Fara beint í efnið

Skráningareglur ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. ágúst 2024 -

Gildir frá: 01.06.2024. Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.

    Tækniupplýsingaskráningar

    Eftirtaldir aðilar geta gert samning um að vinna í umboði Samgöngustofu hvað varðar öflun upplýsinga af ökutæki, staðfestingu á upplýsingum um ökutæki og um breytingar á skráningu ökutækja í tengslum við opinberar skoðanir þeirra (kallaðir þjónustuaðilar):

    • Faggiltar skoðunarstofur ökutækja

    • Umboð (ökutækja) með fulltrúa B (og C)

    Upplýsingar á skráningarskírteini

    Skráningarskírteini ökutækja inniheldur mikið af gagnlegum upplýsingum um ökutækið. Upplýsingarnar eru settar fram með sam-evrópskum hætti þannig að reitir skírteinisins eru samræmdir og merktir.

    Skráningarskírteini

    Reitir A: Skráningarnúmer / fastanúmer

    • A: Skráningarnúmerið er áletrunin á númeraplötum ökutækisins. Áletrunin er mest sex rittákn, blanda af bókstöfum og tölustöfum.

    • Fastanúmer: Öllum ökutækjum er úthlutað fastanúmeri við skráningu og er það yfirleitt sú áletrun sem er á skráningarmerkinu (reiturinn við hliðina á A-reit). Hafi ökutækið einkamerki eða númer af eldri gerð er áletrunin á skráningarmerkinu önnur.

    • Skráningarflokkur: Gerð skráningarmerkis sem er á ökutækinu, s.s. almenn merki, VSK-merki eða einkamerki.

    Reitir B: Dagsetning fyrstu skráningar ökutækis / nýskráning

    • B: Dagsetning fyrstu skráningar er sá dagur sem ökutækið var fyrst tekið í notkun. Ökutækið gæti fyrst hafa verið skráð erlendis (flutt inn notað) eða hérlendis (flutt inn nýtt) og sést það í reitnum innflutningsástand.

    • Nýskráningardagur: Reiturinn fyrir neðan B-reit er nýskráningardagur, það er dagurinn sem ökutækið var fyrst skráð á Íslandi.

    • Framleiðsluár: Þess er yfirleitt ekki getið nema á eldri ökutækjum og skráningu þess er að mestu hætt. Þetta er það ár sem framleiðandi gefur upp að smíði ökutækisins hafi lokið.

    • Árgerð: Hennar er yfirleitt ekki getið nema á eldri ökutækjum og skráningu hennar var almennt hætt um síðustu aldamót. Árgerð er óljóst hugtak og enginn sameiginlegur skilningur á því. Það getur þó skipt máli í tilviki fornbifreiða vegna gjalda.

    Reitir C: Eigandi / umráðandi

    • C.1.1+C.1.3: Nafn og heimilsfang handhafa skráningarskírteinisins (þarna kemur umráðandi ef hann er skráður, annars eigandi). Aðili er móttakandi bréfa og upplýsinga um ökutækið frá hinu opinbera og ber ábyrgð á því samkvæmt umferðarlögum.

    • C.2.1: Nafn eiganda og reiturinn við hliðina inniheldur kennitölu hans.

    • C.3.1: Nafn umráðanda og reiturinn við hliðina inniheldur kennitölu hans.

    • Eigendaskráning: Reitur þarna hjá C-reitunum fyrir skráningardag núverandi eiganda.

    Reitir D: Tegund og útfærsla ökutækis

    • D.1: Tegund ökutækis, yfirleitt nafn framleiðands (til dæmis Renault).

    • D.2: Gerð, afbrigði og útfærsla ökutækis, sem eru nákvæmari upplýsingar um þessa ákveðnu gerð ökutækisins (geta verið orð og/eða kóðar).

    • D.3: Undirtegund ökutækisins (til dæmis Class C).

    Reitur E: Verksmiðjunúmer ökutækis (VIN)

    • E: Verksmiðjunúmer, eða VIN, er einnig þekkt sem grindarnúmer. Þetta er einkvæmt númer sem auðkennir ökutækið á líftíma þess. Það er vel sýnilegt og þarf reglulega að yfirfara það, t.d. við reglubundna skoðun. Óheimilt er að eiga við, hylja, skemma, færa til eða fjarlægja verksmiðjunúmer nema með samþykki Samgöngustofu.

    Reitir F: Leyfð heildarþyngd ökutækis

    • F.1: Leyfð heildarþyngd ökutækisins eins og hún er gefin upp af framleiðanda. Þetta er tæknilega leyfð hámarksþyngd, þ.e. hámarksþyngd sem ökutækið getur borið í akstri, með farmi og farþegum.

    • F.3 (athugasemd): Leyfð þyngd vagnlestar, þ.e. leyfileg hámarksþyngd bifreiðar og eftirvagnsins sem hann dregur. Þetta gildi birtist í reitnum "Athugasemdir" þegar það er skráð (ekki sérstakur reitur).

    • Burðargeta: Útreiknaður mismunur leyfðrar heildarþyngdar og eiginþyngdar (í kg), uppgefið til þæginda.

    Reitur G: Eigin þyngd ökutækis

    • G: Eigin þyngd ökutækis er þyngd ökutækis sem tilbúið er til notkunar, að meðtöldum búnaði sem því fylgir að jafnaði, eldsneyti, smurolíu, kælivatni, varahjóli, verkfærum og þess háttar. Eigin þyngd inniheldur almennt ekki ökumann.

    Reitur H: Gildistími skráningarskírteinis

    • H: Venjulega er þessi reitur tómur þar sem gildistími skráningarskírteinisins er ótakmarkaður. Hins vegar geta verið undantekningar og þá er dagsetning í þessum reit (þegar um tímabundna skráningu er að ræða) og verður notkun ökutækisins óheimil eftir það.

    Reitur I: Útgáfudagur skráningarskírteinisins

    • I: Þetta er sá dagur sem skírteinið var prentað út (eða gefið út á rafrænu formi).

    Reitur J: Ökutækisflokkur

    • J: Ökutækisflokkur er Evrópuflokkun ökutækisins. Ökutæki flokkast í M (bifreiðir til fólksflutninga), N (bifreiðir til vöruflutninga), O (eftirvagna bifreiða), L (tví/þrí/fjórhjól), T (dráttarvélar) og R (eftirvagna dráttarvéla). Einnig er flokkurinn TO (torfærutæki), en hann er séríslenskur.

    • Notkunarflokkur: Reitur fyrir neðan, tilgreinir þann staðlaða notkunarflokk sem nauðsynlegt er að skrá af ýmsum ástæðum, t.d. varðandi skoðunarreglu, heimildir í tengslum við gerð og búnað, eða af skattalegum ástæðum.

    Reitur K: Gerðarviðurkenning

    • K: Gerðarviðurkenningarnúmer sem segir til um þá viðurkenningu sem ökutækið er skráð á. Þetta er eingöngu mikilvægt fyrir skráningaraðila í tengslum við fyrstu skráningu í sérhverju landi.

    Reitir N: Leyfðar ástþyngdir ökutækisins

    • N.1, N.2, N.3 og N.4: Leyfð ásþyngd á fyrstu fjóra ásana (í kg), uppgefið af framleiðanda. Þessi gildi eru aðallega notuð á atvinnubílstjórum í tengslum við hleðslu bílanna.

    Reitir O: Dráttargeta vélknúinna ökutækja

    • O.1: Þyngd hemlaðs eftirvagns (í kg) sem gefur upp mestu þyngd eftirvagns (sem hefur sína eigin hemla) sem ökutækið má draga. Horft er til raunþyngdar eftirvagnsins sem dreginn er (þyngd hans með hlassi) í þessu tilviki, en minnt er á að hafa verður ökuréttindi til að draga eftirvagn og miðast þau réttindi alltaf við skráða leyfða heildarþyngd eftirvagnsins.

    • O.2 Þyngd óhemlaðs eftirvagns (í kg) sem gefur upp mestu þyngd eftirvagns (sem hefur ekki neina hemla) sem ökutækið má draga. Að öðru leyti gildir það sama og um O.1.

    Reitir P: Hreyfill og afköst ökutækisins

    • P.1: Slagrými (í rúmsentimetrum) brunahreyfils. Hér er ekkert gildi annars, t.d. þegar rafmótor er í ökutæki.

    • P.2: Afl hreyfils eða svokölluð hámarksafköst (í kW). Ef ökutækið hefur fleiri en einn hreyfil eru afköstin annað hvort öll lögð saman (og er þá bara ein tala) eða samanlögð afköst hverrar hreyfilgerðar um sig eru tilgreind (með + á milli) - frá 01.01.2025.

    • P.3: Tegund(ir) orkugjafa sem notaðir eru til að knýja ökutækið (sem þarf að fylla reglulega á). Þegar orkugjafar eru fleiri en einn, t.d. bensín og rafhleðsla (tengdur í rafmagn), er þeirra getið með skástriki á milli.

    Reitur Q: Aflþyngdarhlutfall í kW/kg

    • Q: Afl/þyngdarhlutfall bifhjóls (aðeins skráð fyrir bifhjól, þ.e. tví/þrí/fjórhjól).

    Reitur R: Litur ökutækisins

    • R: Litur ökutækisins í einfaldri mynd, þ.e. ekki nákvæm útfærsla lakks eða neitt slíkt. Ef ökutæki er tvílitt er reynt að skrá þá samsetningu.

    Reitir S: Fjöldi sitjandi og standandi í ökutækinu á ferð

    • S.1: Sætafjöldi, að meðtöldu sæti fyrir ökumann og aðra í áhöfn, og fyrir hjólastóla (nema í strætó ef hjólastóll tekur pláss frá standandi farþegum). Þessi tala sýnir þann fjölda sem mest getur verið í ökutækinu í akstri (önnur sæti sem kunna að vera í ökutækinu er þá eingöngu heimilt að nota þegar það er kyrrstætt, t.d. eins og getur verið að finna í húsbíl).

    • S.2: Stæðafjöldi, þetta er hámarksfjöldi standandi farþega í hópbifreiðum (eingöngu) sem heimilt er að hafa í þeim í akstri (t.d. strætó).

    Reitir U: Hávaðamengun ökutækis

    • U.1 (athugasemd): Hávaðamæling í kyrrstöðu (í dB(A)). Þetta gildi birtist í reitnum "Athugasemdir" þegar það er skráð (ekki sérstakur reitur) - frá 01.01.2025.

    • U.2 (athugasemd): Snúningshraði brunahreyfils (í snúningum á mínútu) þegar hávaðinn í reit U.1 mældist. Þetta gildi birtist í reitnum "Athugasemdir" þegar það er skráð (ekki sérstakur reitur) - frá 01.01.2025.

    Reitir V: Losunarmengun ökutækis

    • V.7: Útblástur CO2 (í g/km) sýnir magn CO2 sem ökutækið losar á hverjum kílómetra (í grömmum). Því hærri sem talan er, því meira mengar ökutækið og því hærri verða oft innflutningsgjöld. Fleiri gildi um losun kunna að birtast í athugasemdareit (séu þau skráð).

    • V.9 (athugasemd): Mengunarstaðall ökutækisins eða umhverfisflokkur. Þetta er hinn svokallaði Euro staðall sem byrjaði á tölunni 1 þannig að hærra gildi þýðir umhverfisvænna ökutæki. Þetta gildi birtist í reitnum "Athugasemdir" þegar það er skráð (ekki sérstakur reitur) - frá 01.01.2025.

    Aðrir reitir

    • Lengd og breidd: Reitir fyrir lengd og breidd ökutækisins (í mm).