30. apríl 2024
30. apríl 2024
Dvalarleyfi fyrir námsmenn 2024/2025
Mikilvægar upplýsingar fyrir umsækjendur
Hér að neðan eru svör við algengum spurningum frá umsækjendum um námsmannaleyfi.
Upplýsingar um skilyrði, fylgigögn og réttindin sem fylgja leyfinu er að finna á síðunni dvalarleyfi fyrir námsmenn.
Hvernig sæki ég um?
Útlendingastofnun getur ekki tekið á móti umsóknum um fyrstu leyfi með rafrænum hætti. Umsóknir þarf að senda með bréfpósti eða skila í póstkassa í anddyri stofnunarinnar (frá 8 til 16 virka daga) að Dalvegi 18, 201 Kópavogi.
Hvernig greiði ég fyrir umsókn?
Hægt er að greiða afgreiðslugjaldið með millifærslu í erlendri mynt, sjá upplýsingar um greiðslu afgreiðslugjalds. Athugið að gera þarf ráð fyrir greiðsluþóknun þess banka sem sér um milligöngu afgreiðslugjaldsins.
Einnig er hægt að greiða fyrir umsókn með reiðufé í íslenskum krónum eða greiðslukorti í afgreiðslu Útlendingastofnunar.
Hvað tekur langan tíma að afgreiða umsókn um námsmannaleyfi?
Umsóknir sem berast með fullnægjandi fylgigögnum fyrir 1. júní verða afgreiddar fyrir upphaf haustannar.
Ófullnægjandi umsóknir sem berast fyrir 1. júní sem og umsóknir sem berast eftir 1. júní verða afgreiddar eins hratt og hægt er. Ekki er hægt að ábyrgjast að allar slíkar umsóknir verði afgreiddar fyrir upphaf haustannar.
Þú færð sendan tölvupóst með staðfestingu á móttöku umsóknar um leið og umsóknin er skráð.
Við munum hafa samband við þig ef umsókn þín eða fylgigögn eru ófullnægjandi og þegar leyfið hefur verið veitt. Tölvupóstar og símtöl til stofnunarinnar með fyrirspurnum um stöðu umsóknar flýta ekki fyrir afgreiðslunni.
Hvað er hægt að gera til að flýta fyrir afgreiðslu umsóknar?
Gættu þess að láta öll nauðsynleg fylgigögn fylgja með umsókninni.
Gættu þess að fylgigögnin uppfylli gagnakröfur stofnunarinnar (neðst á sömu síðu).
Mikilvægt er að sakavottorðið sem þú leggur fram hafi verið gefið út af æðsta yfirvaldi sem heimilt er að gefa út slíkt vottorð í viðkomandi landi. Vottorðið þarf að sýna að leitað hafi verið í gagnagrunnum alls landsins en ekki einungis á ákveðnum svæðum (til dæmis ríkjum eða fylkjum).
Fyrir nema frá Bandaríkjunum þýðir þetta að þeir þurfa að skila inn FBI sakavottorði, Kanadabúar þurfa að skila inn RCMP vottorði og nemar frá Taílandi þurfa að skila inn vottorði sem gefið er út af Royal Thai Police.
Gættu þess að þú uppfyllir skilyrði um trygga sjálfstæða framfærslu og að þú sýnir fram á trygga framfærslu þína með fullnægjandi hætti.