Afsals- og veðmálabækur
Afsals- og veðmálabækur innihalda skjöl sem þinglesin voru við manntalsþing en þau voru haldin árlega af sýslumanni. Með aukinni þéttbýlisþróun og lagabreytingum á 20. öld lögðust manntalsþing af og nú eru skjöl þinglesin um leið og þau berast viðkomandi sýslumannsembætti. Þinglesin skjöl eru skráð í þar til gerða skrá þar sem þeim er úthlutað tilvísunarnúmeri, einnig þekkt sem litranúmer. Litranúmerið vísar annars vegar í ákveðna afsals- og veðmálabók og hins vegar í það númer sem skjalinu var úthlutað.
Til þess að finna skjal sem hefur verið þinglesið þurfa að liggja fyrir upplýsingar um tilvísunarnúmer. Sýslumannsembætti búa yfir áður nefndum skrám yfir þinglesin skjöl aftur til fyrri hluta 20. aldar og því getur við fyrsta skref þurft að afla upplýsinga um litranúmerið hjá viðeigandi embætti.
Þá er einnig hægt að sækja um veðbókarvottorð á vef sýslumanna. Þjóðskjalasafn varðveitir skrár yfir elstu afsals- og veðmálabækur. Leit í dómabókagrunni getur einnig vitnað til um hvenær viðkomandi skjal var þinglesið.
Fyrirspurn um afsals- eða veðmálagögn
Þjónustuaðili
Þjóðskjalasafn Íslands