Fara beint í efnið

Dvalarleyfi fyrir hugsanlegt fórnarlamb mansals

Hvað er mansal

Í einfölduðu máli má segja að manneskja sé þolandi mansals ef hún er þvinguð eða ginnt í aðstöðu þar sem hann eða hún sætir misnotkun sem færir öðrum ábata eða hagnað. 

Sumir halda að mansal tengist alltaf vændi og að bara konur geti orðið fyrir því en það er ekki rétt.  

Fórnarlömb mansals geta verið börn eða fullorðnir einstaklingar, sem oft eru í viðkvæmri stöðu eða hafa verið blekktir eða beittir ofbeldi, hótunum eða þvingunum. 

Birtingarmyndir mansals

Mansal birtist á marga vegu. Það getur verið mansal ef einhver:

  • Greiðir þér ekki pening fyrir vinnu þína.

  • Neyðir þig til að vinna störf sem eru ekki hluti af starfi þínu.

  • Hagnast á vinnuframlagi þínu.

  • Neyðir þig til að ganga í hjónaband gegn vilja þínum.

  • Hagnast á að selja aðgang að líkama þínum.

  • Hótar þér eða fjölskyldu þinni ofbeldi ef þú gerir ekki eitthvað.

  • Neyðir þig til að búa við óviðunandi aðstæður.

  • Heldur þér gegn vilja þínum á einhverjum stað.

  • Tekur af þér vegabréf eða önnur mikilvæg skjöl.

  • Falsar eða útvegar þér vegabréf.

  • Borgar ferðakostnað þinn hingað og lætur þig borga skuldina með því að vinna.

  • Bannar þér að tala um aðstæður þínar við fjölskyldu, vini eða yfirvöld.

  • Bannar þér að sækja heilbrigðisþjónustu eða vill koma með þér til læknis.

  • Þvingar þig til að brjóta lög til að hagnast á því sjálfur.

Kynntu þér betur ólíkar birtingarmyndir mansals á vef 112.is.

Þjónustuaðili

Útlend­inga­stofnun