Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Skráningareglur ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. október 2025 -

Gildir frá: 01.06.2024. Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.

    Afskráningar og endurskráningar

    Eftirtaldir aðilar geta gert samning um að vinna í umboði Samgöngustofu hvað varðar móttöku umsókna um afskráningu og endurskráningu, og um tilkynningu til Samgöngustofu um endurskráningu (kallaðir þjónustuaðilar):

    • Faggiltar skoðunarstofur ökutækja

    • Viðurkenndir úrvinnsluaðilar ökutækja

    Efni kaflans

    Afskráning ökutækis í öðrum tilvikum

    Heimilt er að afskrá ökutæki þegar það er flutt úr landi. Að auki er heimilt að afskrá ökutæki af öðrum ástæðum í sérstökum tilvikum.

    Eigendur geta tilkynnt um afskráningu ökutækis sem flutt er úr landi eða lagt inn umsókn um afskráningu ökutækis af öðrum ástæðum. Tilkynningunni og umsóknum ber að skila með stafrænum hætti á heimasíðu Samgöngustofu. Einnig er í boði að skila á eyðublaði og framvísa því hjá þjónustuaðila.

    Móttaka stafrænna tilkynninga og umsókna

    Samgöngustofa hefur það að markmiði að gera þjónustu sína stafræna og hvetur því til þess að viðskiptavinum sé leiðbeint um þann kost að ganga frá tilkynningu eða umsókn um afskráningu þannig.

    Móttaka umsókna á pappír

    Ökutæki þarf að vera á skrá (ekki á forskrá og ekki afskráð) til að hægt sé að tilkynna eða sækja um afskráningu. Ökutæki verður afskráð þótt á því hvíli opinber gjöld enda falla gjöld ekki niður við afskráningu.

    Við móttöku tilkynningar eða umsóknar um afskráningu (US.109) er gengið úr skugga um að umsókn sé í frumriti, hún sé rétt útfyllt og öll skilyrði skráningar uppfyllt. Ef umsókn er ekki skráningarhæf (t.d. rangar upplýsingar, óljósar eða yfirstrikanir) skal vísa henni frá og leiðbeina viðskiptavini um það sem lagfæra þarf.

    • Fastanúmer (verksmiðjunúmer) og tegund: Tilgreina skal fastanúmer ökutækis (má líka tilgreina verksmiðjunúmer). Upplýsingar um tegund má vanta en ef tegund er tilgreind verður hún að passa við tilgreint fastanúmer.

    • Eigandi: Nafn og kennitala eiganda verður að passa saman. Ef það eru fleiri eigendur að ökutæki verða þeir allir að koma fram.

    • Dagsetning afskráningar: Skal vera móttökudagur umsóknar um afskráningu hjá þjónustuaðila. Þó má miða við skráningardag í öðru landi ef með fylgir staðfesting frá erlendum skráningaraðila á því.

    • Álestur ökumælis (þungaskattur): Eiganda ökutækis er skylt að láta framkvæma álestur, sé slíkur búnaður fyrir hendi í ökutækinu, áður en afskráning á sér stað. Fylla skal út eyðublað (RSK 10.33) og senda til RSK. Ef ekki er lesið af ökumæli við afskráningu áætlar RSK þungaskatt við næstu álagningu.

    • Álestur akstursmælis: Skal skráður á umsókn fyrir hreinorkubifreiðir og tengiltvinnbifreiðir.

    • Skráningarmerki: Merkt er við afdrif skráningarmerkja; (a) Afhent við afskráningu, og þá er þeim skilað inn og skal þeim þá fargað. (b) Þegar skráð í geymslu, og þá fargar geymsluaðili þeim við reglubundna hreinsun. (c) Týnd, þá um leið lýsir eigandi því yfir að merkin hafi glatast og að hann muni skila þeim til Samgöngustofu tafarlaust ef þau finnast. Sú ástæða á einnig við hafi þau verið flutt með ökutækinu úr landi.

    Á tilkynningu eða umsókn um afskráningu skal alltaf tilgreina ástæðu afskráningar. Ástæða afskráningar getur verið ein af eftirfarandi ástæðum:

    • Afskráð úr landi: Eigandi getur tilkynnt um afskráningu ökutækis sem flutt er úr landi ef hann framvísar staðfestingu á flutningi úr landi frá flutningsaðila eða tollstjóra. Samgöngustofa hefur heimild til að afskrá ökutæki úr landi án samþykkis eiganda ef flutningur úr landi er staðfestur af þar til bærum aðila.

    • Afskráð týnt: Eigandi getur sótt um að afskrá ökutæki sem er týnt, sé það staðfest af þar til bærum aðila. Athuga að óheimilt er að hafa eigendaskipti að ökutæki sem afskráð hefur verið týnt, nema farið sé með það í endurskráningu fyrst. Þó er tryggingafélagi heimilt að hafa eigendaskipti að ökutæki yfir á sjálft sig sé verið að greiða ökutækið út eftir þjófnað.

    • Afskráð ónýtt: Eigandi getur sótt um að afskrá ökutæki sem var skráð úr umferð fyrir 1. júlí 2003 gegn yfirlýsingu um að ökutækinu hafi verið fargað en ekki unnt að fá útgefið skilavottorð.

    • Afskráð fornökutæki: Eigendi getur sótt um að afskrá ökutæki sem náð hefur 25 ára aldri, miðað við árgerð eða fyrstu skráningu ef því er lýst yfir að ökutækið verði varðveitt sem safngripur (sjá yfirlýsingu á afskráningarbeiðni).

    Í umboði skal koma fram efni umboðs, fastanúmer ökutækis, nafn og kennitala umboðsmanns, undirritun umbjóðanda, tveir vitundarvottar, staður og dagsetning. Umbjóðandi, umboðsmaður og vitundarvottar skulu allir að vera orðnir 18 ára.

    Skráningarhæfar tilkynningar og umsóknir eru mótteknar, greiðslustimplaðar af þjónustuaðila og sendar daglega til Samgöngustofu. Réttaráhrif afskráninga miðast við skráningardag þ.e. afskráning tekur gildi þegar hún er skráð hjá Samgöngustofu. Mótteknar tilkynningar og umsóknir sem berast Samgöngustofu til skráningar eru færðar í tímaröð. Fyrir rekjanleika skráir Samgöngustofa þjónustuaðila og móttökudag umsókna (eftir greiðslustimpli) í ökutækjaskrá.

    Sértilfelli afskráninga

    Eftirfarandi sértilvikum afskráninga er vísað til Samgöngustofu til afgreiðslu:

    • Afskráning á forskráðu ökutæki: Afgreitt sem niðurfelling forskráningar að skilyrðum uppfylltum.

    • Afskráning Samgöngustofu án samþykkis eiganda: Samgöngustofu er heimilt að afskrá ökutæki án samþykkis eiganda að skilyrðum uppfylltum.

    • Leiðrétting á afskráningu: Samgöngustofu er heimilt að breyta ástæðu afskráningar í úrvinnslu ef framvísað er skilavottorði.

    Gjaldtaka

    • Samgöngustofa tekur ekki gjald fyrir tilkynningu eða umsókn um afskráningu.

    • Gjald Samgöngustofu fyrir afskráningu á forskráðu ökutæki er 3.001 króna.

    Tölvuvinnsla

    Engin tölvuvinnsla er hjá þjónustuaðila (útfylltum pappír er komið til Samgöngustofu).