Sorgarleyfi
Á þessari síðu
Upphæðir og útreikningur
80% af meðaltali heildarlauna yfir ákveðið tímabil er mánaðargreiðsla til foreldris í sorgarleyfi.
Útreikningur á greiðslum byggir á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda.
Hámarksgreiðsla
Greiðslur verða aldrei hærri en 600.000 krónur á mánuði.
Lágmarksgreiðslur
Mánaðarleg greiðsla í sorgarleyfi til foreldris í 25 – 49% starfi er aldrei lægri en 160.538 krónur.
Mánaðarleg greiðsla í sorgarleyfi til foreldris í 50 – 100% starfi er aldrei lægri en 222.494 krónur.
Hvaða tímabil er miðað við?
Við útreikning er miðað við við 6 mánaða samfellt tímabil á íslenskum vinnumarkaði sem lýkur 2 almanaksmánuðum fyrir barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturlát. Það má ekki miða við færri en 3 mánuði við útreikning.
Hvað er talið sem laun?
Til útreiknings koma laun og þóknanir af íslenskum vinnumarkaði, þar með talið reiknað endurgjald. Skilyrði er að það hafi verið greitt tryggingagjald af þessum greiðslum.
Önnur þátttaka á vinnumarkaði
Fyrir utan laun og reiknað endurgjald eru greiðslur vegna annarrar þátttöku á vinnumarkaði líka teknar með í útreikning.
Hægt er að sjá hvað telst til þátttöku á vinnumarkaði utan hefðbundinna starfa á síðunni Réttur til sorgarleyfis undir „Launuð störf“.
Nám eða starf utan Íslands
Foreldrar sem hafa verið í meira en 10 ECTS námi og í minna en 25% starfi, eða starfandi erlendis, gætu átt rétt á því að fá mánuði undanskilda við útreikning og þannig hækkað greiðslur.
Best er að hafa samband við Fæðingarorlofssjóð til að fá leiðbeiningar ef slíkar aðstæður eiga við: faedingarorlof@vmst.is.
Skattar, önnur gjöld og nýting persónuafsláttar
Allar greiðslur frá fæðingarorlofssjóði eru staðgreiðsluskyldar.
Meðan á sorgarleyfi stendur greiðir foreldri að lágmarki 4% af sorgarleyfisgreiðslu í lífeyrissjóð og Vinnumálastofnun að lágmarki 11,5% mótframlag.
Foreldri er heimilt að greiða í séreignasjóð en Vinnumálastofnun greiðir ekki mótframlag.
Foreldri er heimilt að greiða til stéttarfélags meðan á sorgarleyfi stendur. Það er gott að hafa í huga að réttindi hjá stéttarfélagi geta fallið niður ef greiðslurnar til þess stöðvast.
Nýting persónuafsláttar
Hægt er að nýta persónuafslátt á móti frádrætti vegna staðgreiðslu skatta.
Hvað getur haft áhrif á greiðslur?
Það sem getur haft áhrif á greiðslur til foreldra í sorgarleyfi eru:
Greiðslur frá atvinnurekendum.
Breytingar á tekjum.
Breytingar á tímabilum sorgarleyfis.
Mánaðarlega er framkvæmt eftirlit sem felst í því að keyrðar eru saman upplýsingar um greiðslur frá Vinnumálastofnun við skrár skattyfirvalda. Það er því mikilvægt að tilkynna um öll þau tilvik sem leitt geta til of hárra greiðslna frá stofnuninni: faedingarorlof@vmst.is.
Tekjumissir
Foreldri getur orðið fyrir tekjumissi við það að fara í sorgarleyfi enda er greiðslum Vinnumálastofnunar ætlað að bæta hluta tekjumissis foreldris sem leggur niður störf í sorgarleyfi.
Tekjumissinn sem Vinnumálastofnun er ekki ætlað að bæta getur foreldri fengið bættan frá vinnuveitanda án þess að komi til skerðingar á greiðslum frá Vinnumálastofnun, þó án vinnuframlags foreldris.
Skerðing á greiðslum
Greiðslur frá vinnuveitanda sem eru ætlaðar fyrir annað tímabil en það sem foreldri var í sorgarleyfi skerða ekki greiðslur frá Vinnumálastofnun.
Heimilt er að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launabreytinga sem rekja má til breytinga á störfum foreldris fram að upphafsdegi sorgarleyfis.
Þjónustuaðili
Vinnumálastofnun