Skotvopnaleyfi
Flokkar og reglur
Að eiga skotvopn og fara með slík tæki er ábyrgðarhlutur. Lögin varðandi eign vopna eru stíf og miklar kröfur settar á leyfishafa að vera með allar reglur á takteinum og meðferð skotvopna í lagi. Hægt er að svipta leyfishafa réttindum til að eiga skotvopn sé ákvæðum ekki fylgt.
Segja mætti að vopnalög fjalli um undantekningar sem má gera – en í grunnin séu öll vopn bönnuð, nema þau séu sérstaklega leyfð. Um þetta er fjallað í vopnalögum og reglugerð um skotvopn en þær má nálgast hér:
A leyfi
Skotvopnaleyfi eru stigskipt og má segja að eftir því sem leyfishafi öðlast frekari réttindi aukist sú flóra af skotvopnum sem viðkomandi megi eiga, en að sama skapi þrengjast líka þær skorður sem leyfishafa eru settar hvað varðar notkun vopnanna. Þegar leyfishafi fær fyrst leyfi (A réttindi) má leyfishafi einvörðungu búa yfir og nota:
Haglabyssur nr. 12 og minni, þó eigi sjálfvirkar eða hálfsjálfvirkar.
Riffla cal. 22 (long rifle og minni), þ.m.t. loftriffla, þó eigi sjálfvirka eða hálfsjálfvirka.
B leyfi
Eftir eitt ár má leyfishafi sækja um aukin skotvopnaréttindi – B-flokk. Undir B-leyfisskyld vopn segir í reglugerðinni:
„Leyfi fyrir rifflum með hlaupvídd allt að cal. 30 og hálfsjálfvirkum haglabyssum skal ekki veitt nema sérstakar ástæður mæli með því, enda hafi umsækjandi haft skotvopnaleyfi í a.m.k. eitt ár.”
D leyfi
Hér er um að ræða svokallað íþróttaleyfi, leyfi sem sérstaklega er veitt einstaklingi eða skotfélagi fyrir skammbyssum vegna íþróttaskotfimi sbr. 11. gr. Lögreglustjóri skal senda slíkar umsóknir með umsögn sinni ríkislögreglustjóra til ákvörðunar.
E leyfi
Handhafa skotvopnaleyfis er heimilt með leyfi lögreglustjóra að hlaða skothylki til eigin nota í þau skotvopn sem viðkomandi hefur leyfi fyrir, enda sé að öðru leyti heimilt að nota slík skotfæri hér á landi. Aðeins má veita þeim leyfi, sem að mati lögreglustjóra hefur nægilega þekkingu til þess að hlaða skothylki og fara með hleðslubúnað, enda hafi hann haft aukin skotvopnaréttindi skv. 3. gr. (flokkur B) og gengist undir námskeið í hleðslu skotfæra samkvæmt ákvörðun ríkislögreglustjóra.
S leyfi
Ríkislögreglustjóra er heimilt að veita einstaklingum, samtökum og opinberum söfnum leyfi til að eiga og varðveita skotvopn er hafa ótvírætt söfnunargildi vegna aldurs þeirra, tengsla þeirra við sögu landsins eða af öðrum sérstökum ástæðum. Til þess að öðlast slíkt leyfi þarf:
Hafa verið handhafi skotvopnaleyfis í a.m.k. fimm ár.
Hafa yfir að ráða fullnægjandi aðstöðu til varðveislu skotvopnanna.
Vera með hirslur sem uppfylla skilyrði lögreglu
Vera með öryggiskerfi tengt stjórnstöð
Sækja fyrirfram um leyfi fyrir kaupum á skotvopnum í safnið og fá útgefna kaupheimild, sbr. 30. Gr
Leyfi til að starfa sem byssusmiður
Rétt eins og það að eiga vopn þarf réttindi til þess að starfa við byssusmíðar - en undir þær falla einnig lagfæringar á skotvopnum. Þessi réttindi eru gefin út af lögreglu til þeirra sem sýna fram á nám og reynslu sem nýtist við smíði og lagfæringar slíkra vopna..
Þjónustuaðili
LögreglanTengd stofnun
Umhverfisstofnun