Leysar, leysibendar og IPL-tæki
Meðhöndlun með öflugum leysi eða IPL-tæki
Sá sem íhugar að ganga undir meðhöndlun með öflugum leysi eða IPL (e. intense pulsed light) tæki þarf að vera meðvitaður um mögulegar hættur við notkun tækjanna. Því er ráðlagt að viðskiptavinir fullvissi sig um að sá sem framkvæmir meðhöndlun með öflugum leysi sé til þess hæfur og hafi fullnægjandi þekkingu á öryggisatriðum og mögulegum hættum.
Hafa skal í huga að diplóma eða viðurkenningarskjal sem einstaklingur hefur hlotið tryggir ekki hæfni starfsmanns í meðhöndlun á öflugum leysi eða IPL-tækjum.
Ef grunur liggur á um að um húðbreytingu sé að ræða á meðhöndlunarsvæði eða annars staðar þarf alltaf að fá faglegt mat húðlæknis eða annars læknis með sambærilega sérmenntun áður en meðhöndlun hefst. Aldrei ætti að fjarlægja fæðingarbletti nema þeir hafi verið skoðaðir af lækni með viðeigandi sérmenntun, svo sem húðlækni eða lýtalækni.
Dæmi eru um að húðbreytingar sem erfitt er að greina frá alvarlegum sjúkdómum séu meðhöndlaðar í fegrunarskyni af aðilum sem ekki hafa til þess viðeigandi þekkingu og þjálfun.
Notkun öflugra leysa og IPL-tækja í fegrunarskyni fylgir alltaf einhver áhætta.
Algengasti skaðinn
Algengasti skaðinn af völdum öflugra leysa er húðbruni sem getur tekið langan tíma að læknast. Húðbruni getur leitt til sýkingar í húð og örmyndunar.
Augað eru það líffæri sem er viðkvæmast fyrir leysum og IPL-tækjum. Leysigeislun getur skaðað sjónhimnuna sem getur leitt til sjónmissis. Jafnvel endurvarp leysis af möttu yfirborði getur valdið skaða ef leysirinn er í aflmesta flokknum, flokki 4.
Sjá einnig um flokkun leysa.
Þjónustuaðili
Geislavarnir ríkisins