla má að nái til almennings á viðkomandi svæði innan viku frá því að ákvörðun um matsskyldu liggur fyrir. Niðurstaða Skipulagsstofnunar ásamt tilkynningu framkvæmdaraðila og fylgigögnum og framkomnum umsögnum skal vera aðgengileg á vef stofnunarinnar.
V. KAFLI Matsskyldar framkvæmdir.
11. gr. Matsskyldar framkvæmdir og matsáætlun.
Framkvæmdir sem falla undir flokk A í 1. viðauka laga nr. 111/2021 eru matsskyldar og skulu því ávallt háðar umhverfismati. Framkvæmdir í flokki B í 1. viðauka laganna skulu háðar umhverfismati þegar þær eru taldar líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif sbr. IV. kafla. Sé fyrirhuguð framkvæmd háð umhverfismati skal framkvæmdaraðili gera matsáætlun í samræmi við 21. gr. laganna. Í matsáætlun skal eftirfarandi koma fram eftir umfangi og eðli framkvæmdar:
-
Upplýsingar um framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir:
- heiti framkvæmdar, möguleg staðsetning, nafn framkvæmdaraðila og dagsetning,
- lýsing á framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir, tilgangi, afmörkun og umfangi hennar og mögulegri áfangaskiptingu,
- upplýsingar um matsskyldu framkvæmdar, með vísan til viðeigandi liða í 1. viðauka laga nr. 111/2021,
- upplýsingar um hvaða leyfum framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir er háð og hvort fyrirhugað sé að samþætta málsmeðferð sbr. 4. gr.
- upplýsingar um aðra raunhæfa valkosti sem til greina koma, m.a. núllkost, greina frá umfangi og tilhögun annarra kosta og staðsetningu þeirra.
-
Upplýsingar um framkvæmdasvæði:
- upplýsingar um fyrirhugaðar framkvæmdir á sama svæði ef þær eru fyrir hendi,
- lýsing á staðháttum framkvæmdasvæðis: landslagi, gróðurfari, dýralífi og landnotkun, yfirlit um verndarsvæði og kvaðir og takmarkanir á landnotkun, s.s. vegna náttúruvár,
- uppdráttur af mögulegri staðsetningu framkvæmdar og áhrifasvæðis hennar,
- fyrirliggjandi skipulagsáætlanir og lýsing á hvernig fyrirhuguð framkvæmd samræmist þeim eða upplýsingar um stöðu við gerð skipulagsáætlana,
-
Upplýsingar um umfang og áherslur umhverfismats:
- greining á því hvaða þættir framkvæmdar og starfsemi, sem henni fylgir, séu líklegir til að valda umhverfisáhrifum og lýsing á þeim, s.s. stærð og gerð mannvirkja, framleiðsluferlum, magni og gerð mengunarefna og hljóðstigi frá starfsemi,
- greining á því hvaða þættir umhverfisins er talið líklegt að geti helst orðið fyrir áhrifum þegar tekið er tillit til allra umhverfisáhrifa framkvæmdarinnar miðað við fyrirliggjandi vitneskju,
- lýsing á því hvernig fyrirhugað er að standa að umhverfismati, s.s. um gagnaöflun, rannsóknarsvæði, tímasetningu athugana, tíðni mælinga, úrvinnslu gagna, aðferðir við mat og framsetningu niðurstaðna og áætlun um á hvaða þætti framkvæmdar og umhverfis verði lögð áhersla.
- Upplýsingar um kynningu, álitsumleitan og samráð við gerð matsáætlunar eftir því sem við á og upplýsingar um afstöðu þeirra aðila sem þegar hafa tjáð sig um framkvæmdina og umhverfismat hennar.
- Áætlun um kynningu, álitsumleitan og samráð sem eru áformuð við vinnslu umhverfismatsskýrslu.
- Yfirlit yfir þá sérfræðinga sem koma til með að vinna umhverfismat ásamt upplýsingum um sérfræðiþekkingu þeirra og réttindi.
- Tímaáætlanir, svo sem tímaáætlun um vinnslu umhverfismatsskýrslu, athugasemda- og umsagnarfrestir, opinber umfjöllun Skipulagsstofnunar, áætlun um framkvæmda- og rekstrartíma.
12. gr. Kynning matsáætlunar.
Þegar framkvæmdaraðili hefur sent Skipulagsstofnun matsáætlun vegna framkvæmdar kynnir stofnunin matsáætlunina fyrir almenningi og leitar umsagna umsagnaraðila í samræmi við 21. gr. laga nr. 111/2021. Kynning stofnunarinnar fyrir almenningi skal að lágmarki fela í sér auglýsingu í fjölmiðli sem ætla má að nái til almennings og hagsmunaaðila á viðkomandi svæði og eftir atvikum á landsvísu og hefur matsáætlunina aðgengilega á vefsíðu stofnunarinnar, auk þess sem hún liggur frammi nærri framkvæmdastað.
Í umsögn umsagnaraðila skal koma fram hvort umsagnaraðili hafi athugasemdir við það hvernig framkvæmdaraðili hyggst vinna að umhverfismati framkvæmdarinnar, út frá sínu starfssviði, svo sem um skilgreiningu valkosta, gagnaöflun, úrvinnslu gagna, umhverfismat og framsetningu umhverfismatsskýrslu. Einnig, ef á skortir, hvaða atriðum umsagnaraðili telur að gera þurfi frekari skil eða hafa sérstaklega í huga við umhverfismat framkvæmdarinnar. Leyfisveitendur skulu í umsögn sinni gera grein fyrir þeim leyfum sem eru á starfssviði þeirra og framkvæmdin er háð.
Skipulagsstofnun skal gefa framkvæmdaraðila kost á að bregðast við framkomnum umsögnum og skal hann hafa a.m.k. þrjá virka daga til að fara yfir þær og koma að athugasemdum sínum og frekari upplýsingum. Taki framkvæmdaraðili sér lengri frest skal hann tilkynna Skipulagsstofnun um það og lengist þá frestur Skipulagsstofnunar til að gefa út álit um matsáætlunina sem því nemur.
13. gr. Álit Skipulagsstofnunar um matsáætlun.
Skipulagsstofnun skal kynna álit um matsáætlun skv. 3. mgr. 21. gr. laga nr. 111/2021 innan sjö vikna frá því að fullnægjandi gögn skv. 11. gr. reglugerðarinnar berast. Álitið skal kynnt framkvæmdaraðila, væntanlegum leyfisveitendum og umsagnaraðilum. Þá skal álitið vera aðgengilegt á vef Skipulagsstofnunar.
Álit Skipulagsstofnunar skal fela í sér leiðbeiningar til framkvæmdaraðila um vinnslu, efni og framsetningu umhverfismatsskýrslu, m.a. með hliðsjón af framkomnum umsögnum annarra aðila. Álitið skal taka mið af eðli og umfangi framkvæmdar, staðsetningu og líklegum umhverfisáhrifum hennar. Skipulagsstofnun getur í áliti sínu sett skilyrði um tilhögun umhverfismats og efni og framsetningu umhverfismatsskýrslu umfram það sem fram kemur í matsáætlun framkvæmdaraðila.
14. gr. Kostnaðaráætlun Skipulagsstofnunar.
Þegar álit Skipulagsstofnunar um matsáætlun framkvæmdaraðila hefur verið birt skal Skipulagsstofnun láta framkvæmdaraðila í té sundurliðaða kostnaðaráætlun vegna yfirferðar á vegum stofnunarinnar á umhverfismati framkvæmdar, svo sem vegna yfirferðar á umhverfismatsskýrslu, vettvangsferða, auglýsinga og kynningar, sérfræðiálita, athugunar stofnunarinnar og gerð álits um umhverfismat framkvæmdar. Kostnaðaráætlun skal byggð á gjaldskrá sem ráðherra hefur staðfest, að fenginni tillögu Skipulagsstofnunar. Þá skal Skipulagsstofnun leggja fram upplýsingar um kostnað sem fallið hefur til vegna málsmeðferðar matsáætlunar sem og vegna forsamráðs og samþættingar málsmeðferðar ef við á. Skipulagsstofnun skal greina framkvæmdaraðila eins fljótt og kostur er frá því ef forsendur kostnaðaráætlunar breytast.
Skipulagsstofnun er heimilt að innheimta áfallinn kostnað vegna málsmeðferðar matsáætlunar hafi framkvæmdaraðili ekki lagt fram umhverfismatsskýrslu innan 18 mánaða frá því álit stofnunarinnar um matsáætlun framkvæmdaraðila lá fyrir.
15. gr. Efni umhverfismatsskýrslu framkvæmdar.
Í umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila samkvæmt 22. gr. laga nr. 111/2021 skal eftirfarandi koma fram eftir umfangi og eðli framkvæmdar:
-
Lýsing á framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir, einkum
- upplýsingar um staðsetningu framkvæmdar og uppdráttur af staðsetningu framkvæmdar og áhrifasvæði,
- upplýsingar um markmið framkvæmdar og hver er framkvæmdaraðili,
- lýsing á eiginleikum allrar framkvæmdarinnar, þ.m.t. nauðsynlegu niðurrifi ef við á, hönnun hennar, umfangi og áfangaskiptingu á framkvæmda- og rekstrartíma,
- lýsing á helstu framleiðsluferlum framkvæmdarinnar (einkum öllum vinnsluferlum), t.d. orkuþörf og orkunotkun, eðli og magni hráefna og upplýsingar um nýtingu náttúruauðlinda, svo sem vatns, lands, jarðvegs og líffræðilegrar fjölbreytni, annarra hráefna og mannaflaþörf á framkvæmda- og rekstrartíma,
- áætlun um losun (mengun vatns, lofts og jarðvegs, hávaða, titring, ljós, hita o.s.frv.) og um tegund og magn úrgangs á framkvæmda- og rekstrartíma,
- upplýsingar um framkvæmdir á vegum annarra aðila sem eru forsenda hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar,
- upplýsingar um matsskyldu framkvæmdar, með vísan til viðeigandi liða í 1. viðauka laga nr. 111/2021,
- upplýsingar um hvaða leyfum framkvæmd og starfsemi, sem henni fylgir er háð,
- upplýsingar um áætlaðan framkvæmda- og rekstrartíma.
- Lýsing og mat á raunhæfum valkostum sem framkvæmdaraðili hefur kannað (t.d. í tengslum við hönnun framkvæmdarinnar, tækni, staðsetningu, stærð og umfang) og sem tengjast fyrirhugaðri framkvæmd og sérstökum eiginleikum hennar, ásamt upplýsingum um helstu ástæður fyrir þeim valkosti sem framkvæmdaraðili hefur valið, að teknu tilliti til samanburðar umhverfisáhrifa.
- Greining á núllkosti að því marki sem mögulegt er á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga og vísindaþekkingar.
-
Lýsing á þeim umhverfisþáttum sem líklegt er að verði fyrir áhrifum af framkvæmdinni, meðal annars:
- íbúar og heilbrigði manna,
- líffræðileg fjölbreytni (t.d. í dýraríkinu og plönturíkinu), með sérstakri áherslu á tegundir og búsvæði sem njóta verndar,
- land, landslag, víðerni, jarðmyndanir, jarðvegur (t.d. lífrænt efni, rof, þjöppun, og lokun jarðvegs), vatn (t.d. vatnsformfræðilegar breytingar, magn og gæði), loft og loftslag (t.d. losun gróðurhúsalofttegunda og áhrif sem tengjast aðlögun að loftslagsbreytingum),
- efnisleg verðmæti og menningarminjar (t.d. fornminjar, byggingararfur og staðir sem tengjast menningarsögu).
-
Mat á líklegum umtalsverðum umhverfisáhrifum framkvæmdar sem meðal annars stafa af:
- Mannvirkjum, mannvirkjagerð og raski sem fylgja framkvæmdum, þ.m.t. ef við á niðurrifi og framkvæmdum á vegum annarra aðila sem eru forsenda framkvæmdarinnar,
- nýtingu á náttúruauðlindum, einkum landi, jarðvegi, jarðhita, vatni og líffræðilegri fjölbreytni, með tilliti til sjálfbærni þeirra,
- losun mengunarefna, hávaða, titrings, ljóss, hita og geislunar, ónæðis og endurnýtingu og förgun úrgangs,
- hættu fyrir heilbrigði manna, menningararfleifð eða umhverfið (t.d. vegna slysa eða náttúruhamfara),
- samlegð áhrifa með öðrum núverandi og/eða fyrirhuguðum framkvæmdum, m.a. með tilliti til nýtingar náttúruauðlinda,
- áhrifum framkvæmdarinnar á loftslag (t.d. eðli og magn losunar gróðurhúsalofttegunda) og næmi framkvæmdarinnar fyrir loftslagsbreytingum,
- þeirri tækni og þeim efnum sem notuð eru.
Mat á líklegum umtalsverðum áhrifum skal ná til beinna áhrifa og óbeinna áhrifa, samlegðaráhrifa, áhrifa yfir landamæri, áhrifa sem vara til skamms og langs tíma, varanlegra og tímabundinna áhrifa og jákvæðra og neikvæðra áhrifa af framkvæmdinni. Í umhverfismati skal leggja mat á vægi umhverfisáhrifa og taka tillit til umhverfisverndarmarkmiða stjórnvalda sem varða framkvæmdina.
- Lýsing á aðferðum og gögnum sem byggt er á til að greina og meta umhverfisáhrif framkvæmdar, þ.m.t. upplýsingar um þá óvissuþætti sem snúa að matinu og erfiðleika (t.d. tæknilega annmarka eða skort á þekkingu) við öflun tilskilinna upplýsinga.
- Lýsing á fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum og vöktun, eftir því sem við á. Í þeirri lýsingu skal skýra út að hversu miklu leyti er komist hjá, komið í veg fyrir, dregið úr eða vegið upp á móti umtalsverðum skaðlegum umhverfisáhrifum á framkvæmda- og rekstrartíma.
- Mat á skaðlegum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar sem leiða af næmi framkvæmdarinnar fyrir stórslysum og/eða náttúruhamförum. Heimilt er að nota viðeigandi upplýsingar sem liggja fyrir og eru fengnar með áhættumati sem farið hefur fram á grundvelli reglugerðar um varnir gegn hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna eða viðeigandi mats sem farið hefur fram á grundvelli annarra laga. Koma skulu fram upplýsingar um þær ráðstafanir sem eru fyrirhugaðar til að koma í veg fyrir eða draga úr umtalsverðum áhrifum slíkra atburða.
- Upplýsingar um kynningu og samráð sem staðið hefur verið að við mat á umhverfisáhrifum og upplýsingar um afstöðu þeirra aðila sem hafa tjáð sig um framkvæmdina eða umhverfismatið á vinnslustigi.
- Yfirlit yfir þá sérfræðinga sem unnu umhverfismatið og upplýsingar um sérfræðiþekkingu þeirra og réttindi.
- Samantekt umhverfismats um upplýsingar samkvæmt 1.-9. lið.
- Heimildaskrá.
16. gr. Kynning umhverfismatsskýrslu.
Þegar umhverfismatsskýrsla framkvæmdaraðila liggur fyrir yfirfer Skipulagsstofnun hana með tilliti til matsáætlunar, álits um matsáætlun og krafna 22. gr. laga nr. 111/2021. Stofnunin kynnir hina fyrirhuguðu framkvæmd og umhverfismatsskýrslu á vef stofnunarinnar og með auglýsingu í Lögbirtingablaði og í fjölmiðli sem ætla má að nái til þeirra sem búa nærri framkvæmdasvæði. Umhverfismatsskýrslan skal liggja frammi á aðgengilegum stað nærri framkvæmdasvæði og á vef Skipulagsstofnunar í sex vikur frá birtingu auglýsingar. Samhliða leitar stofnunin umsagna umsagnaraðila eftir eðli máls hverju sinni, þ. á m. leyfisveitenda.
Skipulagsstofnun getur, ef tilefni er til, í samráði við framkvæmdaraðila ákveðið að kynna framkvæmd og umhverfismatsskýrslu á opnu húsi, kynningarfundi eða á annan hátt.
Í umsögn umsagnaraðila skal koma fram hvort umsagnaraðili hafi athugasemdir við umfjöllun í umhverfismatsskýrslu út frá starfssviði umsagnaraðila, svo sem um gögn sem byggt er á, úrvinnslu gagna, mat á vægi og eðli umhverfisáhrifa eða framsetningu umhverfismatsskýrslu. Einnig, ef á skortir, hvaða atriðum umsagnaraðili telur að gera þurfi frekari skil eða hafa sérstaklega í huga við leyfisveitingar, svo sem varðandi mótvægisaðgerðir og vöktun. Leyfisveitendur skulu í umsögn sinni gera grein fyrir þeim leyfum sem eru á starfssviði þeirra og framkvæmdin er háð.
Skipulagsstofnun skal veita framkvæmdaraðila a.m.k. þrjá virka daga til að fara yfir fram komnar umsagnir og koma að athugasemdum sínum og frekari upplýsingum. Taki framkvæmdaraðili sér lengri frest til að fara yfir fram komnar umsagnir skal hann tilkynna Skipulagsstofnun um það og lengist þá frestur Skipulagsstofnunar til að veita álit um umhverfismat framkvæmdarinnar sem því nemur.
17. gr. Álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdar.
Innan sjö vikna frá því að kynningu umhverfismatsskýrslu lýkur skal Skipulagsstofnun gefa út álit um umhverfismat framkvæmdar í samræmi við 24. gr. laga nr. 111/2021. Álitið skal kynnt framkvæmdaraðila, leyfisveitendum og öðrum umsagnaraðilum, svo og þeim sem gert hafa athugasemdir við umhverfismatsskýrslu á kynningartíma. Almenningur skal eiga greiðan aðgang að áliti Skipulagsstofnunar og umhverfismatsskýrslu og skal stofnunin innan viku frá því að álitið lá fyrir auglýsa útgáfu álitsins og umhverfismatsskýrslu í fjölmiðli, sem ætla má að nái til hagsmunaaðila á viðkomandi svæði og eftir atvikum landsvísu, að álitið og umhverfismatsskýrslan liggi fyrir. Álit Skipulagsstofnunar skal vera aðgengileg á vef Skipulagsstofnunar. Um efni álitsins fer að öðru leyti samkvæmt 24. gr. laga nr. 111/2021.
18. gr. Álit Skipulagsstofnunar um endurskoðun umhverfismats.
Um endurskoðun umhverfismats framkvæmdar fer samkvæmt 28. gr. laga nr. 111/2021. Nú berst Skipulagsstofnun beiðni um álit um endurskoðun umhverfismats og skal stofnunin þá leita umsagnar umsagnaraðila eftir því sem við á eftir eðli máls hverju sinni og skulu þeir veita umsögn innan fjögurra vikna frá því að beiðni Skipulagsstofnunar berst. Ef umsögn berst ekki innan fjögurra vikna getur Skipulagsstofnun gefið út álit á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Skipulagsstofnun skal gefa framkvæmdaraðila kost á að bregðast við framkomnum umsögnum og skal hann hafa a.m.k. þrjá virka daga til að koma á framfæri athugasemdum sínum eða frekari upplýsingum. Taki framkvæmdaraðili sér lengri frest skal hann tilkynna Skipulagsstofnun um það og lengist þá frestur Skipulagsstofnunar til að gefa út álit sem því nemur.
Álit Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða þurfi umhverfismat í heild eða að hluta skal liggja fyrir eigi síðar en sjö vikum frá því að ósk um álit Skipulagsstofnunar barst. Álitið skal auglýst í Lögbirtingablaði og fjölmiðli, sem ætla má að nái til hagsmunaaðila á viðkomandi svæði og eftir atvikum landsvísu, innan tveggja vikna frá því að álit liggur fyrir.
19. gr. Öflun sérfræðiálits.
Skipulagsstofnun er heimilt að leita álits sérfræðinga á ákveðnum þáttum matsáætlunar og umhverfismatsskýrslu og fram komnum gögnum vegna matsskyldrar framkvæmdar, að höfðu samráði við framkvæmdaraðila, sbr. 14. gr. Leiti stofnunin sérfræðiálits skal í áliti stofnunarinnar um umhverfismat framkvæmdar tilgreina ástæður þess.
VI. KAFLI Ýmis ákvæði.
20. gr. Umhverfismat framkvæmda yfir landamæri.
Ef líklegt þykir að fyrirhuguð framkvæmd muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða ef ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, sem telur líklegt að umhverfi sitt verði fyrir umtalsverðum umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar, óskar þess ber Skipulagsstofnun að senda því ríki eins fljótt og unnt er og ekki síðar en þegar matsáætlun er kynnt almenningi hér á landi, lýsingu á framkvæmdinni, ásamt tiltækum upplýsingum um hugsanleg áhrif hennar yfir landamæri og upplýsingum um málsmeðferðina samkvæmt reglugerð þessari og lögum nr. 111/2021, og upplýsingar um þau leyfi sem framkvæmdin er háð. Skipulagsstofnun getur krafist þess að framkvæmdaraðili taki saman framangreindar upplýsingar á tungumáli þess ríkis. Skal Skipulagsstofnun gefa ríkinu hæfilegan frest til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og tilkynna hvort það vilji taka þátt í málsmeðferðinni við umhverfismat framkvæmdarinnar. Ef ríkið tilkynnir að það vilji taka þátt í málsmeðferðinni skal Skipulagsstofnun senda ríkinu umhverfismatsskýrslu framkvæmdarinnar þegar hún er auglýst hér á landi. Þegar álit um umhverfismat framkvæmdar liggur fyrir skal það kynnt ríkinu. Þegar ákvörðun um leyfisveitingu liggur fyrir vegna framkvæmdarinnar skal leyfisveitandi senda ríkinu upplýsingar um innihald og skilyrði ákvörðunarinnar og helstu ástæður hennar og upplýsingar um aðkomu almennings að ákvörðuninni ásamt upplýsingum um mótvægisaðgerðir.
Ef líklegt þykir að framkvæmd í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif hér á landi skal Skipulagsstofnun eins fljótt og unnt er kynna gögn frá viðkomandi ríki fyrir umsagnaraðilum og almenningi hér á landi að meðtalinni umsókn um leyfi til framkvæmda liggi hún fyrir og tilgreina frest til að koma að athugasemdum við framkvæmdina. Þegar fyrir liggur umhverfismat framkvæmdarinnar skal Skipulagsstofnun kynna það fyrir almenningi ásamt ákvörðun um útgáfu leyfis til framkvæmdarinnar þegar það liggur fyrir.
Ef fyrir liggur að framkvæmd muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif yfir landamæri skal ráðherra hefja viðræður við hlutaðeigandi ríki um áhrif framkvæmdarinnar yfir landamæri og þær ráðstafanir sem fyrirhugaðar eru til að draga úr eða koma í veg fyrir slík áhrif. Skal ráðherra í samráði við hlutaðeigandi ríki setja sér hæfilegan frest til viðræðnanna. Viðræðurnar geta einnig átt sér stað fyrir milligöngu sameiginlegrar stofnunar. Skal niðurstaða viðræðnanna kynnt umsagnaraðilum hér á landi og almenningi.
21. gr. Umhverfismat áætlana yfir landamæri.
Ef líklegt þykir að áætlun muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða ef ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, sem telur líklegt að umhverfi sitt verði fyrir umtalsverðum umhverfisáhrifum vegna áætlunarinnar, óskar þess ber Skipulagsstofnun í samráði við ábyrgðaraðila áætlunarinnar að senda því ríki eins fljótt og hægt er tillögu að áætluninni ásamt umhverfismatsskýrslu. Skipulagsstofnun skal gefa ríkinu hæfilegan frest til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og tilkynna hvort það vilji taka þátt í málsmeðferðinni við umhverfismat áætlunarinnar. Skipulagsstofnun getur krafist þess að ábyrgðaraðili áætlunarinnar taki saman framangreindar upplýsingar á tungumáli þess ríkis. Ef ríkið tilkynnir að það vilji taka þátt í málsmeðferðinni skal gefa því hæfilegan frest til að koma á framfæri athugasemdum sínum, áður en áætlunin hlýtur afgreiðslu. Þegar fyrir liggur umhverfismat áætlunar skal það kynnt ríkinu.
Ef líklegt þykir að áætlun í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif hér á landi skal Skipulagsstofnun eins fljótt og unnt er kynna gögn frá viðkomandi ríki fyrir umsagnaraðilum og almenningi hér á landi og tilgreina frest til að koma að athugasemdum við áætlunina. Þegar fyrir liggur umhverfismat áætlunarinnar skal Skipulagsstofnun kynna það fyrir almenningi.
Ef fyrir liggur að áætlun muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif yfir landamæri skal ráðherra hefja viðræður við hlutaðeigandi ríki um áhrif áætlunarinnar yfir landamæri og þær ráðstafanir sem fyrirhugaðar eru til að draga úr eða koma í veg fyrir slík áhrif. Skal ráðherra í samráði við hlutaðeigandi ríki setja sér hæfilegan frest til viðræðnanna. Viðræðurnar geta einnig átt sér stað fyrir milligöngu sameiginlegrar stofnunar. Skal niðurstaða viðræðnanna kynnt umsagnaraðilum hér á landi og almenningi.
22. gr. Gögn framkvæmdaraðila.
Almennar reglur höfundarréttar gilda um gögn þau sem lögð eru fram samkvæmt reglugerð þessari.
Um aðgang að gögnum framkvæmdaraðila sem berast Skipulagsstofnun fer skv. viðeigandi löggjöf, s.s. upplýsingalögum.
23. gr. Lagastoð og gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 33. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021.
Reglugerð þessi öðlast þegar gildi og um leið fellur úr gildi reglugerð um mat á umhverfisáhrifum nr. 660/2015.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 17. nóvember 2021.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson.
Sigríður Auður Arnardóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.