Fara beint í efnið

28. mars 2023

Bið eftir heilbrigðisþjónustu - nýtt mælaborð

Á heimasíðu embættis landlæknis hefur nú verið birt gagnvirkt mælaborð með gögnum um bið eftir völdum skurðaðgerðum.

Bið eftir skurðaðgerðum mælaborð

Á heimasíðu embættis landlæknis hefur nú verið birt gagnvirkt mælaborð með gögnum um bið eftir völdum skurðaðgerðum. Mælaborðið byggir á innsendum gögnum frá sjúkrastofnunum um fjölda í bið eftir völdum skurðaðgerðum, fjölda lokinna aðgerða og biðtíma eftir aðgerð. Með biðtíma er átt við þann tíma sem líður frá því að sjúklingur er metinn í þörf fyrir viðkomandi skurðaðgerð. Mælaborðið les einnig gögn um bið eftir liðskiptaaðgerðum úr miðlægum gagnagrunni biðlistaupplýsinga.

Tilgangurinn með mælaborðinu er að gera upplýsingar um bið eftir skurðaðgerðum aðgengilegri þannig að notendur heilbrigðisþjónustu séu upplýstir og að stjórnvöld og heilbrigðisstofnanir geti tekið ákvarðanir á upplýstum grundvelli. Þannig má stuðla að umbótum innan heilbrigðisþjónustunnar líkt og fram kemur í Áætlun um gæðaþróun í heilbrigðisþjónustu 2019-2030.

Forsenda þess að birtar séu upplýsingar um bið eftir skurðaðgerðum er sú að sjúkrastofnanir sendi inn gögn þegar embættið kallar eftir því. Vonir standa til þess að þær sjúkrastofnanir sem halda biðlista fyrir skurðaðgerðir skrái biðlistaupplýsingar í sjúkraskrárkerfi sem sendir gögn í rauntíma í miðlægan gagnagrunn biðlistaupplýsinga. Er þessi skráning þegar hafið á mörgum stofnunum og standa prófanir yfir.

Undanfarin ár hefur embættið alla jafna kallað eftir gögnum um bið eftir skurðaðgerðum tvisvar sinnum á ári. Síðasta gagnainnköllun var í janúar þessa árs og sýna því nýjustu gildi í mælaborðinu fjölda sem beið eftir skurðaðgerð í janúar 2023 sem og fjölda framkvæmdra aðgerða á árinu 2022. Ekki bárust gögn frá Lentis ehf. um augasteinsaðgerðir í síðustu gagnainnköllun.

Mælaborðið verður uppfært í kjölfar hverrar gagnainnköllunar á meðan þær eru enn við líði. Næsta gagnainnköllun er fyrirhuguð á haustmánuðum þessa árs.

Frekari upplýsingar veitir:
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis
kjartan.h.njalsson@landlaeknir.is