Undirbúningur fyrir ferðalag er nauðsynlegur og margt sem þarf að gera áður en mætt er í brottfararsal flugstöðvar og í öryggisleit.
Þegar pakkað er niður fyrir ferðalag ætti að hafa í huga að snyrtitöskum, tannkremi, hárvörum, ilmvatnsglösum, kremi, rakspíra, svitalyktareyði, sápum, raksápu og öðrum sambærilegum hlutum er best fyrir komið í innrituðum farangri.
Mikilvægt er að pakka hlutum í innritunarfarangur sem ekki eru leyfðir í handfarangri, svo sem skærum, naglaþjölum og vasahnífum.
Þegar farþegi er kominn í öryggisleit er of seint að koma bönnuðum hlutum fyrir í áður innrituðum farangri.
Ef bannaðir hlutir finnast við öryggisleit fær farþeginn ekki að fara með þá inn fyrir öryggishlið.
Aðstaða til að geyma bannaða hluti er ekki fyrir hendi í flugstöðvum á Íslandi.
Ferðaheimild til Bandaríkjanna
Þeir farþegar sem hyggjast ferðast til Bandaríkjanna þurfa að sækja um ferðaheimild á vefsíðu ESTA (Electronic System for Travel Authorization) að kröfu Heimavarnarráðs Bandaríkjanna (Homeland Security)
Þegnar þeirra landa sem eru aðilar að rafræna vegabréfskerfinu þurfa ekki á vegabréfsáritun að halda en þurfa þess í stað að hafa fengið samþykkta ferðaheimild áður en lagt er af stað.
Mikilvægt er að sækja um ferðaheimild með góðum fyrirvara. Mælt er með að sækja um heimild að minnsta kosti 72 klst áður en ferðast er.
Umsóknarferlið
Farið er inn á öruggt vefsvæði ESTA.
Fylla ber út eyðublað þar sem spurt er um persónu- og ferðaupplýsingar.
Umsóknin er unnin af kerfinu og ákvarðast samstundis hvort umsækjandi sé hæfur til að ferðast til Bandaríkjanna án vegabréfsáritunar.
Kerfið gefur sjálfkrafa svar en áður en farið er um borð í flugvélina gengur flutningsaðili úr skugga um hvort samþykkt ferðaheimild sé á skrá hjá toll- og landamærayfirvöldum Barndaríkjanna.
Ferðast innan Schengen
Ísland er aðili að Schengen samkomulaginu en kjarni þess er meðal annars að tryggja frjálsa för einstaklinga um innri landamæri samstarfsríkjanna.
Að meginstefnu er hægt er að ferðast um á Schengen svæðinu án þess að framvísa vegabréfum á landamærum.
Ferðast verður með gild persónuskilríki svo að hægt sé að sanna á sér deili hvenær sem þess er krafist.
Íslensk vegabréf eru einu skilríkin sem vottað geta um ríkisfang íslenskra ríkisborgara innan Schengen og er þess því krafist að þeir hafi þau ávallt meðferðis.
Vegabréfsáritanir eða landgönguleyfi (visa).
Rétt er að kynna sér tímanlega hvort vegabréfsáritunar eða landgönguleyfis sé krafist í því landi sem heimsækja á.
Almennt þurfa íslenskir ríkisborgarar vegabréfsáritun en frá því gilda þó margar undantekningar samanber það sem gildir um ferðalög til aðildarríkja Schengen.
Þegar vegabréfsáritunar er krafist þarf oftast að sækja um það í erlendum sendiráðum og/eða ræðisskrifstofum.
Þegar viðkomandi ríki hefur hvorki sendiráð né ræðisskrifstofu á Íslandi getur þurft að senda vegabréf eða ljósrit þess til viðkomandi sendiskrifstofu viðkomandi ríkis erlendis.
Sjá nánar um ferðalög á vef utanríkisráðuneytisins og kröfur um ferðaskilríki frá útlendingastofnun.
Ef farþegi er veikur eða hefur verið veikur og hefur áhyggjur af því hvort tilvonandi flug getur haft áhrif á veikindin þá er full ástæða til að ræða þessar áhyggjur við heimilislækni viðkomandi áður en lagt er af stað.
Einnig er möguleiki að ræða við viðkomandi flugrekanda og fá viðbrögð frá honum.
Ef farþegi með undirliggjandi sjúkdóm fer í ferðalag til útlanda er gott að vera búinn að kanna stöðu sína gagnvart tryggingum áður en lagt er af stað.
Bólusetningar
Áður en haldið er af stað er rétt að huga að því hvort bólusetning sé nauðsynleg. Nánari upplýsingar um það er hægt að nálgast hjá sendiráði viðkomandi ríkis, heimilislækni, heilsugæslustöð eða landlæknisembættinu.
Skyndileg veikindi
Ef farþegi veikist um borð og snúa þarf flugvélinni til næsta flugvallar þá ber flugrekandinn ekki ábyrgð af þeim kostnaði sem farþegi verður fyrir vegna þeirrar læknisþjónustu sem hann þarfnast.
Flugrekandinn á samt sem áður að reyna að hjálpa farþeganum til að komast á áfangastað eða heim aftur þegar hann getur hafið ferð að nýju. Í svona tilfellum er ástæða fyrir farþega að athuga hvað ferðatrygging hans nær yfir.
Nánar
Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um ráðleggingar og ferðalög frá Alþjóða heilbrigðisstofnunin WHO.
Í gildi eru reglur sem takmarka það sem farþegum er heimilt að bera með sér í handfarangri inn fyrir öryggishlið.
Ferðast með vökva í handfarangri:
Hver eining umbúða má að hámarki rúma 100 millilítra (1dl) af vökva.
Allar umbúðirnar verða að rúmast í gegnsæjum eins (1) lítra plastpoka sem hægt er að loka með plastrennilás.
Hverjum farþega er heimilt að hafa með sér einn poka.
Undir vökva flokkast meðal annars: gel, krem, smyrsl og úðaefni, hvort sem er í flöskum, þrýstibrúsum, túpum eða öðrum umbúðum.
Eftirfarandi nauðsynjar til persónulegra nota
eru leyfilegar í handfarangur, ef öryggisverðir telja ekki ógn stafa af þeim:
Lyf í magni sem dugir meðan á ferðalagi stendur.
Barnamatur.
Matvæli vegna sérstaks mataræðis.
Hárblásari og krullujárn.
Farþegum leyfist að hafa meðferðis inn á haftasvæði flugverndar vökva í poka með innsigli sem sýnir hvort lokun hans hafi verið rofin (STEBS - Security Tamper Evident Bag) að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
Pokinn sé lokaður og beri þess ekki merki að reynt hafi verið að opna hann.
Að pokinn innihaldi kvittun sem færi sönnur á að kaup á vökva hafi átt sér stað í fríhöfn flugvallar eða um borð í flugvél.
Pokann skal aðskilja frá öðrum handfarangri fyrir skimun.
Ef farið er í tengiflug í Norður-Ameríku:
verður að setja vökva, sem keyptur er í verslun eftir að farið er í gegnum öryggisskoðun eða um borð í flugvél, í innritaðan farangur áður en haldið er áfram í tengiflug.
tækifæri til þess gefst eftir að farþegar hafa farið í gegnum tollskoðun við komuna í flugstöð í Norður-Ameríku.
Hægt er að nálgast lista yfir hluti sem ekki eru leyfilegir í handfarangi(pdf) og sem farþegar mega ekki flytja með sér inn á haftasvæði flugverndar eða um borð í loftfar. Listinn er ekki tæmandi.
Upplýsingar frá EASA um hættulegan varning í farangri flugfarþega, reglur í Evrópu og hjá Evrópskum flugfélögum:
https://www.easa.europa.eu/easa-and-you/passengers/dangerous-goods
Upplýsingar frá FAA um hættulegan varning í farangri flugfarþega, reglur í USA:
Innritun
Hægt er að nota netinnritun, sjálfsafgreiðslustöð eða innritun í brottfararsal.
Þegar komið er á flugvöll er hægt að afhenda þar farangur ef einhver er og fara beint í öryggisleit. Þeir farþegar sem eru eingöngu með handfarangur geta farið beint í öryggisleit.
Öryggisleit
Gott er að hafa brottfararspjald og vegabréf (eða önnur skilríki) tilbúin til skoðunar hjá öryggisvörðum. Um leið og komið er að færibandi gegnumlýsingarvélar er gott að setja handfarangur í plastbakka, séu þeir fyrir hendi. Enn fremur skyldi farþegi vera búinn að:
Taka plastpoka með vökva úr handfarangri.
Taka fartölvu og önnur stærri rafmagnstæki upp úr tösku.
Fara úr yfirhöfn.
Taka af sér belti og tæma vasa.
Viðskiptavinir skulu geta borið saman á skilvirkan hátt verð fyrir flugþjónustu hjá mismunandi flugrekendum.
Endanlegt verð sem viðskiptavinurinn greiðir fyrir flugþjónustu sem er uppruninn á EES-svæðinu skal ætið vera tilgreint að meðtöldum öllum sköttum, gjöldum og þóknunum.
Ávallt skal tilgreina endanlegt verð sem á að greiða og skal það fela í sér
gildandi flugfargjald
og einnig alla
alla skatta
allan kostnað
Flugvallargjöld
öll önnur gjöld, til dæmis tengd flugvernd eða eldsneyti.
allar þóknanir
sem eru óhjákvæmilegar og fyrirsjáanlegar á þeim tíma sem gjöldin eru birt. Veita skal upplýsingar um valkvætt viðbótarverð á skýran, gagnsæjan og ótvíræðan hátt við upphaf hvers bókunarferlis og samþykki þess af hálfu viðskiptarvinarins skal byggjast á vali hans.
Einnig er hægt að skoða heimsíðu flugfélags sem ferðast er með fyrir frekari upplýsingar.
Þjónustuaðili
Samgöngustofa