Stjórnsýslulegar upplýsingar
Upplýsingar um nafn, kennitölu, heimilisfang, sveitarfélag, hjúskaparstöðu og kyn færast inn sjálfkrafa þegar um er að ræða fullorðinn einstakling.
Upplýsingar um atvinnu eru skráðar sem frjáls texti og skulu skráðar eins nákvæmlega og unnt er.
Til dæmis skal rita iðnaðarverkamaður fremur er verkamaður, svæfingarhjúkrunarfræðingur fremur en hjúkrunarfræðingur og svo framvegis í þeim tilvikum sem við á. Sé um eftirlaunaþega að ræða skal skrá það starf sem hinn látni gegndi lengst af ævinnar. Hafi hinn látni verið öryrki skal skrá bæði fyrra starf og orðið öryrki. Ætíð skal leitast við að skrá það starf sem viðkomandi gegndi lengst af, en sé það óljóst þá síðasta starf sem hinn látni hafði með höndum.
Dánarvottorð skal afhent venslamanni samkvæmt 10. gr laga nr. 61/1998 um dánarvottorð. Í reitinn Aðstandendur skulu skráðar upplýsingar um þann venslamann sem afhent hefði verið dánarvottorðið hefði það verið ritað á pappírsformi. Skráning þessi er nauðsynleg svo sýslumaður geti sent aðstandanda upplýsingar um næstu skref. Fullnægjandi er að skrá einn aðstandanda.
Dánarstaður er sá staður þar sem andlátið er staðfest. Sé einstaklingur t.d. fluttur án lífsmarks á sjúkrahús og endurlífgun reynd, er dánarstaður sjúkrahúsið þar sem endurlífgunartilraunir voru gerðar. Dánarstaður skal tilgreindur með götunafni, húsnúmeri, póstnúmeri og sveitarfélagi. Auk þess skal tilgreina hvers konar stað er um að ræða, t.d. heimili hins látna, heilbrigðisstofnun (hvaða), vinnustað eða annan stað. Fyrir fundið lík skal geta staðarins sem líkið fannst á.
Dánardægur er sá dagur þegar andlát er staðfest. Dánarstund skal skráð með dagsetningu og eins nákvæmri tímasetningu og aðstæður leyfa. Ef barn deyr innan sólarhrings frá fæðingu skal rita hversu mörgum stundum eftir fæðingu andlátið bar að. Ef dánarstund er ekki þekkt, er skráð dagsetning líkfundar og hakað við Dánardagur óþekktur.
Læknisfræðilegar upplýsingar
Dánarmein skal skrá eins nákvæmlega og hægt er. Þar skal stuðst við 10. útgáfu ICD flokkunarkerfisins en einungis rita texta, þ.e. heiti sjúkdóms eða ástands, en ekki sjálfa kóðana. Kóðun dánarmeina fer fram hjá embætti landlæknis. Ekki er gerð krafa um að eingöngu séu íslensk sjúkdómsheiti notuð heldur má einnig skrá latnesk eða ensk heiti. Aðalatriðið er að notaðar séu sem nákvæmastar greiningar samkvæmt ICD-10.
Upplýsa þarf um atburðarrásina frá greiningu þess sjúkdóms sem metinn er sem bein orsök dauða og fram til andláts. Reitum til skráningar undirliggjandi og samverkandi dánarmeina er skipt í tvo hluta, I og II.
Í hluta I skal skrá þann sjúkdóm/sjúkdóma eða áverka sem leiddi/leiddu til dauða. Þar getur verið um að ræða einfalda beina orsök dauða, svo sem lungnabólgu, eða röð af sjúkdómsgreiningum, (t.d. brjóstkrabbamein, lifrarbilun, og lungnabólgu.)
A: Sjúkdómur eða ástand sem telst bein orsök dauða (t.d. lungnabólga),
B, C: Sjúkdómar sem leiddu til hinnar beinu dánarorsakar (t.d. lifrarmeinvörp og vökvi í kviðarholi).
D: Undirliggjandi dánarorsök (t.d. brjóstakrabbamein).
Ástand svo sem ellihrörnun, uppköst, gulu o.s.frv. má skrá í liði A, B, C eða D en þá skal fylgja sjúkdómsgreining sem tilgreinir undirliggjandi sjúkdóma. Ef læknir sem fyllir út vottorðið getur ekki tilgreint dánarorsök, og ekki er búist við nánari skýringum með viðbótarrannsóknum, skal skrá óþekkt dánarorsök.
Í hluta II skal skrá samverkandi orsakir að dauða, þ.e. sjúkdóma eða ástand sem voru samverkandi að dauða, án þess að tengjast beint sjúkdómsferlinu (t.d. iktsýki). Dánarmeinaskráningin verður betri sé þessi hluti einnig útfylltur. Sem dæmi mætti skrá þarna sjúkdóma sem gætu hafa minnkað mótstöðuafl einstaklingsins t.d. heilabilun eða nýrnabilun, sem gætu hafa flýtt sjúkdómsferlinu, þótt ekki sé hægt að sýna fram á að þeir hafi átt beinan þátt í þeirri orsakakeðju sem leiddi til dauða. Einnig má t.d. skrá í hluta II slys eða misnotkun áfengis eða lyfja, sem hugsanlegt er að hafi átt þátt í dauða. Sjúkdómsgreiningum í hluta II skal raðað í forgangsröð eftir því hversu mikið þeir eru taldir tengjast dauðsfallinu.
Þessar upplýsingar eru nauðsynlegar til að unnt sé að skrá dánarorsakir í samræmi við reglur Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. Því er mikilvægt að sem nákvæmastar upplýsingar fáist um alla skráða sjúkdóma eða tiltekið ástand. Tímabilið skal skrá sem fjölda klukkustunda (eða brota úr klukkustund.), daga eða ára sem liðu frá greiningu sjúkdómsins til andláts, eða frá slysi til andláts.
Hafi hinn látni gengist undir aðgerð sem tengist dánarmeini skal ástæða aðgerðar og tegund aðgerðar tilgreind sem og hvenær og hvar aðgerðin var gerð.
Ef sá látni er kvenkyns skal skrá hvort þungun hafi átt sér stað á síðustu 12 mánuði fyrir andlát. Velja skal viðeigandi svar af lista sem birtist í felliglugga. Þungun inniheldur einnig þungunarrof.
Um er að ræða allar þunganir, óháð útkomu þungunarinnar. Þannig er einnig skráð um þungun, fósturmissi og þungunarrof á síðustu 12 mánuðum fyrir andlát.
Í þessum reit er greint á milli eðlilegs dauðdaga þ.e. andláts vegna sjúkdóms og dauðsfalls sem ytri ástæður valda beint. Í síðara tilvikinu getur verið um að ræða slys, sjálfsvíg eða manndráp. Aðstæður kunna einnig að vera þannig að lík finnist ekki eða tildrög andláts séu önnur en hér er gert ráð fyrir, eða ekki þekkt, og skal þá merkt í viðeigandi reit.
Þegar ekki er um eðlilegan dauðdaga að ræða skal alltaf tilkynna andlátið til lögreglu. Lögregla getur mælt fyrir um réttarlæknisfræðilega líkskoðun eða réttarkrufningu. Dánarorsök skal rita sem slys þegar áverkinn, sem er afleiðing slyssins, leiðir með beinum hætti til dauða. Þegar um slys er að ræða er fyllt út í reiti um vettvang slyss, þ.e. hvar slysið varð og við hvaða athöfn. Í reit um nánara eðli og tildrög slyss er nauðsynlegt að fram komi nákvæmlega hvernig slys bar að og við hvaða aðstæður. Þegar um umferðarslys er að ræða þarf t.d. að geta þess hvort slysið varð í almennri umferð eða utan vegar, hvort hinn látni ók bílnum eða hvort hann var farþegi í fram- eða aftursæti. Látist einstaklingur af völdum falls þarf að tilgreina hvort viðkomandi féll á jafnsléttu eða úr hæð (t.d. úr stiga eða rúmi). Við sjálfsvíg með skotvopni þarf að geta um tegund skotvopns, (t.d. fjárbyssa, rifill, haglabyssa) o.s.frv.
Ef tekin hafa verið sýni frá sjúklingi fyrir andlát og niðurstaða talin hafa þýðingu við úrskurð dánarorsakar, t.d. eiturefnamælingar, sýkla- eða veirugreiningar, skal færa í sérmerktan reit upplýsingar um eðli rannsóknar. Embætti landlæknis mun þá leita eftir niðurstöðum rannsóknanna, hafi ekki þegar verið tekið tillit til þeirra við ákvörðun dánarorsaka.
Ef merkt er við svarmöguleikann Já, þá opnast gluggi til frekari skráningar.
Hér skal getið um heimildir sem læknir notar til þess að fylla út dánarvottorð, hvort andlát hafi verið tilkynnt lögreglu og hvort réttarlæknisfræðileg líkskoðun eða krufning hafi farið fram. Hafi farið fram réttarlæknisfræðileg líkskoðun skal læknir sem þátt tók í skoðuninni rita dánarvottorðið. Ef lík er krufið í framhaldi af réttarlæknisfræðilegri líkskoðun skal fara fram réttarkrufning en ekki læknisfræðileg krufning. Skal þá læknir sem tók þátt í réttarkrufningunni rita dánarvottorðið. Sé lík krufið og niðurstöður liggja ekki fyrir mun landlæknir óska eftir upplýsingum um niðurstöðu krufningar síðar.
Við rafræna undirskrift læknis sem fyllir út dánarvottorðið eru upplýsingar sendar áfram á viðeigandi stofnanir, þ.e. sýslumenn, Þjóðskrá og embætti landlæknis.
Mikilvægt er að staðfesta eyðublaðið og skrifa undir rafrænt því annars er eyðublaðið ekki sent áfram.
Ef niðurstaða krufningar eða rannsóknar breytist eftir útgáfu dánarvottorðsins þá er hægt að fara aftur inn í eyðublaðið og breyta vottorðinu. Opnast þá aðeins tveir flipar Dánarmein og Niðurstaða þar sem færa skal inn nýjar upplýsingar og breytingar á dánarupplýsingum. Þegar skráningu er lokið og eyðublaðið staðfest birtist reitur þar sem beðið er um rafræna undirskrift. Við undirskrift eru nýju upplýsingarnar sendar til embættis landlæknis.
Læknir sem framkvæmir réttarkrufningu ritar dánarvottorðið og færir inn viðbótarupplýsingar.
Þjónustuaðili
Embætti landlæknis