Rannsóknasjóður

Greiðslur og skýrsluskil
Samningar eru gerðir milli verkefnisstjóra (PL) og Rannís, f.h. Rannsóknasjóðs. Styrkir eru aðeins greiddir inn á bankareikninga íslenskra stofnana eða lögaðila.
Fyrsta greiðsla (40%) greiðist við undirritun samnings.
Önnur greiðsla (40%) greiðist 1. september.
Lokagreiðsla (20%) er greidd út þegar ársskýrsla/lokaskýrsla hefur verið samþykkt.
Þegar ársskýrsla hefur verið samþykkt er samningur næsta árs sendur verkefnisstjórum.
Skýrslur og áætlanir
Gagnastjórnaráætlun
Verkefnisstjóri (PL) ber ábyrgð á því að skila gagnastjórnunaráætlun til sjóðsins, þ.e. hvernig vistun gagna og aðgengi að gögnum verður háttað. Gera skal grein fyrir vörslu og aðgengi að verkfærum, hugbúnaði eða algrímum sem safnað verður eða verða til í verkefninu. Gagnastjórunaráætlunin skal vera í samræmi við alþjóðlega staðla, þ.e. persónuverndarreglur Íslands og ESB (General Data Protection Regulation), FAIR viðmiðum (findable, accessible, interoperable and re-usable) og siðareglur um gagnastjórnun.
Árskýrsla
Verkefnisstjóri (Project Leader) er ábyrgur fyrir skilum á ársskýrslu fyrir 1. febrúar eftir að styrkári lýkur. Í ársskýrslu skal gera grein fyrir áföllnum kostnaði og fjármögnun viðkomandi styrkárs og áætluðum kostnaði og fjármögnun komandi styrkárs. Allar meiriháttar breytingar á verkefninu (þ.m.t. foreldraorlof eða veikindaleyfi þátttakenda) skulu útskýrðar og breytingar á rannsóknaáætlun rökstuddar. Fyrirfram samþykktar er krafist fyrir flutningi á meira en 10% af heildarupphæð hvers styrkárs (án samreksturs) á milli mismunandi kostnaðarliða.
Ársskýrslu ásamt fjárhagsyfirliti (sjá skýrslueyðublöð) og hreyfingalista skal skila í seinasta lagi 1. febrúar (doktorsnemar þurfa ekki að skila hreyfingalista). Lokagreiðsla styrkársins (20%) er greidd eftir að skýrslan hefur verið samþykkt.
Lokaskýrslur
Skal skila fyrir 15. febrúar ári eftir að lokastyrkári lýkur. Í lokaskýrslu skal gera grein fyrir framvindu verkefnisins, lokaniðurstöðum og ályktunum auk fréttatilkynningar á ensku og íslensku. Allar meiriháttar breytingar á verkefninu (þ.m.t. foreldraorlof eða veikindaleyfi þátttakenda) skulu útskýrðar og breytingar á rannsóknaáætlun rökstuddar. Samþykktar stjórnar er krafist fyrir flutningi á meira en 20% heildarupphæðar styrks milli mismunandi kostnaðarliða.
Lokaskýrslu ásamt fjárhagsyfirliti og hreyfingalista skal skila eigi síðar en 15. febrúar (doktorsnemar þurfa ekki að skila hreyfingalista). Lokagreiðsla verkefnisins (20%) er greidd eftir að lokaskýrslan hefur verið samþykkt.