Dvalarleyfi fyrir hugsanlegt fórnarlamb mansals
Mansal er þegar einstaklingur (gerandi) misnotar eða hagnýtir aðra manneskju (þolanda/fórnarlamb) á einhvern hátt til að græða peninga eða fá önnur hlunnindi.
Mansal er glæpastarfsemi þar sem verslað er með manneskjur.
Mansal er alvarlegt brot á mannréttindum.
Mansal er bannað á Íslandi.
Við mansal eru vonir og draumar fólks um betra líf oft notfærðar og fólk þvingað til að lifa lífi sem það bað ekki um.
Það er líka algengt að fólk viti ekki að það sé þolandi mansals og telji sig jafnvel standa í þakkarskuld við aðila sem í raun er að misnota það.
Á þessari síðu geturðu lesið meira um mansal og birtingarmyndir þess og einnig um gerendur mansals.
Ef þú telur þig hugsanlega vera fórnarlamb mansals hvetjum við þig til þess að leita eftir upplýsingum og aðstoð hjá Útlendingastofnun, Bjarkarhlíð eða 112 (sjá frekari upplýsingar neðst á síðunni).
Leyfi til dvalar á Íslandi
Það er algengt að þolendur mansals hafi einhvern tímann heyrt að ef þau segi frá aðstæðum sínum eða leiti sér hjálpar þá verði þau send úr landi. Þetta getur verið ein af ástæðum þess að þolendur mansals leita sér ekki aðstoðar eða eru hikandi við það.
Ísland er aðili að alþjóðlegum samningum sem hafa það að markmiði að berjast gegn skipulagðri brotastarfsemi og mansali. Eitt af áherslumálunum í stefnu stjórnvalda í mansalsmálum er að veita fórnarlömbum mansals aðstoð, stuðning og vernd.
Vegna þess hve mikilvægt það er að fórnarlömb mansals fái tækifæri til að ná bata og losna undan áhrifum þeirra sem stunda mansal er til sérstakt dvalarleyfi fyrir hugsanleg fórnarlömb mansals.
Á meðan umsókn um slíkt leyfi er til vinnslu er umsækjanda ekki vísað frá landinu.
Leyfið er einnig kallað umþóttunarleyfi því það veitir fólki, sem er í aðstæðum sem hugsanlega teljast mansal, tíma til umþóttunar eða umhugsunar um stöðu sína og næstu skref.
Leyfinu er ætlað að hjálpa þér að losna úr aðstæðum þínum, koma undir þig fótunum og komast undan áhrifum gerenda.
Veiting leyfisins er óháð því hvort lögreglurannsókn á mansalinu fari fram þar sem tilgangur leyfisins er að gefa hugsanlegu fórnarlambi svigrúm til þess að taka upplýsta ákvörðun um samstarf við yfirvöld við rannsókn málsins.
Leyfið má veita í að allt að 9 mánuði og mögulegt er að endurnýja það ef aðstæður gefa tilefni.
Umsókn um dvalarleyfi fyrir hugsanlegt fórnarlamb mansals
Umsókn um dvalarleyfi fyrir hugsanlegt fórnarlamb mansals þarf ekki að leggja fram á formlegu eyðublaði. Það má gera bæði skriflega og munnlega. Ekki þarf að greiða fyrir umsóknina.
Umsóknina má leggja fram beint hjá Útlendingastofnun en hún getur einnig borist stofnuninni eftir öðrum leiðum, til dæmis fyrir milligöngu lögreglunnar eða annarra aðila, eins og Bjarkarhlíðar, sem veita hugsanlegum fórnarlömbum mansals þjónustu eða aðstoð. Einnig er hægt að leggja fram slíka umsókn í greinargerð talsmanns umsækjenda um vernd.
Útlendingastofnun leitar umsagnar lögreglu um þær umsóknir sem stofnuninni berast. Það er þó ekki skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfisins að lögreglu sé kunnugt um mál umsækjanda eða telji ástæðu til að hefja sérstaka rannsókn á því.
Jafnframt er þess óskað að umsækjandi leggi fram öll þau gögn sem viðkomandi hefur undir höndum sem gætu stutt við umsóknina.
Hver getur hjálpað þér
Bjarkarhlíð - Miðstöð fyrir þolendur ofbeldis og samhæfingarmiðstöð fyrir þolendur mansals.
Þjónustuaðili
Útlendingastofnun