Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Skráningareglur ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. október 2025 -

Gildir frá: 01.06.2024. Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.

    Afskráningar og endurskráningar

    Eftirtaldir aðilar geta gert samning um að vinna í umboði Samgöngustofu hvað varðar móttöku umsókna um afskráningu og endurskráningu, og um tilkynningu til Samgöngustofu um endurskráningu (kallaðir þjónustuaðilar):

    • Faggiltar skoðunarstofur ökutækja

    • Viðurkenndir úrvinnsluaðilar ökutækja

    Efni kaflans

    Endurskráning ökutækis

    Heimilt er að endurskrá ökutæki, sem áður var skráð hérlendis, eftir að það var afskráð úr landi (eða af öðrum sérstökum ástæðum). Óheimilt er að endurskrá ökutæki sem hefur verið afskráð vegna úrvinnslu (fargað).

    Umsókn um endurskráningu berst með skeytasendingu frá skoðunarstöð til Samgöngustofu.

    Móttaka stafrænna umsókna

    Ekki er boðið upp á umsókn um endurskráningu ökutækis á stafrænu formi.

    Móttaka umsókna á pappír

    Ökutæki þarf áður að hafa verið á skrá hérlendis og þar með hafa fengið úthlutað fastanúmeri. Það má ekki vera með breytingalás sem læsir nýskráningu.

    Við móttöku umsóknar um endurskráningu (US.110) er gengið úr skugga um að hún sé í frumriti, hún sé rétt útfyllt og öll skilyrði skráningar uppfyllt. Ef umsókn er ekki skráningarhæf (t.d. rangar upplýsingar, óljósar eða yfirstrikanir) skal vísa henni frá og leiðbeina viðskiptavini um það sem lagfæra þarf.

    • Eigandi og undirritun: Skráður eigand ökutækisins skal undirrita eða undirritað samkvæmt umboði (sjá neðar). Ef ökutæki er endurskráð á annan en skráðan eiganda verður að framvísa fullgildri eigendaskiptatilkynningu samhliða.

    • Dagsetning endurskráningar: Endurskráningardagsetning skal vera sú dagsetning þegar skoðunarstofa tilkynnir um endurskráningu. Almennt er óheimilt að endurskrá ökutæki aftur í tímann.

    • Tryggingafélag: Tilgreina skal tryggingafélag ökutækis, nema það sé eftirvagn, og skráist tryggingafélagið í ökutækjaskrá við endurskráningu.

    Í umboði skal koma fram efni umboðs, fastanúmer ökutækis, nafn og kennitala umboðsmanns, undirritun umbjóðanda, tveir vitundarvottar, staður og dagsetning. Umbjóðandi, umboðsmaður og vitundarvottar skulu allir að vera orðnir 18 ára.

    Uppfylli umsókn framangreind formskilyrði er hún móttekin, greiðslustimpluð af þjónustuaðila og tilkynnt um endurskráningu að öðrum skilyrðum uppfylltum (sjá neðar). Fyrir rekjanleika skráir Samgöngustofa þjónustuaðila og móttökudag umsókna í ökutækjaskrá.

    Tilkynning til Samgöngustofu um endurskráningu

    Áður en tilkynnt er um endurskráningu til Samgöngustofu þarf þjónustuaðili til viðbótar að ganga úr skugga um að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:

    • Skráningarskoðun: Skal standast skráningarskoðun á skoðunarstofu. Nánari reglur er að finna í Skoðunarhandbók ökutækja (verklagsbók fyrir skráningarskoðanir).

    • Skráningarmerki: Þau verða að hafa verið skráð móttekin hjá þjónustuaðila (mega vera móttekin á einhverjum öðrum geymslustað hans). Við endurskráningu afhendast skráningarmerkin á ökutækið. Réttur skoðunarmiði skal settur á miðað við skoðunarreglu ökutækis.

    • Nýr eigandi skráður: Hafi verið skilað inn eigendaskiptatilkynningu þarf Samgöngustofa að hafa klárað skráningu eigendaskipta í ökutækjaskrá.

    • Tollafgreiðsla: Ekki þarf að ganga sérstaklega úr skugga um tollafgreiðslu við endurskráningu enda sé tryggt að ökutæki hafi áður verið nýskráð og afskráð hér á landi.

    • Skattflokkur 70-79: Ef ökutæki er skráð í skattflokk á bilinu 70 - 79 er óheimilt að endurskrá það og verður Skatturinn (tollasvið) að aflétta honum áður en heimilt er að endurskrá ökutæki (sjá breytingalása).

    • Breytingalás: Ef ökutæki er skráð með breytingalás sem læsir nýskráningu er óheimilt að endurskrá það. Lásar sem læsa nýskráningu eru Nýskráningarlás (3), Heildarlás (6) og Skráning læst v/ vörugjalds (7) Afskráningarlás (18).

    • Ökutæki með ökumæli (þungaskattur): Ef ökutæki er með ökumæli skal framkvæma álestur og greiða áfallinn þungaskatt við endurskráningu.

    • Tjónabifreið: Óheimilt er að endurskrá ökutæki sem er skráð tjónaökutæki. Áður en endurskráning er heimil verður að ógilda tjónaskráninguna.

    Að uppfylltum framangreindum skilyrðum öllum er þjónustuaðila heimilt að tilkynna Samgöngustofu um endurskráningu.

    Þjónustuaðili getur óskað eftir leiðréttingu á framkvæmdri endurskráningu en slík beiðni verður að berast Samgöngustofu innan viku frá skráningardegi. Samgöngustofu er heimilt að fella niður skráningu ef beiðni berst um það samdægurs á afgreiðslutíma Samgöngustofu. Endurskráningargjald er ekki endurgreitt við niðurfellingu skráningar.

    Sértilvik endurskráninga

    Upp geta komið tilvik um mjög gömul ökutæki sem hafa verið í umferð og annað hvort fallið af skrá eða hafa hugsanlega aldrei verið á skrá. Þessum tilvikum ber að vísa til tæknideildar til rannsóknar.

    Gjaldtaka

    • Gjald Samgöngustofu fyrir endurskráningu er 3.013 krónur og einnig ber að innheimta umferðaröryggisgjald 500 krónur.

    • Gjald Samgöngustofu fyrir leiðréttingu á endurskráningu er 1.103 krónur.

    Tölvuvinnsla

    Engin tölvuvinnsla er hjá þjónustuaðila (útfylltum pappír er komið til Samgöngustofu).