Fara beint í efnið

Í dómsal

Einstaklingur sem á að mæta fyrir dóm á að hafa fengið upplýsingar um það fyrirfram klukkan hvað og hvert eigi að mæta. Þær upplýsingar berast frá dómstólnum eða lögmönnum málsins.

Hverjir mæta í dómsal?

Einstaklingar sem mæta í dómsal, fyrir utan lögmenn og starfsfólk dómstóla, eru til dæmis:

  • Aðilar máls. Í einkamálum eru það stefnandi og stefndi en í sakamálum hinn ákærði og ákærandi.

  • Vitni.

Ekki er hægt að senda fjölskyldumeðlim með umboð.

Einkamál

  • Lögmaður getur mætt fyrir stefnanda og stefnda, eins lögfræðingur sem er fulltrúi á lögmannsstofu.

Sakamál

  • Lögráðamaður kemur fram sem fyrirsvarsmaður sakbornings ef viðkomandi er ólögráða, eftir því sem þörf krefur.

  • Stjórnendur eru fyrirsvarsmenn ef sakborningur er lögaðili, það er, fyrirtæki.

  • Lögmaður gætir hagsmuna sakbornings ef viðkomandi hefur ekki fengið skipaðan verjanda. Sakborningur borgar kostnaðinn af þjónustu lögmannsins.

Flestir mæta í héraðsdóm

Lang algengast er að fólk mæti í héraðsdóm.

Hvert á ég að fara?

Þar sem eru fleiri en einn salur má fá upplýsingar í afgreiðslu dómhússins. Einnig eru upplýsingar á skjá í afgreiðslunni.

Í héraðsdómi Vesturlands, Vestfjarða, Norðurlands vestra, Austurlands og Suðurlands er einungis einn dómsalur.

Þeir eru fleiri í héraðsdómi Reykjaness og á Norðurlandi eystra og lang flestir í héraðsdómi Reykjavíkur. Í Landsrétti eru fjórir dómsalir og í Hæstarétti tveir.

Aðgengismál

Það er stefna dómstólasýslunnar að reyna að tryggja eftir fremsta megni að aðgengi að dómstólum og innan dómstóla sé greitt. Það er mælt með því að þau sem þurfa aðstoð við aðgengi komi með fylgd í dómhús. Það er gott að hringja í viðkomandi dómhús áður en mætt er til að hægt sé að gera viðeigandi ráðstafanir.

Stundvísi er mikilvæg

Það er gott að gera ráð fyrir góðum tíma til að koma sér í dómsalinn.

Vitni

Vitni bíða alltaf fyrir utan dómsalinn á meðan vitnisburður annarra vitna fer fram. Þetta er gert til að vitni heyri ekki vitnisburð þeirra. Mikilvægt er að vitni mæti tímanlega í dómhúsið til að geta gengið í dómsalinn þegar dómari óskar eftir.

Hvernig lítur dómsalur út?

Dómsalir líta ekki allir eins út en fyrirkomulag þeirra er með sama sniði.

Hver situr hvar

Dómarinn situr fyrir miðju, eða dómarar ef þeir eru fleiri en einn.

Vitni sitja andspænis dómaranum.

Við borð vinstra megin í salnum séð frá vitninu sitja:

  • sækjandi og lögmaður sækjanda, ef málið er einkamál.

  • ákærandi og réttargæslumaður brotaþola, ef málið er sakamál.

Við borð hægra megin í salnum séð frá vitninu sitja:

  • varnaraðili, það er, stefndi og lögmaður varnaraðila, ef málið er einkamál.

  • ákærði og verjandi, það er lögmaður ákærða, ef málið er sakamál.

Lögmenn sitja nær dómaraborðinu en umbjóðendur við hliðina á þeim.

Dómsalur í sýndarveruleika

Dómsalur í sýndarveruleika hefur verið þróaður til að aðstoða brotaþola við að undirbúa sig fyrir að gefa skýrslu í dómsal. Aðstaðan er til húsa hjá Ríkislögreglustjóra, Skúlagötu 21. Fyrirspurnir um aðgang skal senda á statum@statum.is.

Þinghald

Réttarhöld, einnig kölluð þinghöld, eru venjulega opin þeim sem vilja fylgjast með. Í upphafi setur dómari þinghald og í lokinn slítur hann því á formlegan hátt. Dómari stýrir þinghaldi og gætir þess að það sé háð eftir réttum reglum.

Áheyrendum getur verið vísað frá

Dómari getur takmarkað fjölda áheyrenda við þá sem rúmast á þingstað. Þá getur hann meinað þeim aðgang sem eru illa á sig komnir eða ef hætta er á því að nærvera þeirra valdi því að sakborningur eða vitni skýri ekki satt frá. Dómari má einnig vísa einstaklingi úr þinghaldi ef návist hans truflar þingfrið eða er óviðeigandi.

Lokuð réttarhöld

Þinghöld eru lokuð ef dómari telur það nauðsynlegt til að hlífa sakborningi, brotaþola, vitni eða ættingjum þeirra.

Einnig getur dómari talið það nauðsynlegt til að halda leyndum atriðum sem varða viðskipti þessara aðila, af velsæmisástæðum, vegna hagsmuna almennings eða öryggis ríkisins og til að halda uppi þingfriði. Þá eru þinghöld einnig lokuð þegar vitni, sem hefur fengið nafnleynd, gefur skýrslu í heyranda hljóði.

Talað í dómsal

Enginn má taka til máls nema með leyfi dómara og getur hann tekið orðið af manni sem heldur sig ekki við efni máls. Áhorfendur hafa aldrei heimild til að taka til máls í þinghaldi.

Dómari ávarpaður

Oft eru dómarar ávarpaðir sem „dómari“ eða „virðulegi dómur“.

Starfsfólk dómstóla

Fyrir utan dómara, málflytjendur og eftir atvikum aðila málsins er stundum starfsfólk dómstólanna í salnum. Það getur verið:

  • Aðstoðarmaður dómara

  • Dómritari

  • Dómvörður

Upptökur og myndatökur

Það má ekki hljóðrita eða taka myndir í þinghaldi. Dómari getur veitt undanþágu frá þessu banni.

Upptökur af aðilaskýrslum og vitnisburði

Skýrslur aðila og vitna fyrir dómi eru almennt teknar upp í hljóði og mynd.

Ákveðnar reglur gilda um afhendingu og aðgang málsaðila, brotaþola, ákæruvaldsins, verjenda og lögmanna að hljóð- og myndupptökum samkvæmt lögum. Reglurnar gilda einnig um sendingar hljóð- og myndupptaka frá einu dómstigi til annars.

Dómarar

Í héraðsdómi er alla jafna einn dómari, í Landsrétti þrír dómarar og í Hæstarétti fimm dómarar.

Klæðnaður dómara

Dómarar bera ávallt skikkjur í þinghöldum í dómsölum. Þær undirstrika hlutleysi dómara. Skikkjurnar eru ólíkar útlits eftir dómstigum.

Óánægja með dómara

Hægt er að senda kvörtun til nefndar um dómarastörf ef einhver telur dómara hafa gert á sinn hlut í störfum sínum. Ef ástæðan er óánægja með dóm sem dómari hefur fellt er ekki hægt að kvarta yfir henni til nefndarinnar heldur verður að áfrýja málinu til æðra dómstigs.

Túlkar

Táknmálstúlkun

Að flytja eigið mál

Einstaklingar hafa þann rétt að meginstefnu að flytja mál sitt sjálfir fyrir dómstólunum. Sú skylda hvílir þá á dómurum um að leiðbeina aðilum um formhlið málsins. Ef það er mat dómara að einstaklingur í einkamáli sé ekki fær um að flytja mál sitt sjálfur getur dómarinn sagt honum að ráða sér hæfan umboðsmann. Ef aðili verður ekki við því þá má líta svo á að hann hafi ekki sótt þing næst þegar málið er tekið fyrir.

Flestir kjósa hins vegar að fá þjónustu lögmanns til að gæta hagsmuna sinna strax við upphaf máls.

Í sakamáli gildir það sama nema að því leytinu að dómari getur skipað sakborningi verjanda í óþökk hans.

Lesa meira:

Þjónustuaðili

Dómstólar