Próflýsingar bókleg próf
Bókleg próf - einstaklingspróf
Einstaklingspróf kallast þau skriflegu próf sem próftaki tekur einn í prófstofu (sjá hér á eftir) þ.e.a.s. ekki lagt fyrir sem hóppróf.
Slíkt gæti meðal annars hentað fólki með lesblindu, kvíða, ADHD, námserfiðleika eða þeim sem glíma við aðra persónulega erfiðleika.
Próftími í einstaklingsprófi er að jafnaði sá sami og í hópprófi (45 mínútur). Prófdómara er þó heimilt að framlengja próftíma ef nauðsyn krefur.
Lespróf skulu framkvæmd í samræmi við leiðbeiningarnar hér á eftir. Að öðru leyti eru allar venjulegar leiðbeiningar kynntar próftaka áður en próf hefst. Lespróf geta farið fram á öðrum tungumálum en íslensku. Ef annar en prófdómari les próftexta skal hann nota myndalausa útgáfu.
Framkvæmd lesprófs
Prófdómari og próftaki hafa hvor sitt verkefnahefti.
Prófdómari brýnir fyrir próftaka að spyrja um orð eða hugtök sem próftaki áttar sig ekki á eða skilur ekki alveg og að hann geti eingöngu svarað því sem hann er spurður um.
Prófdómari les spurningar upphátt. Síðan les hann á sama hátt valkostina upphátt og próftaki merkir við á svarblaðið.
Mikilvægt er að prófdómari líti ekki á svarblaðið og að hann láti próftaka sjálfan segja sér hvenær hann er tilbúinn í næstu spurningu.
Prófdómara ber að gæta fyllsta hlutleysis í lestraráherslum og látbragði og gefi próftaka enga þá vísbendingu sem eykur þekkingu hans á því efni sem prófað er úr.
Einstaklingspróf skulu framkvæmd í samræmi við leiðbeiningar hér á eftir. Að öðru leyti eru allar venjulegar leiðbeiningar kynntar próftaka áður en próf hefst. Próftaki getur óskað eftir upplestri.
Framkvæmd einstaklingsprófs
Próftaka er boðið að vera einum í prófherbergi. Prófdómari fylgist með eftir þörfum hvers og eins.
Prófdómari brýnir fyrir próftaka að spyrja um orð eða hugtök sem próftaki áttar sig ekki á eða skilur ekki alveg og að prófdómari geti eingöngu svarað því sem hann er spurður um.
Prófdómara ber að gæta fyllsta hlutleysis í lestraráherslum og látbragði og gefi próftaka enga þá vísbendingu sem eykur þekkingu hans á því efni sem prófað er úr.
Í ákveðnum tilfellum getur prófdómari tekið próftaka í munnlegt próf upp úr prófhefti og séð um að krossa við á svarblað í samræmi við svör próftaka.
Túlkapróf skulu framkvæmd í samræmi við leiðbeiningar hér á eftir. Að öðru leyti eru allar venjulegar leiðbeiningar kynntar próftaka áður en próf hefst. Túlkapróf skulu eingöngu vera af prófi á íslensku yfir á tungumál sem ekki er til eintak af í safni prófhefta. Í undantekningartilfellum má túlka frá enskri útgáfu. Prófhefti túlks skal alltaf vera myndalaust eintak af prófhefti próftaka.
Framkvæmd túlkaprófs
Ef um minniháttar tungumálaerfiðleika er að ræða er hægt að framkvæma prófið samkvæmt fyrirmælum fyrir einstaklingspróf.
Ef próftaki þarfnast túlks sér hann sjálfur um að útvega túlk sem próftökumiðstöð samþykkir.
Prófdómari útskýrir prófreglur fyrir túlkinum og sér til þess að prófreglum sé fylgt í samræmi við fyrirmæli að framan.
Prófdómari fylgist með prófi eftir þörfum og gætir þess að túlkun sé eðlileg og að ekki séu gefnar upplýsingar um rétt svör.
Próftaki og túlkur skulu vera aðskildir þannig að þeir sjái ekki hvorn annan.
Spurningar próftaka skal túlkur koma á framfæri við prófdómara sem sér um að svara í gegnum túlkinn.
Miða skal við að túlkur sé löggiltur, ef ekki þá mega ekki vera náin persónuleg tengsl milli túlks og próftaka.
Hljóðrita skal túlkapróf og varðveita eftir nánari reglum.
Farsími/tölva, snjallúr próftaka og túlks og annar búnaður þeirra sem nota má til upptöku, afritunar eða samskipta skal vera í vörslu prófdómara og vera slökkt á.
Bókleg próf- hóppróf
Bókleg próf - Hóppróf
Krossapróf - próftími 45 mínútur
Undirbúningur
Prófdómari setur svarblöð og blýanta á borð í prófstofu og undirbýr stofuna að öðru leyti.
Prófdómari kannar hvaða prófverkefni hann þurfi að nota í samræmi við próftökuskrá.
Miðað er við að ekki fleiri próftakar en 12 þreyti próf í einum hópi.
Rafræn próf
Prófdómari gengur úr skugga um að búið sé að hreinsa út af öllum tölvum
Prófdómari setur tölvu ásamt heyrnartólum á hvert borð
Breyting: 17.05.2024
Prófdómari kannar mætingu og skilríki próftaka.
Prófdómari fullvissar sig um að nauðsynleg viðbótarprófgjöld hafi verið greidd og tekur við ökunámsbókum þegar við á og kannar vottanir ökuskóla og ökukennara um að próftaki hafi uppfyllt tilskilið bóknám.
Próftökum sem ekki hafa tilskilin gögn er vísað frá prófi en þó er reynt að leysa úr málum þeirra eftir því sem unnt er.
Breyting: 17.05.2024
Prófdómari býður próftaka velkomna og þeir beðnir að slökkva á farsímum og koma fyrir við borð prófdómara ásamt töskum bókum, snjallúrum, snjalltækjum og öðrum gögnum. Ef um rafrænt próf er að ræða, safnar prófdómari símum próftaka saman eftir að innskráningu í próf er lokið.
Prófdómari skal, áður en próf hefst, kanna skilríki próftaka.
Prófdómari biður próftaka að merkja svarblöðin með viðeigandi upplýsingum.
Prófdómari útskýrir hvernig það skal gert (minnist á alla reiti sem fylla þarf út)og fylgist með því.
Prófdómari útskýrir uppbyggingu prófsins og kröfur um stigafjölda í samræmi við leiðbeiningar prófverkefna.
Prófdómari hvetur próftaka til að lesa spurningar vel og minnir próftaka á að spyrja sig ef eitthvað í prófinu er óljóst eða óskiljanlegt.
Próftökum er bent á að skila svarblaði, prófverkefni og skriffærum í próflok og boðið að bíða í sætum sínum þar til kallað er á þá þegar niðurstaða liggur fyrir.
Próftakar eru minntir á að svara á svarblað og rita ekkert í prófverkefni.
Próftökum er sagt frá því að þeir muni fá að sjá villur sínar að prófi loknu til að læra af þeim.
Próftakar minntir á að skila öllum gögnum áður en þeir yfirgefa prófstofu.
Prófdómari býðst til þess að svara spurningum um fyrirkomulag prófsins.
Ef um rafræn próf er að ræða eru próftakar minnitr á að lesa vel leiðbeiningar í upphafi og að hægt sé að skoða niðurstöður í lok prófs.
Prófdómari óskar próftökum góðs gengis.
Próftakar eru látnir fá prófverkefni sín til úrlausnar og um leið minntir á að merkja bókstaf prófverkefnis á svarblað.
Prófdómari fylgist með framvindu prófsins og tryggir að próftakar verði fyrir sem minnstu ónæði.
Prófdómari svarar spurningum próftaka er lúta að skilningi próftaka á prófspurningum en gætir þess jafnframt að sýna fyllsta hlutleysi í taláherslum og látbragði og gefi próftaka engar vísbendingar um rétt eða röng svör.
Prófdómari gætir þess að engin önnur gögn séu á borðum.
Prófdómari fer yfir prófgögn próftaka og fullvissar sig um að þau séu í lagi að svo miklu leyti sem hægt er (t.d. rétt gögn um próftaka með umsókn).
Prófdómari gætir þess að öllum gögnum sé skilað í próflok; úrlausn, prófverkefni og skriffærum.
Prófdómari athugar samsvörun milli undirskriftar próftaka á svarblaði og umsókn.
Prófdómari merkir sérstaklega ökuskóla á niðurstöðulista ef hann kemur ekki fram á umsókn próftaka til að tryggja að hann verði rétt skráður í prófakerfið.
Prófdómari fer jafnóðum yfir úrlausn og kallar á próftaka að því loknu, tilkynnir niðurstöðu og býður honum að sjá villur sínar til að læra af þeim. Gildir einu hvort próftaki hefur staðist próf eða ekki. Prófdómari gætir þess að próftaki breyti ekki svörum þegar hann skoðar villur.
Þurfi próftaki að endurtaka prófið veitir prófdómari honum nauðsynlegar leiðbeiningar þar að lútandi.
Prófdómari gætir þess að allir próftakar skili svarblaði og prófverkefni áður en þeir yfirgefa prófstofu.
Þegar próftakar eru farnir kannar prófdómari hvort allar upplýsingar, svo sem bókstafur verkefnis, nafn ökukennara, ökuskóla o.fl., er á svarblöðum, undirritar þau og dagsetur og setur viðeigandi upplýsingar á safnblað fyrir tölvuskráningu niðurstaðna. Ekki er þörf að skrá ökuskóla ef engin krafa er um ökukennslu s.s. við endurveitingu.
Gengið er frá prófverkefnum í tryggar hirslur samkvæmt fyrirmælum á hverjum tíma.
Þegar um rafræn próf er að ræða eru allar tölvur hreinsaðar eftir að prófi lýkur.
Of seint mætt í próf. Ef liðnar eru meira en 15 mínútur af próftíma þegar próftaki mætir skal honum að jafnaði vísað frá prófi. Ennfremur skal próftaka ekki hleypt úr prófstofu fyrr en minnst 15 mínútum eftir upphaf prófs. Komi próftaki of seint í prófið en þó innan 15 mínútna á hann ekki rétt í framlengdum próftíma.
Einstaklingspróf. Sjá leiðbeiningar um einstaklingspróf.
Prófsvindl. Verði próftaki uppvís af því að brjóta prófreglur telst prófið ekki staðið og skal honum vísað úr prófstofu.