Nefnd um dómarastörf
Nefnd um dómarastörf er sjálfstæð og óháð nefnd sem er ætlað að styrkja stöðu dómstólanna sem sjálfstæðra og óháðra stofnana, jafnt inn á við sem út á við.
Nefndin tekur við kvörtunum vegna dómstarfa dómara og hefur eftirlit með aukastörfum dómara og eignarhlut þeirra í félögum og fyrirtækjum. Nefndin hefur aðstöðu hjá dómstólasýslunni.
Nefndin fjallar um agamál dómara og eftir atvikum aðstoðarmanna dómara og tekur við kvörtunum vegna dómstarfa þeirra.
Hverjum þeim sem telur dómara hafa gert á sinn hlut í störfum sínum er heimilt að beina skriflegri og rökstuddri kvörtun til nefndarinnar. Kvörtunin skal berast nefndinni innan þriggja mánaða frá því að sá atburður sem kvörtunin nær til átti sér stað, eða komst til vitundar þess sem kvartar, þó þannig að ekki hafi liðið meira en ár frá því að atburðurinn átti sér stað.
Erindi til nefndarinnar skal vera skriflegt og berast með því að fylla út eftirfarandi form: Kvörtun til nefndar um dómarastörf.
Í því skulu koma fram eftirfarandi upplýsingar:
Nafn þess sem kvartar, kennitala og heimilisfang.
Nafn dómara sem kvartað er yfir, við hvaða dómstól dómari starfar og númer máls, hvenær atburður átti sér stað og málsatvik sem eru tilefni erindisins.
Þegar kvörtun er talin tæk til meðferðar er málið kannað nánar og hlutaðeigandi dómara gefinn kostur á að skila skriflegum athugasemdum. Nefndin metur hvort háttsemi sem lýst er í erindinu samrýmist vönduðum dómarastörfum og ef tilefni er til getur hún fundið að störfum hlutaðeigandi dómara eða veitt honum áminningu.
Falli kvörtun ekki undir valdsvið nefndarinnar er henni þegar vísað frá. Það á til dæmis við ef kvartað er vegna dómsúrlausna dómara en slíkum kvörtunum er ekki hægt að beina til nefndar um dómarastörf. Álitum og ákvörðunum nefndarinnar verður ekki skotið til annars stjórnvalds.
Nefndin hefur eftirlit með aukastörfum dómara og eignarhlut þeirra í félögum og atvinnufyrirtækum í samræmi við reglur nr. 1165/2017 og breytingar sem gerðar hafa verið á reglum um aukastörf héraðsdómara, landsréttardómara og hæstaréttardómara og eignarhlut þeirra í félögum og atvinnufyrirtækjum og skráning þeirra nr. 1499/2023.
Dómarar skulu ekki gegna öðrum störfum og ekki eiga hlut í félagi eða atvinnufyrirtæki. Nefnd um dómarastörf setur reglur um undanþágur frá þessari meginreglu. Þegar við á getur nefndin, með rökstuddri ákvörðun, meinað dómara að gegna aukastarfi eða eiga hlut í félagi eða atvinnufyrirtæki.
Nefnd um dómarastörf heldur skrá um aukastörf dómara og eignarhluti þeirra í félögum og atvinnufyrirtækjum og ber að birta opinberlega skrá um aukastörf dómara og það starf sem dómari gegndi áður en hann tók við embætti. Nefndin setur í samráði við dómstólasýsluna reglur um hvaða upplýsingar um aukastörf dómara skuli birtar og með hvaða hætti, sbr. reglur um birtingu á skrá um aukastörf dómara og þau störf sem dómari gegndi áður en hann tók við embætti. Sjá hér: Aukastörf dómara.
Ragnheiður Thorlacius, fyrrverandi héraðsdómari, formaður. Skipuð af dómsmálaráðherra. Varamaður hennar er Guðmundur Sigurðsson, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík.
Sigrún Guðmundsdóttir, fyrrverandi héraðsdómari. Tilnefnd af Dómarafélagi Íslands frá 1. desember 2023. Varamaður hennar er Sigríður Ingvarsdóttir, fyrrverandi héraðsdómari.
Sindri M. Stephensen, dósent við Háskólann í Reykjavík. Tilnefndur af lagadeildum háskólanna. Varamaður hans er Júlí Ósk Antonsdóttir, aðjúnkt við lagadeild Háskólans á Akureyri.
2023
2022
2021
2020
2019
2018
Lesa meira:
Lög um dómstóla. Nefndin starfar á grundvelli 9. og 10. greina laganna.
Reglur um birtingu álita. Reglur sem eru settar í samráði við dómstólasýsluna.