Fara beint í efnið

Umsókn um staðfestingu skipulagsskrár fyrir nýjan sjóð eða sjálfseignarstofnun

Hægt er að óska staðfestingar á skipulagsskrá fyrir sjóð eða sjálfseignarstofnun sem stundar ekki atvinnurekstur. Við staðfestingu sýslumanns fellur sjóðurinn eða sjálfseignarstofnunin undir gildissvið laga númer 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa skv. staðfestri skipulagsskrá og telst sjálfseignarstofnun.

Eitt höfuðeinkenni sjálfseignarstofnunar er að hún á sig sjálf. Með stofnun hennar hefur verið mynduð sjálfstæð stjórn um fjármuni sem stofnuninni hafa verið afhentir með óafturkræfum hætti. 

Í skipulagsskránni er að finna ákvæði um starfsemi stofnunarinnar og meðferð fjármuna hennar, meðal annars:

  • hvert stofnfé hennar er og hvaðan það kemur

  • hvert skuli vera markmið stofnunarinnar 

  • hvernig fjármunum skuli ráðstafað til að ná fram markmiðum hennar

  • hvernig stjórn hennar skuli skipuð og endurnýjuð.

Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra sér um staðfestingar á skipulagsskrám.

Hvað þarf að koma fram í skipulagsskrá

  1. Heiti sjálfseignarstofnunar.

  2. Sveitarfélagið þar sem sjálfseignarstofnunin á að hafa heimili.

  3. Markmið sjálfseignarstofnunar.

  4. Hvernig ráðstafa skuli fjármunum sjálfseignarstofnunarinnar í þágu markmiða hennar.

  5. Hverjir séu stofnendur, nöfn þeirra og kennitölur.

  6. Stofnfé, fjárhæð þess og hvaðan það er runnið.

  7. Fjöldi stjórnarmanna, starfstími þeirra og val þeirra.

  8. Aðrar stjórnareiningar, t.d. framkvæmdastjóri og fulltrúaráð, ef um þær er að ræða, val þeirra og verkefni.

  9. Endurskoðendur og/eða skoðunarmenn, val þeirra og verkefni.

  10. Hvert skuli vera reikningsár (almanaksár eða annað tímabil) og fyrsta reikningstímabil. 

  11. Hver beri ábyrgð á fjárvörslu (fjárvörsluaðili), ef það er annar aðili en stjórn. 

  12. Ákvæði um að leita skuli staðfestingar sýslumanns á skipulagsskrá.

Sýslumaður getur óskað annarra gagna sem hann telur nauðsynleg til staðfestingar skipulagsskrár

Dæmi um skipulagsskrá

Drög skipulagsskrár óskast send embættinu í tölvupósti til yfirlestrar á netfangið sjodir@syslumenn.is

Kostnaður

Lágmarksstofnfé

Lágmarksstofnfé sjálfseignarstofnunar fyrir árið 2024 er 1.595.000 krónur og skal stofnfé vera greitt áður en óskað er staðfestingar sýslumanns á skipulagsskránni.

Gjald fyrir staðfestingu

Gjald fyrir staðfestingu á skipulagsskrá er 38.000 krónur, þ.e. 11.000 króna staðfestingargjald og 27.000 króna gjald fyrir auglýsingu skipulagsskrárinnar í B- deild Stjórnartíðinda. Skal gjaldið greitt um leið og óskað er staðfestingar.

Ferli umsóknar

Beiðni um staðfestingu á skipulagsskrá skal fylgja:

  1. Skipulagsskrá sjálfseignarstofnunarinnar skal berast í frumriti og vera undirrituð af stofnanda eða stjórn sjálfseignarstofnunarinnar. Jafnframt skal eintak sent sýslumanni með rafrænum hætti á netfangið sjodir@syslumenn.is.

  2. Nöfn og kennitölur stjórnarmanna og staðfesting þeirra á að þeir taki sæti í stjórn sjálfseignarstofnunarinnar. Stjórnareyðublað embættisins skal fyllt út og koma skulu fram netföng stjórnarmanna og stofnunarinnar sjálfrar ef um það er að ræða. Oft þarf einnig staðfestingu stofnenda á að þeir hafi valið viðkomandi aðila til stjórnarsetu, þ.e. ef stofnendum er falið í skipulagsskrá að velja fyrstu stjórn.

  3. Staðfesting endurskoðanda, lögmanns eða banka/sparisjóðs um að stofnfé hafi verið greitt til sjálfseignarstofnunarinnar.

  4. Stofnskrá sjálfseignarstofnunarinnar eða til dæmis gjafabréf eða erfðaskrá, ef annar löggerningur en skipulagsskráin liggur stofnuninni einnig til grundvallar.

  5. Greinargerð samkvæmt 2. málsgrein 7. greinar reglugerðar 140/2008 ef við á. 

Þegar skipulagsskrá hefur verið staðfest skal sá er óskaði staðfestingar skrá sjálfseignarstofnunina í fyrirtækjaskrá og tilkynna sýslumanni um kennitölu hennar.

Tengd lög og reglugerðir

Lög nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá

Reglugerð nr. 140/2008 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá

Reglugerð nr. 1125/2006 um framkvæmd laga um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá