Fara beint í efnið

Forskráning ökutækis

Umsókn um forskráningu á ökutæki

Öll ökutæki sem flutt eru til landsins þarf að forskrá hjá Samgöngustofu. Sama ferli gildir um ný og notuð ökutæki.

Hafa skal í huga áður en að ökutæki er flutt til landsins hvort ökutækið sé leyfilegt á Íslandi og hvaða skatta og gjöld þarf að greiða.

Ferlið

Sækja um forskráningu

Þegar ökutæki er lagt af stað til landsins má leggja inn umsókn um forskráningu. Með umsókninni þarf að fylgja í frumriti:

  • farmbréf (nafn umsækjanda þarf að vera sama og á farmbréfi)

  • COC vottorð eða upprunavottorð (ef ökutækið hefur ekki verið áður skráð í öðru landi)

  • skráningarskírteini eða titilsbréf (ef ökutækið hefur áður verið skráð í öðru landi)

  • vottorð framleiðanda eða tæknivottorð (ef bíll er ekki fluttur inn frá EES)

Þegar ökutækið hefur verið forskráð, fær umsækjandi staðfestingu á skráningu og ökutækið fær úthlutað fastanúmeri. Samgöngustofa pantar númeraplötur og sendir á skoðunarstöð. Framleiðslutími á númeraplötum eru 3 virkir dagar. Við umsókn um forskráningu er greitt fyrir skráninguna sjálfa og númeraplötur samkvæmt gjaldskrá Samgöngustofu.

Tollafgreiðsla

Þegar ökutæki hefur fengið fastanúmer, þarf að útbúa tollskýrslu og leggja inn til Tollstjóra.

Afhendingarheimild fæst þegar ökutæki hefur verið tollafgreitt og öll aðflutningsgjöld hafa verið greidd hjá Tollstjóranum í Reykjavík.

Tryggingar

Tryggja þarf ökutækið til þess að fá skammtímamerki, svo hægt sé að færa bílinn á skoðunarstöð.

Afhending á skammtímamerki

Samgöngustofa og flestar skoðunarstöðvar selja skammtímamerki (pappamerki). Þegar ökutækið hefur verið tryggt, er hægt að fá skammtímamerki til að færa ökutækið á verkstæði eða skoðunarstöð til skráningar. Skammtímamerki eru ekki afhent nema ökutæki séu tryggð. Hjá Samgöngustofu kostar skammtímamerki fyrir einn dag 1.114 krónur.

Afhending á ökutæki

Þegar afhendingarheimild hefur verið veitt og skammtímamerki hefur verið sótt, má sækja ökutækið hjá flutningsaðila og færa til skoðunarstöðvar sem ætti að hafa borist rafræn staðfesting á afhendingarheimild frá Tollstjóra.

Nýskráning á skoðunarstöð

Fara þarf með ökutækið á þá skoðunarstöð sem númeraplötur (fastanúmer) ökutækis
eru sendar til. Skoðunarstöðin nýskráir ökutækið og gerir tryggingafélaginu viðvart um nýskráninguna.

Kostnaður

Greiða þarf skatta og gjöld við nýskráningu og innflutning á ökutæki. Kostnaður er misjafn eftir verði ökutækis en hægt er að átta sig á kostnaði með því að skoða reiknivél Tollstjóra.

Hjá Samgöngustofu er greitt fyrir forskráningu. Forskráning kostar 4.730 krónur fyrir flest allar fólksbifreiðar fluttar inn frá Evrópu en 7.888 krónur fyrir ökutæki sem koma annars staðar frá, vörubifreiðar, hópbifreiðar og fleiri.

Í flestum tilfellum eru númeraplötur pantaðar samhliða forskráningu. Ein númeraplata kostar 6.616 krónur hjá Samgöngustofu.

Greiða þarf fyrir nýskráningu og skráningarskoðun og fer sá kostnaður eftir gjaldskrá þeirrar skoðunarstöðvar sem valin er.

Umsókn um forskráningu á ökutæki

Þjónustuaðili

Samgöngu­stofa