Fara beint í efnið

Fjármál og skattar

Nauðungarsölur

Beiðni um nauðungarsölu eigna uppí kröfur

Til að krefjast megi nauðungarsölu þarf krafa (fjárskuld) að vera í vanskilum og tryggð með veði í þeirri eign sem óskað er sölu á: 

Veð sem um ræðir eru

  • veð samkvæmt skuldabréfi sem þinglýst er á eign

  • veð samkvæmt fjárnámi (aðfararveð)

  • lögveð t.d iðgjöld skyldubundinna brunatrygginga

  • haldsréttur í eign til dæmis vegna viðgerða, endurbóta eða flutnings

Hvert skal beina beiðni um nauðungarsölu

Beiðni um nauðungarsölu skal senda í þríriti  til sýslumanns

  • Fasteign: til þess embættis er hún er staðsett

  • Skip eða loftfar sem skráð er erlendis: Til þess embættis er skipið er skráð eða loftfarið statt

  • Loftfar skráð herlendis: til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu

  • Lausafé: almenna reglan er að senda beiðni til þess embættis er skuldarinn býr eða eignin staðsett 

Gjald fyrir nauðungarsölubeiðni

  • Fasteignir: 1% fjárhæðar kröfu, þó að lágmarki 22.000 krónur og hámarki 75.000 krónur.

  • Lausafé: 1% fjárhæðar kröfu, þó að lágmarki 8.000 krónur og hámarki 25.000 krónur.

Ferlið 

Fyrsta fyrirtaka 

Beiðni um nauðungarsölu er tekin fyrir á skrifstofu sýslumanns, gögn lögð fram og ákvörðun tekin um framhaldið, þar á meðal hvort eignin verði seld á almennum markaði eða á uppboði. 

Sala á almennum markaði

Við fyrstu fyrirtöku getur gerðarþoli eða gerðarbeiðandi óskað eftir því að nauðungarsalan fari fram á almennum markaði. Sýslumanni ber að samþykkja slíkt ef aðilar eru sammála, sá sem óskar eftir því sannar að hann hafi tilkynnt öðrum aðilum að málinu að hann muni bera upp óskina við fyrirtökuna með minnst viku fyrirvara og hann leggi fram tryggingu fyrir kostnaði sem kann að stafa af aðgerðum vegna hennar ef þær leiða ekki til sölu eignarinnar.

Sýslumaður getur einnig samþykkt að verða við ósk gerðarþola þótt gerðarbeiðandi eða aðrir aðilar mótmæli ef hann telur raunhæft að ráðstöfunin geti tekist og að það hafi ekki áhrif á líkindi fyrir að hlutaðeigandi fái fullnustu af andvirði eignarinnar. 

Byrjun uppboðs 

Verði ákveðið að nauðungarsalan fari fram á uppboði er boðað til fyrirtöku vegna byrjunnar uppboðs. Þar eru fyrstu boð lögð fram í eignina og málinu svo frestað til framhaldsuppboðs.

Framhald uppboðs 

Framhaldsuppboð fer fram á eigninni sjálfri. Þar óskar sýslumaður eftir frekari boðum í eignina. Hæstbjóðanda er þar tilkynnt að boð hans verði samþykkt að liðnum samþykkisfresti ef greiðsla berst frá honum í samræmi við uppboðsskilmála. Samþykkisfresturinn er að jafnaði 2 vikur en hann er hægt að lengja eftir ósk gerðarþola með samþykki gerðarbeiðanda. 

Að liðnum samþykkisfresti er frumvarp að úthlutunargerð kynnt aðilum málsins..  Athugasemdafrestur eru tvær vikur.

Gerðarbeiðandi þarf að vera viðstaddur fyrirtöku hjá sýslumanni, annars fellur uppboðið niður.

Þjónustuaðili

Sýslu­menn