Öll ökutæki sem eru leyfileg innan allra EES ríkjanna eru leyfileg á Íslandi. Algengast er að þeim fylgi CoC vottorð til staðfestingar á því.
Ekki er leyfilegt að flytja inn skráð tjónaökutæki.
Tæknivottorð
Ef flytja á bíl inn frá landi sem er utan EES ríkis þarf að fylgja tæknivottorð frá viðurkenndri tækniþjónustu sem sýnir fram á að bíllinn uppfylli EES kröfur varðandi mengun og ýmis önnur atriði. Í tilviki annarra ökutækja þurfa að fylgja með tækniupplýsingar og staðfestingar sem eru fullnægjandi að mati Samgöngustofu.
Varúðarorð
Íslandi er almennt ekki skylt að taka til skráningar ökutæki sem áður hafa verið skráð erlendis, þar með talið í öðru Evrópuríki (nema ökutæki sé heildargerðarviðurkennt eða með samevrópska viðurkenningu). Varhugavert er því að flytja inn notuð ökutæki nema undirbúa það vel áður.
Engar breytingar má gera á ökutæki frá því sem kemur fram í viðurkenningu þess. Hafi það verið gert, hvort sem það hefur verið gert áður en ökutæki er fyrst skráð eða eftir skráningu í erlendu landi, mun skráningu þess verða hafnað hérlendis nema sérstakar ráðstafanir hafi verið gerðar í samvinnu við Samgöngustofu áður.

Þjónustuaðili
Samgöngustofa