Fara beint í efnið

Nauðungarsölur

Um kaup eigna á nauðungarsölu

Áður en mætt er á uppboð

Væntanleg uppboð eru auglýst á vef sýslumanna og eftir atvikum í dagblöðum. Mikilvægt er að þeir sem hyggjast leggja fram boð í eign séu búnir að kynna sér uppboðsskilmála vel. 

Á uppboðsstað

Sýslumaður eða fulltrúi hans mæta á staðinn ásamt fulltrúum kröfuhafa og öðrum sem hyggjast bjóða í eignina. Þegar uppboðið hefst óskar sýslumaður eða fulltrúi hans eftir boðum í eignina. Þegar hann hefur óskað í þrígang eftir frekari boðum án þess að þau komi fram lætur hann hamar falla til marks um að uppboðinu sé lokið. 

Sérstök athygli er vakin á því að sýslumaður getur krafist þess að þeir sem gera boð leiði að því rök, að þeir geti staðið við boð sín. Þá er sýslumanni heimilt að krefja bjóðanda um tryggingu fyrir boði sínu. Almennt eru bjóðendur krafðir um tryggingu fyrir boði sínu sem nemur 500.000 krónur og er þeim þá gert að leggja hana fram daginn eftir uppboð.  

Eftir uppboð

Almennt eru allir bjóðendur bundnir við boð sín í þrjár vikur og hefur sýslumaður þann tíma til að taka ákvörðun um hvaða boð skuli samþykkt, oftast er hæsta boði tekið en sýslumanni er það ekki skylt og hann getur hafnað öllum boðum. Eftir að uppboði er lokið hefst samþykkisfrestur sem er almennt tvær vikur. Sýslumanni er heimilt eftir beiðni gerðarþola og með samþykki kröfuhafa að lengja þennan frest. Á samþykkisfresti geta kröfuhafar enn afturkallað nauðungarsölubeiðnir sínar og fellt með því málið niður. Gerist það ekki ber að greiða 25% kaupverðsins við lok samþykkisfrests og þá fyrst telst boð formlega samþykkt.

Almennar upplýsingar

Greiðsla kaupverðs

Í uppboðsskilmálum er meðal annars fjallað um hvernig greiðslu kaupverðs skuli háttað. Almennt skal greiða kaupverðið í þrennu lagi, þannig að 25% greiðist við samþykki boðs, 25% mánuði síðar og svo 50% þremur mánuðum eftir samþykki boðs. Það athugast að ekki er hægt að veðsetja eignina fyrr en allt kaupverðið er greitt og nauðungarsöluafsal útgefið. Hins vegar er hægt að freista þess að ná samningum við kröfuhafa um yfirtöku áhvílandi veðskulda og greiða með því hluta kaupverðsins.

Áhætta af eign og umráðaréttur 

Samkvæmt uppboðsskilmálum ber kaupandi áhættu af eign frá því að boð er samþykkt. Það þýðir að skylda kaupanda til að greiða kaupverðið fellur ekki niður þótt eignin skemmist eða rýrni. Jafnframt ber kaupandi ábyrgð á fasteigninni líkt og öðrum eignum sínum. 

Frá sama tíma hefur kaupandi umráðarétt yfir eigninni, að því gefnu að gildi nauðungarsölunnar hafi ekki verið borið undir dóm áður en kaupandi tekur við umráðum eignarinnar.  Þó kann að vera að sýslumaður hafi fallist á að gerðarþoli eða leigjandi í eigninni fái að vera þar áfram í allt að 12 mánuði gegn leigugreiðslu sem gangi til kaupanda.

Kaupandi ber rekstrarkostnað, til dæmis fasteignagjöld, rafmagn og hiti, af eigninni frá því að uppboði lýkur. 

Afhending eignar 

Þrátt fyrir að uppboðsskilmálar mæli fyrir um það hvenær kaupandi nýtur umráða yfir eigninni er ekki þar með sagt að gerðarþoli afhendi eignina á þeim tíma. Geri hann það ekki verður kaupandi eftir atvikum að krefjast útburðar á gerðarþola og því sem honum tilheyrir af eigninni. 

Þjónustuaðili

Sýslu­menn

Sýslumenn

Höfuð­borg­ar­svæðið

Mán. til fim. 8:30 - 15
Fös. 8:30 - 14

Vest­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Vest­firðir

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 13:30

Norð­ur­land vestra

Mán. til fös. 9 - 15

Norð­ur­land eystra

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Aust­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9-14

Suður­land

Mán. til fös. 9 - 15

Vest­manna­eyjar

Mán. til fim. 9:15 - 15
Fös. 9:15 - 14

Suðurnes

Mán. til fös. 8:30 - 15