Greiðsluáætlun - greiðsludreifing fyrir skatta, gjöld og sektir
Launaafdráttur
Launagreiðendur sem skráðir eru í rafræn skil á launaafdrætti fá sendar kröfur um afdrátt af launum starfsmanna sinna í samræmi við gilda greiðsluáætlun.
Ef greiðsluáætlun um lækkun á launaafdrætti er gerð 20. dag mánaðar eða seinna er ekki tryggt að uppfærð krafa sé send launagreiðanda fyrir komandi mánaðamót. Í þeim tilfellum þarf aðili sem sætir launaafdrætti að koma afriti til launafulltrúa síns. Það á einnig við ef launagreiðandi er ekki skráður í rafræn skil. Nálgast má yfirlit yfir greiðsluáætlanir á mínum síðum.
Athugið að við álagningu einstaklinga í lok maímánaðar og við skattbreytingar til hækkunar er ný krafa um launaafdrátt send til launagreiðanda þrátt fyrir að greiðsluáætlun um launaafdrátt sé í gildi vegna eldri skulda.
Til þess að gera greiðsluáætlun um lækkun á launaafdrætti að nýju og bæta við skuldum þarf að hafa samband við þann innheimtumann ríkissjóðs sem fer með innheimtuna.
Í þessum fyrsta fasa sjálfsafgreiðslu á launaafdrætti er ekki boðið upp á að endurnýja launaafdrátt með nýjum skuldum en með frekari þróun á rafrænni þjónustu standa vonir til að auka sjálfsafgreiðslumöguleika og þar með ánægju þeirra sem kjósa að nota rafrænar lausnir í samskiptum sínum við innheimtumenn ríkissjóðs.
Þjónustuaðili
Skatturinn