Fara beint í efnið

Skráningareglur ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. ágúst 2024 -

Gildir frá: 01.06.2024. Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.

    Skráningarmerki og plötugeymsla

    Eftirtaldir aðilar geta gert samning um að vinna í umboði Samgöngustofu hvað varðar geymslu og afhendingu skráningarmerkja (kallaðir þjónustuaðilar):

    • Faggiltar skoðunarstofur ökutækja

    • Umboð (ökutækja) með fulltrúa A

    Efni kaflans

    Efni þessa kafla á við um núgildandi skráningarmerki (ekki fornmerki).

    Stærðir skráningarmerkja

    Stærðir skráningarmerkja eru fjórar talsins og fær hver sinn bókstaf (líka talað um gerðir skráningarmerkja).

    • Stærð A er af stærðinni 520 x 110 mm, hæð stafa 70 mm og breidd stafleggja 11 mm.

    • Stærð B er af stærðinni 280 x 200 mm, hæð stafa 70 mm og breidd stafleggja 11 mm.

    • Stærð C er af stærðinni 240 x 130 mm, hæð stafa 49 mm og breidd stafleggja 7 mm.

    • Stærð D er af stærðinni 305 x 155 mm, hæð stafa 61 mm og breidd stafleggja 9 mm.

    Notkun stærðanna á ökutækjum

    Nota skal stærðir skráningarmerkja á ökutækjum sem hér segir:

    • Bifreið (A, B, D): Skal merkt með viðeigandi tegund skráningarmerkja að framan og aftan af stærð A. Nota má skráningarmerki af stærð B, henti ekki merki af stærð A og merki af stærð D ef merkjum af stærð A og B verður ekki með góðu móti komið fyrir.

    • Eftirvagn (A, B, D): Skal merkt að aftan, sömu reglur um val merkja gilda og fyrir bifreið.

    • Bifhjól og létt bifhjól (C): Skal merkt að aftan.

    • Dráttarvél (C, A): Skal merkt að aftan með skráningarmerki af stærð C en að framan ef merkinu verður ekki með góðu móti komið fyrir að aftan. Nota má merki af stærð A ef dráttarvél er hönnuð þannig að merki af stærð C verði ekki með góðu móti komið fyrir.

    • Torfærutæki (C): Skal merkt að aftan með skráningarmerki af stærð C. Merkið má vera að framan eða á hlið ef því verður ekki með góðu móti komið fyrir að aftan.

    Efnisgerð og uppröðun svæða og stafa

    Smíðaefni

    Skráningarmerki skal vera úr a.m.k. 1,0 mm þykku áli (reynslumerki mega þó vera á segulmottum).

    Litur

    Grunnur skráningarmerkis skal vera hvítur með endurskini og stöfunum ÍS í vatnsmerki. Rammi (rönd á brúnum), stafir og bandstrik skulu vera blá. Nokkur frávik eru þó frá þessari litasamsetningu, sjá um tegundir skráningarmerkja.

    Áletrun

    Skráningarmerki af stærð A skulu hafa áletrun í einni röð. Skráningarmerki af stærðum B, C og D skulu hafa áletrun í tveimur röðum. Í efri röð skulu vera tveir bókstafir og bandstrik og eftir atvikum, bókstafur og tölustafir eða eingöngu tölustafir í þeirri neðri (annað gildir þó um áletrun einkamerkis).

    Svæði

    Á skráningarmerkjum geta verið eitt eða tvö svæði sem ætluð eru undir þjóðarmerki, fyrir skoðunarmiða, upphleyptan tígul eða ekki neitt. Þau eru kölluð svæði I og svæði II til aðgreiningar í kaflanum um tegundir skráningarmerkja:

    • Svæði I: Á merkjum af stærð A og B er átt við svæðið fyrir framan áletrunina á merkinu (í efri línu á stærð B). Á merki af stærð D er átt við svæðið vinstra megin í hæðarmiðju (og líka á einkamerki af stærð B). Á þessu svæði getur verið áprentað þjóðarmerki, tígull, upphleyptur flötur eða ekkert. Þetta svæði er ekki á merkjum af stærð C.

    • Svæði II: Á merkjum af stærðum A og B er átt við svæðið á milli fyrstu tveggja stafanna og síðari þriggja (fremst í neðri línu merkis af gerð B). Á merki af stærð C er átt við svæðið vinstra megin í hæðarmiðju og á merki af stærð D átt við svæðið hægra megin í hæðarmiðju. Á þessu svæði getur verið upphleyptur flötur eða ekkert.

    Tegundir skráningarmerkja (litir, áletrun, fletir)

    Tegundir skráningarmerkja geta verið tengdar notkun ökutækisins eða ökutækisflokki. Mismunandi samsetning á lit, áletrun og upplýsingum á svæðum mynda tegundir merkja.

    Almenn merki

    Öll skráningarskyld ökutæki skulu bera almenn merki nema annað sé ákveðið.

    • Gerðir: Gerðir A, B, C og D.

    • Litur: Hvítur grunnur. Blár í stöfum, bandstriki og ramma.

    • Svæði I: Áprentað þjóðarmerki.

    • Svæði II: Hvítur upphleyptur flötur fyrir skoðunarmiða.

    • Áletrun: Fyrstu tveir (og í seinni tíð fyrstu þrír) eru bókstafir og afgangurinn tölustafir.

    Almenn merki

    VSK merki

    Fyrir bifreiðir sem skráðar eru notkunarflokkinn "VSK-ökutæki".

    • Gerðir: Stærðir A, B og D.

    • Litur: Hvítur grunnur. Rauður í stöfum, bandstriki og ramma.

    • Svæði I: Rauður upphleyptur tígullaga flötur.

    • Svæði II: Hvítur upphleyptur flötur fyrir skoðunarmiða.

    • Áletrun: Sömu reglur gilda og um almenn merki.

    VSK merki

    Einkamerki

    Á bifreiðum og bifhjólum mega vera einkamerki (þó ekki á þeim sem skulu bera aðrar tegundir skráningarmerkja, s.s. VSK-merki, utanvegamerki, olíumerki eða undanþágumerki).

    • Gerðir: Stærðir A, B, C og D.

    • Litur: Hvítur grunnur. Blár í stöfum og ramma. 

    • Svæði I: Hvítur upphleyptur flötur fyrir skoðunarmiða (hefur ekki þjóðarmerki).

    • Svæði II: Ekkert slíkt svæði.

    • Áletrun einkamerkis skal vera 2–6 íslenskir bókstafir eða tölustafir að vali eiganda (umráðanda) ökutækisins. Á einkamerki má þó hvorki vera áletrun sem í eru tveir bókstafir og þrír tölustafir, eða þrír bókstafir og tveir tölustafir, né sama áletrun og er á skráningarmerki af eldri gerð í notkun. Áletrun má ekki vera svo lík áletrun annars skráningarmerkis, sem þegar er í notkun að valdið geti ruglingi. Hún má hvorki brjóta í bága við íslenskt málfar né vera líkleg til að valda hneykslun. 

    • Áletrun einkamerkis af stærðum B, C og D (tveggjalínu) má hafa fjölda stafa eins og fyrir verður komið með góðu móti í hvorri línu (gætu verið fleiri en þrír þegar áletrun samanstendur af einum eða fleiri mjóum staf). Ekki má nota minni stafastærð en áskilin er fyrir viðkomandi stærð merkis.

    Einkamerki

    Sendiráðsmerki

    Fyrir ökutæki sem skráð eru notkunarflokkinn "Sendiráðsökutæki".

    • Gerðir: Stærðir A, B, C og D.

    • Litur: Grænn grunnur. Hvítur í stöfum, bandstriki og ramma.

    • Svæði I: Ónotað.

    • Svæði II: Grænn upphleyptur flötur fyrir skoðunarmiða.

    • Áletrun: Fyrstu tveir stafirnir eru CD, svo kemur einn bókstafur og loks tveir tölustafir.

    Sendiráðsmerki

    Olíumerki

    Fyrir bifreiðir sem skráðar eru í notkunarflokkinn "Sérstök not".

    • Gerðir: Stærðir A, B og D.

    • Litur: Dökkgulur grunnur. Svartur í stöfum, bandstriki og ramma.

    • Svæði I: Svartur upphleyptur tígullaga flötur.

    • Svæði II: Dökkgulur upphleyptur flötur fyrir skoðunarmiða.

    • Áletrun: Sömu reglur gilda og um almenn merki.

    Olíumerki

    Undanþágumerki

    Fyrir bifreiðir, dráttarvélar og eftirvagna sem skráð eru í notkunarflokkinn "Undanþáguökutæki".

    • Gerðir: Stærðir A, B og D.

    • Litur: Hvítur grunnur. Grænn í stöfum, bandstriki og ramma.

    • Svæði I: Áprentað þjóðarmerki.

    • Svæði II: Hvítur upphleyptur flötur fyrir skoðunarmiða.

    • Áletrun: Sömu reglur gilda og um almenn merki.

    Undanþágumerki

    Utanvegamerki

    Fyrir bifreiðir og eftirvagna sem skráð eru í notkunarflokkana "Beltabifreið", "Námuökutæki" og "Flugvallarökutæki", og fyrir dráttarvélar sem aðallega er notaðar utan opinberra vega (og alltaf ef þær eru af yfirstærð).

    • Gerðir: Stærðir A, B og D.

    • Litur: Hvítur grunnur. Grænn í stöfum, bandstriki og ramma.

    • Svæði I: Grænn upphleyptur tígullaga flötur.

    • Svæði II: Hvítur upphleyptur flötur fyrir skoðunarmiða.

    • Áletrun: Sömu reglur gilda og um almenn merki.

    Utanvegamerki

    Torfærumerki

    Fyrir ökutæki í ökutækisflokknum "Torfærutæki".

    • Gerðir: Stærð C.

    • Litur: Rauður grunnur. Hvítur í stöfum, bandstriki og ramma.

    • Svæði I: Ekkert slíkt svæði.

    • Svæði II: Ónotaður.

    • Áletrun: Sömu reglur gilda og um almenn merki.

    Torfærumerki

    Léttbifhjólamerki

    Fyrir ökutæki í ökutækisflokknum "Létt bifhjól".

    • Gerðir: Stærð C.

    • Litur: Blár grunnur. Hvítur í stöfum og ramma.

    • Svæði I: Ekkert slíkt svæði.

    • Svæði II: Blár upphleyptur flötur fyrir skoðunarmiða.

    • Áletrun: Sömu reglur gilda og um almenn merki.

    lett-bifhjol

    Reynslumerki

    Bílaumboðum er heimilt að nota reynslumerki til að flytja óskráð ökutæki milli staða í tengslum við skráningu, til reynsluaksturs eða við kynningarstarfsemi.

    • Gerðir: Stærðir A, B, C og D.

    • Litur: Rauður grunnur. Svartur í stöfum, bandstriki og ramma.

    • Svæði I: Ónotað.

    • Svæði II: Rauður upphleyptur flötur fyrir gildismiða sem sýnir leyfilegan notkunartíma reynslumerkis. Reynslumerki geta þó verið á segulmottum án upplyftra flata.

    • Áletrun: Fyrstu tveir stafirnir eru RN og svo þrír tölustafir.

    Reynslumerki

    Aukamerki

    Dragi bifreið ökutæki sem ekki er skráningarskylt og skyggir á skráningarmerki bifreiðarinnar (t.d. óskráða kerru), skal merkja það að aftan með aukamerki. Það skal vera með sömu áletrun og sama lit og skráningarmerki bifreiðarinnar. Sama á við ef búnaður aftan á skráningarskyldu ökutæki sem ekið er skyggir á skráningarmerki þess. Hér er átt við búnað eða aðstæður sem koma tímabundið upp og skyggja (en ekki hylja) skráningarmerki ökutækisins (t.d. flutningur reiðhjóla á reiðhjólagrind sem fest er á kúlutengi).

    • Gerðir: Stærðir A, B eða D.

    • Litur: Litir á grunni merkisins og stöfum skulu vera þeir sömu og á skráningarmerki bifreiðarinnar. Ramminn skal ekki vera upplyftur og hafa sama lit og grunnur merkisins.

    • Svæði I: Ónotað (og ekki upplyftur flötur).

    • Svæði II: Ónotað (og ekki upplyftur flötur).

    • Áletrun: Sú sama og á skráningarmerki bifreiðarrinnar.

    Aukamerki

    Tollamerki

    Fyrir ökutæki sem hafa sérstaka akstursheimild Skattsins (tollasviðs).

    • Gerðir: Stærðir A og C.

    • Litur: Svartur grunnur. Stafir hvítir. Á hvorri hlið skráningarmerkis skal vera lóðrétt rauð rönd.

    • Svæði I: Ekkert slíkt svæði.

    • Svæði II: Ekkert slíkt svæði.

    • Áletrun: Fjórir tölustafir (þessir hvítu). Vinstra megin skal skrá með hvítum tölustöfum röð þess mánaðar og hægra megin tvo síðustu tölustafi þess árs þegar gildistíma skráningar lýkur. 

    Tollamerki